Pure North Recycling hlýtur Bláskelina 2021

16. september 2021

Pure North Recycling hlaut Bláskelina 2021, viðurkenningu umhverfis- og auðlindaráðuneytisins fyrir framúrskarandi lausn við plastvandanum og gott fordæmi. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, afhenti Berki Smára Kristinssyni, rannsókna- og þróunarstjóra hjá Pure North, verðlaunin á málþingi Plastlauss septembers í Veröld-húsi Vigdísar í dag.

Pure North Recycling fæst við endurvinnslu plasts og knýr starfsemi sína með jarðvarma. Fyrirtækið fullnýtir glatorku við bæði þvott og þurrk á hráefninu og dregur þannig úr kolefnisspori endurvinnslunnar um 80%, miðað við sambærilega vinnslu í Evrópu. Pure North Recycling hefur m.a. komið á samstarfi við bændur um að endurvinna heyrúlluplast á Íslandi og gera úr því nýjar vörur, til að mynda girðingastaura.

„Bláskelin, þessi viðurkenning hefur gífurlega mikil áhrif fyrir okkur. Hjá okkur starfar 12 manna hópur sem er afar metnaðarfullur sem er búinn að leggja mikið á sig til þess að ná árangri. Viðurkenningin er okkur hvatning til betri og fleiri verka“

sagði Sigurður Halldórsson, Framkvæmdastjóri Pure North Recycling.

Fimm manna dómnefnd skipuð fulltrúum frá Umhverfisstofnun, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Samtökum iðnaðarins, Plastlausum september og Ungum umhverfissinnum valdi verðlaunahafa úr hópi 17 tilnefndra. Í rökstuðningi dómnefndar kemur fram að Pure North Recycling hafi uppfyllt öll skilyrði sem dómnefndin lagði til grundvallar mati sínu. Fyrirtækið hefur:

  • Haft nýsköpun að leiðarljósi
  • Skapað innlenda hringrás plast
  • Dregið úr vistspori endurvinnslunnar
  • Framleitt vörur úr endurunnu plasti í stað nýs plasts
  • Endurunnið plast á stórum skala og stefnir enn hærra

„Það hefur verið ótrúlegt að fylgjast með viðhorfsbreytingunni sem orðið hefur í umhverfismálum undanfarin ár. Metfjöldi tilnefninga til Bláskeljarinnar nú í ár ber vott um aukinn metnað og vilja til þess að gera betur í plastmálum. Við þurfum að efla innlenda endurvinnslu í sem flestum úrgangsflokkum, því það er bæði skynsamlegt að gera það sem næst upprunastað úrgangsins og það skapar viðskiptatækifæri hér heima. Ég óska verðlaunahöfum innilega til hamingju með Bláskelina og megi þeim vegna sem allra best í því að efla innlenda endurvinnslu. Hún er nauðsynlegur þáttur í því að koma á virku hringrásarhagkerfi hér á landi.“

sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra.

Þrír aðrir aðilar komust í úrslit Bláskeljarinnar, en það voru Bambahús, Hemp Pack og Te & Kaffi. Bambahús eru gróðurhús sem búin eru til úr efnum sem annars hefði verið hent og Hemp Pack er líftæknifyrirtæki sem framleiðir ætt lífplast. Te & Kaffi hlaut tilnefningu fyrir að hafa skipt ál- og plastumbúðum út fyrir umbúðir úr plöntusterkju og trefjum.

Bláskelin er nú veitt í þriðja sinn. Veiting verðlaunanna er í samræmi við aðgerðaáætlun stjórnvalda í plastmálefnum; Úr viðjum plastsins og er þeim ætlað að vekja athygli á nýsköpun í plastmálefnum og plastlausum lausnum.

Verðlaunin voru fyrst veitt árið 2019, þegar brugghúsið Segull 67 hlaut þau fyrir bjórkippuhringi úr lífrænum efnum. Í fyrra hlaut Matarbúðin Nándin Bláskelina fyrir að stuðla að sjálfbæru matvælakerfi með hringrás fyrir glerumbúðir.