Plast

Plast er mjög nytsamlegt en við erum að nota of mikið af því. Við þurfum að draga verulega úr notkun þess, endurnota og endurvinna.

„Á Íslandi er magn umbúðaplastúrgangs um 47 kg á hvern íbúa á ári hverju“

Notkun á plasti er orðin hluti af okkar daglega lífi með öllum sínum kostum og göllum. Plast er eiginlega út um allt, t.d. í matvælaumbúðum, einnota og margnota borðbúnaði, tölvum, leikföngum, fötum og burðarpokum. Plast var uppgötvað í kringum aldamótin 1900 og varð strax mikilvægur staðgengill fyrir vörur sem gerðar voru úr dýrum s.s. horn, skjalbökuskeljar o.fl. 

Plast er mjög nytsamlegt og uppfinning þess hefur haft í för með sér aukin lífsgæði. Til dæmis er plast mikilvægur hluti í ýmsum öryggisbúnaði, svo sem öryggishjálmum- og gleraugum og barnabílstólum. Plast hefur gert bíla og flugvélar léttari og þar af leiðandi sparað jarðefnaeldsneyti. Notkun plasts í matvælaiðnaðinum hefur aukið geymsluþol margra vara sem aftur dróg úr matarsóun og ýtti undir matvælaöryggi. Plast er líka mjög mikilvægt efni í heilbrigðisþjónustu þar sem það getur stutt við sóttvarnir og hreinlæti. 

En hvað er þá vandamálið? Eitt af vandamálunum er að framleiðsla á plasti hefur 200-faldast síðan árið 1950 og við erum alltaf að nota plastið styttra og styttra. Plast endist ótrúlega lengi en við erum oft að nota það bara í nokkrar mínútur. Með aukinni framleiðslu og styttri líftíma er meira og meira af plasti að enda í náttúrunni og hafa neikvæð áhrif á lífríki.

Af hverju getur plast verið vandamál?

Óþarfa neysla er auðlindasóun

Til að framleiða plast er að mestu leyti notuð olía og jarðgas en einnig efni eins og kol, sellulósi, gas og salt. Eins og svo margt annað sem við nýtum frá jörðinni eru olíuauðlindir okkar ekki endurnýjanlegar. Það þýðir að á endanum mun auðlindin klárast. Þess vegna er mikilvægt að fara vel með olíuauðlind okkar og eyða henni ekki í efni sem síðan er hent eftir aðeins eina eða takmarkaða notkun. Að auki getur verið erfitt að endurvinna plast svo það leysir aðeins hluta vandans.

Líftíminn ekki í samræmi við notkunartímann

Eiginleikar plasts eru þannig að endingartími þess er yfirleitt nokkuð mikill. Plast er slitsterkt svo það hverfur ekki eða eyðist heldur brotnar í smærri og smærri plasthluta í náttúrunni og verður að svokölluðu örplasti sem veltist um í sjó og vatni eða safnast fyrir í seti og jarðvegi. Plast er það létt efni að það flýtur. Það getur þar af leiðandi borist um hundruði kílómetra í vötnum og höfum og valdið þannig skaða langt frá upprunastað sínum. Gríðarstórir flákar af plasti hafa til að mynda mótast í Kyrrahafi, Atlantshafi og Indlandshafi þar sem hafstraumar hafa borið plastið þangað. Það er síðan fast þar í þessum gríðarstórum hringstraumum sem þar eru.

Neikvæð áhrif á lífríkið

Margar rannsóknir hafa verið gerðar á efnum í plasti og áhrifum þeirra á heilsu og umhverfi okkar. Áhyggjur manna eru aðallega þríþættar:

Áhrif á lífríki sjávar

Dýr festast í plastrusli og hljóta af því ljót sár eða deyja vegna þess að þau geta ekki náð í mat. Dýrin geta líka innbyrt litlar plastagnir sem þau fyrir mistök telja vera mat. Þessar agnir geta stíflað meltingaveg dýra og valdið síðan kvalafullum dauðdaga. Plastið getur einnig safnast fyrir í dýrum og borist upp fæðukeðjuna og þar með endað í okkar líkama. Plast í sjó, ám og vatni getur auk þess virkað sem flutningstæki fyrir dýr og plöntur milli staða sem geta verið ágengar framandi lífverur á nýja staðnum og valdið þar miklum umhverfisáhrifum og breytingum á lífríki.

Skaðleg íblöndunarefni

Þegar plast er framleitt er ýmsum efnum bætt í það til að ná fram ákjósanlegum eiginleikum sem sum geta losnað úr þeim við notkun og haft slæm áhrif á heilsu og umhverfi.

Þeirra á meðal eru þalöt (e. phthalates), bisphenol A (BPA) og eldvarnarefni (PBDEs og TBBPA). Þessi efni eru þrávirk og safnast fyrir í lífverum upp fæðukeðjuna. Rannsóknir hafa sýnt að ákveðin efni úr plasti hafi mögulega hormónaraskandi áhrif. Þalöt sem notuð eru í t.d gólf vínil, matarumbúðir og sjúkragögn hafa fundist í mælanlegu magni í börnum og fullorðnum en talið er að þetta efni geti haft áhrif á þroska kynfæra drengja. Efnið bisphenol A (BPA) sem notað er t.d. í drykkjarflöskur og matarumbúðir getur lekið út í matinn. Efnið er hormónaraskandi og hefur verið tengt við hjartasjúkdóma og sykursýki. Um ákveðin þalöt og BPA efni gilda þó strangar takmarkanir og bönn í dag. Í svokölluðu PVC-plasti er klór sem gerir það að verkum að bæði framleiðsla þess mengar meira en mörg önnur plastframleiðsla og við brennslu getur myndast díoxín. Það vantar þó fleiri rannsóknir, sér í lagi lýðheilsurannsóknir og rannsóknir á því hvort öll þessi efni geti haft samverkandi áhrif á heilsu og umhverfi okkar.

Plast flytur eiturefni

Ýmis eiturefni geta loðað við plast og plastagnir og þannig getur efnið virkað sem einskonar vörubíll fyrir eiturefni í gegnum fæðukeðjuna. Þetta geta til dæmis verið skordýraeitur, úrgangsefni frá bílum, iðnaði og landbúnaði. Ef dýr éta plast geta þau innbyrt þessi eiturefni sem síðan geta farið út í vefi og líffæri dýranna.

Rannsókn vísindamanna í Pangea- leiðangrinum sem farinn var frá Bermúda til Íslands í júní 2014, sýndi að sjávardýr og fuglar ruglast oft á þessum plastögnum og mat, sem sást á bitförum á plasti og magainnihaldi dýra. Einnig voru vísbendingar um að tenging sé á milli þess hve mengaðir fiskarnir eru og magni plastrusls í hafinu. Vegna eiginleika plasts til að fljóta geta eiturefni sem festast við plastið á einum stað borist víða vegu og mengað staði og dýr á fjarlægum stöðum. Líkur eru á að eiturefni sem loða við plast geti borist hærra og hærra upp fæðukeðjuna og að endingu til okkar.

Neikvæð áhrif á efnahag og ímynd

Að minnsta kosti 8 milljónir tonna af plasti enda í hafinu árlega og mikill kostnaður felst í að tína það upp. Til Hornstranda berst mikið af rekavið frá hafi en í dag rekur þar einnig á fjörur gríðarmikið magn af plastrusli.

Ímynd Íslands - ósnortin náttúra og hrein höf

Fyrir utan umhverfislegan kostnað getur plastmengun á hafi og landi haft töluverðan fjárhagslegan kostnað og neikvæð áhrif á ímynd, sér í lagi á landi eins og Íslandi þar sem við leggjum mikið upp úr því að eiga ósnortna náttúru og hrein höf.

Talið er að minnsta kosti 8 milljónir tonna af plasti endi í hafinu og mikill kostnaður felst í að tína það upp. Til Hornstranda berst mikið af rekavið frá hafi en í dag rekur þar einnig á fjörur gríðarmikið magn af plastrusli. Þar fer fram árlegt hreinsunarátak sem margir aðilar koma að til að hreinsa rusl úr fjörum í friðlandinu. Árið 2020 höfðu safnast alls 36,5 tonn af plasti í 7 hreinsunarferðum til Hornstranda. Sambærileg hreinsun er nú hafin á ströndum Rauðasands þar sem sjálfboðaliðar og stofnanir taka til hendinni. Einnig hafa samtökin Blái herinn staðið lengi fyrir hreinsunum við strandlengjuna og í maí 2017 hleypti Landvernd ásamt fleirum af stað samnorrænu verkefni sem kallast Hreinsum Ísland.

Það er ekki gott til þess að vita að í íslenskri náttúru sem við viljum kalla ósnortna, séu fleiri tonn af rusli bæði frá Íslendingum og rusl sem borist hefur hingað um óravegu með hafstraumum. Ruslið hefur ekki aðeins slæm áhrif á lífríkið í náttúrunni heldur einnig á ímynd Íslands.

Áhugaverðar tölur

20 mín - Meðal notkunartími plastpoka

Meðalnotkunartími plastpoka

13.000 Tonn umbúðaplastúrgangs á Íslandi á ári

tonn af umbúðaplastúrgangi á Íslandi á ári

35% - Endurvinnsla á umbúðaplasti á Íslandi síðustu ár

%

Endurvinnsla á umbúðaplasti á Íslandi síðustu ár

Hvað notum við mikið af plasti og hvað lengi?

Notkunartími einnota plasts er mjög stuttur því einnota umbúðum er hent um leið og búið er að drekka vatnið, kaffið, borða brauðið, ávextina og fleira. Að meðaltali er talið að hver plastpoki sé notaður í um 20 mínútur og endi síðan í ruslinu eða úti í náttúrunni. Þessi óþarfa notkun á einnota plasti verður til þess að allt of mikið er til af því og það safnast fyrir í umhverfinu og veldur skaða á lífríki.

Á Íslandi er magn umbúðaplastúrgangs um 47 kg á hvern íbúa á hverju ári eða alls um 16.500 tonn á ári. Þegar við tölum um umbúðaplast er átt við allt umbúðaplast sem tengist lífi einstaklings, heimili, skóla og vinnu.  Endurvinnsla á umbúðaplasti á Íslandi síðustu ár er í kringum 40%, en inni í þeirri tölu er endurvinnsla drykkjavöruumbúða með skilagjaldi (80-85% endurunnið), heyrúlluplasts (80-85% endurunnið) og annarra umbúða úr plasti (10-15% endurunnið). Tölfræði um endurvinnslu umbúða er einnig að finna á síðu um tölfræði úrgangs á síðu Umhverfisstofnunar.

Ekki eru til góðar heildartölur fyrir annað plast sem ekki er skilgreint sem umbúðir og er t.d. í raftækjum, leikföngum, húsgögnum og slíku. Svo þær tölur vantar hér.

Spói

Plastaþon

Hugmyndasmiðja árið 2019 um lausnir á plastvandanum​

Teymi unnu hugmyndir og kynntu fyrir dómnefnd. Veitt voru verðlaun fyrir bestu hugmyndina.

Hvað er til ráða?

Plast er mjög nytsamlegt og okkur mjög mikilvægt, en við notum alltof mikið af því. Við þurfum að draga úr notkun þess, auka líftímann og endurvinna það sem við komumst ekki hjá að nota. 

Kaupa minna

Besta leiðin til að draga úr óþarfa auðlindanotkun er að draga úr óþarfa neyslu! Við þurfum því að draga almennt úr neyslu, ekki bara á plasti, heldur öllum óþarfa.

Þegar við kaupum vörur sem eru ekki úr plasti er virðiskeðja þeirra enga að síður full af plasti. Sem dæmi má nefna fatnað sem við kaupum og förum með heim í margnota pokanum okkar. Í mörgum tilfellum hefur flíkin ferðast á milli heimshorna í plastumbúðum og allskonar plastvörur komið að framleiðslu hennar. Við komum þannig ekki í veg fyrir plastnotkun bara með að sleppa pokanum heldur er besta leiðin að sleppa því að kaupa vöruna. 

Fjölnota í stað einnota

Sleppum óþarfa einnota hlutum og hugsum um hvað við virkilega þurfum. Þarf ég poka? Þarf ég rör? Þarf ég kaffihræru? 

Notum fjölnota eins mikið og við getum. Til dæmis poka, borðbúnað, umbúðir, rör, kaffimál og fleira og búum okkur til leiðir til að muna eftir þessu, t.d. með því að hafa þá hluti sem við notum mest alltaf í töskunni, bílnum, vasanum o.s.frv.

Versla umbúðalaust

Með því að versla umbúðalaust drögum við ekki bara úr plastnotkun heldur komum við líka í veg fyrir að við séum að færa plastnotkunina okkar yfir á óþarfa notkun á öðru efni.

Síðastliðin ár hefur verið aukin áhersla á að neytendur og fyrirtæki geti verslað umbúðalaust, s.s. grænmeti í lausu eða þurrvörur sem hægt er að hella beint í eigið ílát. Í dag er oft hægt að taka með eigin ílát í kjöt- og fiskborð og sérverslanir. Við getum stutt verslanir sem bjóða upp á slíka möguleika. 

Flokka

Endurvinnsluhlutfall plastumbúða hefur verið um 43% síðustu ár. Þarna getum við gert betur! Með því að koma umbúðunum í endurvinnslu getum við dregið úr líkunum á að plastið endi í náttúrunni og hafi neikvæð áhrif á lífríkið.

Þar sem plast endist ótrúlega lengi er mikilvægt að koma efninu áfram inn í hagkerfið og stuðla þannig að hringrás efnisins. Endurvinnsla er það minnsta sem við getum gert til að leggja okkar að mörkum.

Vera virkur og virkja aðra

Taka þátt í frjálsum félagasamtökum sem vinna að því að draga úr plastmengun, til dæmis:

Virkja vinnustaðinn til að draga úr plastnotkun, meðal annars með því að skipta einnota yfir í fjölnota, nota plastpokalausar sorpflokkunarlausnir o.s.frv.

Fá vinahópa og fjölskyldu með út í ruslatínslugöngu eða plokk.  

Senda áskoranir á verslanir og fyrirtæki að draga úr plastnotkun.

Skora á stjórnvöld og benda á leiðir til að sporna við plastnotkun og mengun.

 

Bláskelin er viðurkenning sem er veitt fyrirtæki, stofnun, einstaklingi eða öðrum fyrir framúrskarandi lausnir sem stuðla að minni plastnotkun og plastúrgangi í samfélaginu.