Plast

Plast er mjög nytsamlegt en við erum að nota of mikið af því. Við þurfum að draga verulega úr notkun þess, endurnota og endurvinna.

8 af hverjum 10 hafa minnkað plastnotkun til að draga úr umhverfisáhrifum

Umhverfiskönnun Gallup árið 2021 gaf til kynna að stór hluti þjóðarinnar reyni að minnka plastnotkun vegna umhverfisáhrifa og að sífellt fleiri tilheyri þessum hóp. Að minnka plastnotkun og flokka sorp er það sem flestir segjast hafa gert til að draga úr umhverfisáhrifum. 70% segjast einnig hafa dregið úr notkun einnota umbúða. 

Notkun á plasti er orðin hluti af okkar daglega lífi með öllum sínum kostum og göllum. Plast er eiginlega út um allt, t.d. í matvælaumbúðum, einnota og margnota borðbúnaði, tölvum, leikföngum, fötum og burðarpokum. Plast var uppgötvað í kringum aldamótin 1900 og varð strax mikilvægur staðgengill fyrir vörur sem gerðar voru úr dýrum s.s. horn, skjaldbökuskeljar o.fl.

Plast er mjög nytsamlegt og uppfinning þess hefur haft í för með sér aukin lífsgæði. Til dæmis er plast mikilvægur hluti í ýmsum öryggisbúnaði, svo sem öryggishjálmum- og gleraugum og barnabílstólum. Plast hefur gert bíla og flugvélar léttari og þar af leiðandi sparað jarðefnaeldsneyti. Notkun plasts í matvælaiðnaðinum hefur aukið geymsluþol margra vara sem aftur dróg úr matarsóun og ýtti undir matvælaöryggi. Plast er líka mjög mikilvægt efni í heilbrigðisþjónustu þar sem það getur stutt við sóttvarnir og hreinlæti.

Hvað get ég gert?

Plast er mjög nytsamlegt og okkur mjög mikilvægt, en við notum alltof mikið af því. Við þurfum að draga úr notkun þess, auka líftímann og endurvinna það sem við komumst ekki hjá að nota. 

Kaupa minna
  • Óþarfa neysla
    Besta leiðin til að draga úr óþarfa auðlindanotkun er að draga úr óþarfa neyslu! Við þurfum því að draga almennt úr neyslu, ekki bara á plasti, heldur öllum óþarfa. Þegar við kaupum vörur sem eru ekki úr plasti er virðiskeðja þeirra enga að síður full af plasti. Við komum þannig ekki í veg fyrir plastnotkun bara með að sleppa pokanum.
  • Kaupa notað
    Með því að kaupa notaða hluti í stað nýrra sparar þú efni sem koma að framleiðslu þeirra, þar með talið plastvörur. 
    Fjölnota í stað einnota
    • Sleppa óþarfa einnota hlutum
      Hugsum um hvað við virkilega þurfum. Þarf ég poka? Þarf ég rör? Þarf ég kaffihræru? Kannanir sýna að 70% þjóðarinnar hafi dregið úr notkun einnota umbúða á síðustu árum.
    • Nota fjölnota eins mikið og við getum
      Til dæmis poka, borðbúnað, umbúðir, rör, kaffimál og fleira
    • Búum okkur til leiðir til að muna eftir fjölnota hlutum
      Til dæmis með því að hafa þá hluti sem við notum mest alltaf í töskunni, bílnum, vasanum o.s.frv.
    Versla umbúðalaust
    • Velja umbúðalaust
      Með því að versla umbúðalaust drögum við ekki bara úr plastnotkun heldur komum við líka í veg fyrir að við séum að færa plastnotkunina okkar yfir á óþarfa notkun á öðru efni.
    • Styðja verslanir sem selja umbúðalaust
      Síðastliðin ár hefur verið aukin áhersla á að neytendur og fyrirtæki geti verslað umbúðalaust, s.s. grænmeti í lausu eða þurrvörur sem hægt er að hella beint í eigið ílát. Í dag er oft hægt að taka með eigin ílát í kjöt- og fiskborð og sérverslanir. Við getum stutt verslanir sem bjóða upp á slíka möguleika, t.d.:
      Flokka
      • Plast í endurvinnslu
        Um 88% þjóðarinnar flokkar úrgang en þó hefur endurvinnsluhlutfall plastumbúða verið um 28% síðustu ár. Við getum því gert enn betur. Með því að koma umbúðum í endurvinnslu getum við dregið úr líkunum á að plastið endi í náttúrunni og hafi neikvæð áhrif á lífríkið.
      • Hringrás plasts
        Þar sem plast endist ótrúlega lengi er mikilvægt að koma efninu áfram inn í hagkerfið og stuðla þannig að hringrás efnisins. Endurvinnsla er það minnsta sem við getum gert til að leggja okkar að mörkum.
        Vera virkur og virkja aðra
        • Virkja vinnustaðinn
          Fá vinnustaðinn til að draga úr plastnotkun. Meðal annars með því að skipta einnota yfir í fjölnota, nota plastpokalausar sorpflokkunarlausnir o.s.frv.
        • Virkja vini
          T.d. fá vinahópa og fjölskyldu með út í ruslatínslugöngu eða plokk.
        • Skora á fyrirtæki
          T.d. senda áskoranir á verslanir og fyrirtæki að draga úr plastnotkun.
        • Skora á stjórnvöld
          Benda á leiðir til að sporna við plastnotkun og mengun.

        Bláskelin er viðurkenning sem er veitt fyrirtæki, stofnun, einstaklingi eða öðrum fyrir framúrskarandi lausnir sem stuðla að minni plastnotkun og plastúrgangi í samfélaginu.

        Afhverju getur plast verið vandamál?

        Framleiðsla á plasti hefur 200-faldast síðan árið 1950 og við erum alltaf að nota plastið í styttri og styttri tíma. Plast endist ótrúlega lengi en við erum oft að nota það bara í nokkrar mínútur. Með aukinni framleiðslu og styttri líftíma er meira og meira af plasti að enda í náttúrunni og hafa neikvæð áhrif á lífríki. 

        Umhverfisáhrif

        Vissir þú að

        …á hverju ári enda um 8 milljón tonn af plasti í sjónum?

        …plast er að finnast allstaðar í náttúrunni, í lífverum og fæðukeðjum og í drykkjarvatninu okkar?

        Áhrif á lífríki
        • Dýr festast í plasti
          Dýr festast í plastrusli og hljóta af því ljót sár eða deyja vegna þess að þau geta ekki náð í mat
        • Dýr innbyrða plast
          Dýrin geta líka innbyrt litlar plastagnir sem þau fyrir mistök telja vera mat. Þessar agnir geta stíflað meltingaveg dýra og valdið síðan kvalafullum dauðdaga. Plastið getur einnig safnast fyrir í dýrum og borist upp fæðukeðjuna og þar með endað í okkar líkama.
        • Dýr og plöntur villast
          Plast í sjó, ám og vatni getur virkað sem flutningstæki fyrir dýr og plöntur milli staða sem geta verið ágengar framandi lífverur á nýja staðnum og valdið þar miklum umhverfisáhrifum og breytingum á lífríki.
          Heilsuspillandi efni
          • Efni í plasti
            Þegar plast er framleitt er ýmsum efnum bætt í það til að ná fram ákjósanlegum eiginleikum sem sum geta losnað úr þeim við notkun og haft slæm áhrif á heilsu og umhverfi. Þeirra á meðal eru þalöt (e. phthalates), bisphenol A (BPA) og eldvarnarefni (PBDEs og TBBPA). Þessi efni eru þrávirk og safnast fyrir í lífverum upp fæðukeðjuna.
          • Þalöt
            Rannsóknir hafa sýnt að ákveðin efni úr plasti hafi mögulega hormónaraskandi áhrif. Þalöt sem notuð eru í t.d gólf vínil, matarumbúðir og sjúkragögn hafa fundist í mælanlegu magni í fólki en talið er að það geti haft áhrif á þroska kynfæra drengja. Strangar takmarkanir og bönn gilda í dag um ákveðin þalöt.
          • Bisphenol A (BPA)
            Notað t.d. í drykkjarflöskur og matarumbúðir og getur lekið út í matinn. Efnið er hormónaraskandi og hefur verið tengt við hjartasjúkdóma og sykursýki. Um BPA efni gilda þó strangar takmarkanir og bönn í dag.
          • PVC-plast
            Inniheldur klór sem gerir það að verkum að bæði framleiðsla þess mengar meira en mörg önnur plastframleiðsla og við brennslu getur myndast díoxín.
            Fæðukeðjan
            • Eiturefni
              Ýmis eiturefni geta loðað við plast og plastagnir og þannig getur efnið virkað sem einskonar vörubíll fyrir eiturefni í gegnum fæðukeðjuna. Þetta geta til dæmis verið skordýraeitur, úrgangsefni frá bílum, iðnaði og landbúnaði. Ef dýr éta plast geta þau innbyrt þessi eiturefni sem síðan geta farið út í vefi og líffæri dýranna. Líkur eru á að eiturefni sem loða við plast geti borist upp fæðukeðjuna og að endingu til okkar.
            • Mengun frá plasti
              Sjávardýr og fuglar ruglast á plastögnum og mat, sem hefur sést á bitförum á plasti og magainnihaldi dýra. Einnig eru vísbendingar um að magn plastrusls í hafinu tengist hve mengaðir fiskar eru.
            • Fljótandi plast
              Plast hefur þann eiginleika að fljóta og því geta eiturefni fests við plastið á einum stað og borist langar leiðir og mengað staði og dýr.
              Sóun á auðlindum
              • Línulegt hagkerfi
                Plast er almennt fast í línulegu hagkerfi þar sem náttúruauðlindir eru nýttar til að framleiða vöru sem er notuð í stuttan tíma og endar hratt sem úrgangur.
              • Olíuauðlindir
                Til að framleiða plast er að mestu leyti notuð olía og jarðgas en einnig efni eins og kol, sellulósi, gas og salt. Eins og svo margt annað sem við nýtum frá jörðinni eru olíuauðlindir okkar ekki endurnýjanlegar. Það þýðir að á endanum mun auðlindin klárast.
              • Neysla og sóun
                Óþarfa neysla er mikil sóun á dýrmætum auðlindum. Þess vegna er mikilvægt að fara vel með olíuauðlind okkar og eyða henni ekki í efni sem síðan er hent eftir aðeins eina eða takmarkaða notkun. Að auki getur verið erfitt að endurvinna plast svo það leysir aðeins hluta vandans.
                Líftími plasts
                • Notkun plasts
                  Eiginleikar plasts eru þannig að endingartími þess er yfirleitt nokkuð mikill. Þessi líftími plasts er hins vegar ekki í samræmi við notkun þess.
                • Örplast
                  Plast er slitsterkt svo það hverfur ekki eða eyðist heldur brotnar í smærri og smærri plasthluta í náttúrunni og verður að svokölluðu örplasti sem veltist um í sjó og vatni eða safnast fyrir í seti og jarðvegi.
                • Vötn og höf
                  Plast er það létt efni að það flýtur. Það getur því borist um hundruði kílómetra í vötnum og höfum og valdið skaða langt frá upprunastað sínum. Gríðarstórir flákar af plasti hafa til að mynda mótast í Kyrrahafi, Atlantshafi og Indlandshafi þar sem hafstraumar hafa borið plastið þangað. Það er síðan fast í gríðarstórum hringstraumum sem þar eru.

                  Samfélagsleg áhrif

                  Vissir þú að

                  …að plastmengun hefur verst áhrif á viðkvæma hópa?

                  …að strandhreinsunum fylgir töluverður kostnaður?

                  Kostnaður
                  • Hreinsanir
                    Plastmengun hefur í för með sér kostnað fyrir samfélagið, meðal annars við kostnað við hreinsanir. Talið er að minnsta kosti 8 milljónir tonna af plasti endi í hafinu og mikill kostnaður felst í að tína það upp.
                  • Hornstrandir
                    Til Hornstranda berst mikið af rekavið frá hafi en í dag rekur þar einnig á fjörur gríðarmikið magn af plastrusli. Þar fer fram árlegt hreinsunarátak sem margir aðilar koma að til að hreinsa rusl úr fjörum í friðlandinu. Árið 2020 höfðu safnast alls 36,5 tonn af plasti í 7 hreinsunarferðum til Hornstranda.
                  • Rauðisandur
                    Sambærileg hreinsun er nú hafin á ströndum Rauðasands þar sem sjálfboðaliðar og stofnanir taka til hendinni. Einnig hafa samtökin Blái herinn staðið lengi fyrir hreinsunum við strandlengjuna og í maí 2017 hleypti Landvernd ásamt fleirum af stað samnorrænu verkefni sem kallast Hreinsum Ísland.
                    Áhrif á ímynd
                    • Hreinleiki
                      Ruslið hefur ekki aðeins slæm áhrif á lífríkið í náttúrunni heldur einnig á ímynd Íslands. Plast í náttúrunni getur dregið úr ímynd um hreinleika landsins.
                    • Ósnortin náttúra
                      Á Íslandi er mikil lagt upp úr því að eiga ósnortna náttúru og hrein höf. Það er ekki gott til þess að vita að í íslenskri náttúru sem við viljum kalla ósnortna, séu fleiri tonn af rusli bæði frá Íslendingum og rusl sem borist hefur hingað um óravegu með hafstraumum.
                      Plast og ójöfnuður
                      • Viðkvæmir hópar
                        Viðkvæmir hópar geta orðið fyrir verri áhrifum af plasti vegna óskilvirkrar sorphirðu eða skorti á sorphirðu. Einnig geta verið slæm áhrif af framleiðslu plasts, notkunar og mengaðs umhverfis vegna plasts.
                      • Framleiðsla plasts
                        Plast er unnið úr olíu og olíuvinnsla getur verið mjög skaðleg og mengandi. T.d. hafa samfélög frumbyggja þurft að flýja landsvæði fyrir olíuborun, vinnslan getur mengað drykkjarvatn og olíuhreinsunsarstöðvar geta verið skaðlegar heilsu fólks sem býr í nágrenni þeirra.
                      • Notkun plasts
                        Konur eru líklegri til að vera útsettar fyrir eiturefnum í plasti vegna meiri notkunar plasts í vörum fyrir heimilið, snyrtivörum eða tíðarvörum.
                      • Förgun plasts
                        Plast sem fær ekki rétta úrgangsmeðhöndlun endar gjarnan í sjónum þar sem það getur ógnað lífsviðurværi fólks sem reiðir sig á fæðu úr sjónum. Plast getur jafnvel leynst í fæðu og ógnað heilsu fólks.
                      • Plasttínsla
                        Fólk sem starfar við plasttínslu er hlutfallslega meira útsett fyrir eiturefnum í plasti

                        Hvað er plast?

                        Plast er samheiti yfir mörg efnasambönd sem eiga það sameiginlegt að vera svokallaðar fjölliður sem íblöndunarefnum eða öðrum efnum hefur verið bætt við. Algengast er að plast sé framleitt úr jarðefnaeldsneyti en á undanförnum árum hefur framleiðsla á plasti úr öðrum efnum aukist, s.s. úr sykurreyr eða sterkju. Plast hverfur ekki eða eyðist við náttúrulegt niðurbrot, heldur brotnar það niður í smærri og smærri hluta og verður að endingu að svokölluðu örplasti.

                        Örplast

                        Örplast er heiti yfir smáar plastagnir sem eru minni en 5 mm að stærð.

                        Örplast sem sett er í vörur

                        Í sumum tilfellum er örplast framleitt í tilteknum tilgangi, s.s. plastþræðir í fatnað, örperlur í snyrtivörur og plastkorn sem notuð eru sem hráefni í almenna plastframleiðslu.

                          Örplast vegna niðurbrots stærri plasthluta

                          Örplast getur hins vegar líka orðið til við aflræna veðrun og niðurbrot stærri plasthluta sem berast út í umhverfið, t.d. drykkjarflaskna, veiðarfæra, plastumbúða og plastpoka. Ekki skiptir máli af hvorum þessara uppruna örplastið er þegar það hefur borist í umhverfið, það veldur sama skaða.

                          Lífplast

                          Lífplast er samheiti yfir plasttegundir sem framleiddar eru úr lífmassa (e. bio-based), eru lífbrjótanlegar (e. biodegradable) eða bæði.

                          Þrír meginhópar lífplasts

                          Helstu hráefni sem notuð eru í lífplast sem framleitt er úr lífmassa eru maís, sykurreyr, sykur og hálmur. Allt eru þetta endurnýjanlegar auðlindir, annað en jarðolía sem hefðbundið plast er framleitt úr. Lífbrjótanlegt plast brotnar niður í vatn, lífmassa og koldíoxíð (CO2) við líffræðilegt niðurbrot.

                          Sá eiginleiki plasts að vera lífbrjótanlegt er ekki háður hráefninu sem það er framleitt úr (lífmassi eða jarðolía) heldur tengist hann efnafræðilegri uppbyggingu plastsins. Þetta þýðir að plast sem er framleitt úr 100% lífmassa getur verið ólífbrjótanlegt og plast sem framleitt er úr 100% jarðolíu getur verið lífbrjótanlegt.

                          Lífplasti má því gróflega skipta í þrjá meginhópa:

                          1. Framleitt úr lífmassa að hluta eða öllu leyti og ólífbrjótanlegt – t.d. bio-PE, bio-PET, bio-PA og bio-PP
                            • Notað í auknum mæli í samsettar umbúðir, t.d. í plasttappa á mjólkurfernum
                            • Flokkast með plasti til endurvinnslu
                          2. Framleitt úr lífmassa og lífbrjótanlegt – t.d. PLA og PHA
                            • Notað í plastpoka, penna og einnota borðbúnað svo eitthvað sé nefnt
                            • Á að brotna niður í iðnaðarjarðgerð og flokkast því með lífrænum úrgangi (almennum úrgangi ef lífræn flokkun er ekki til staðar)
                          3. Framleitt úr jarðolíu og lífbrjótanlegt – t.d. PBAT
                            • M.a. notað í poka og matarfilmu og sem innsta lag í umbúðum og borðbúnaði úr sterkju.
                            • Flokkast með almennum úrgangi

                          Mikilvægt er að umbúðir úr lífplasti innihaldi skýrar upplýsingar um hvaða gerð þær eru og hvernig skal flokka þær.

                          Kostir og gallar
                          • Kostir
                            • Helsti kosturinn við notkun lífplasts úr lífmassa er að efnið er framleitt úr endurnýjanlegum auðlindum, sem olíulindir eru ekki
                            • Umhverfisávinningur framleiðslunnar eykst enn frekar þegar aukaafurðir frá annarri framleiðslu eru nýttar
                          • Gallar
                            • Það er algengur misskilingur að lífplast sé lausnin við þeim vandamálum sem notkun okkar á hefðbundnu plasti veldur
                            • Ekki er æskilegt að skipta einni einnota vöru út fyrir aðra þar sem þær skapa óþarfa úrgang
                            • Rannsóknir hafa sýnt að lífbrjótanlegt plast veldur svipuðum skaða og hefðbundið plast ef það endar í umhverfinu því það brotnar hægt eða alls ekki niður í náttúrunni 
                            • Lífplast ruglar neytendur í ríminu þegar kemur að flokkun
                            • Lífbrjótanlegt plast getur skemmt fyrir plastendurvinnslu ef það endar þar – það flokkast sem lífrænn eða almennur úrgangur
                            • Lífsferilsgreiningar á umbúðum benda til þess að umhverfisáhrif batni lítillega með því að fara úr hefðbundnu plasti yfir í plast úr lífmassa, áhrifin hreinlega breytast. Á meðan framleiðsla á hefðbundnu plasti veldur meiri losun gróðurhúsalofttegunda getur framleiðsla á plasti úr lífmassa haft mikil áhrif á landnotkun, súrnun og ofauðgun
                            • Lífbrjótanlegt plast sem merkt er jarðgeranlegt (e. compostable) er það yfirleitt einungis í iðnaðarjarðgerð og getur því skemmt fyrir í heimajarðgerð

                          Við þurfum fyrst og fremst að draga úr plastnotkun, ekki skipta úr einni einnota vöru yfir í aðra.

                            Skilgreiningar

                            Lífbrjótanlegt plast: brotnar niður við líffræðilegt niðurbrot sem er efnafræðilegt ferli þar sem örverur úr umhverfinu umbreyta efnum í vatn, lífmassa og koldíoxíð (CO2). Hraði niðurbrotsins er m.a háður hita- og rakastigi og framboði af örverum í umhverfinu. Líffræðilegt niðurbrot getur átt sér stað í vatni, jarðvegi og jarðgerð.

                            Jarðgeranlegt plast (e. compostable): jarðgeranlegt plast verður að moltu (e. compost) þegar líffræðilegt niðurbrot á sér stað við stýrðar aðstæður í jarðgerð. Í iðnaðarjarðgerð er oftast meiri hiti en í heimajarðgerð og því ekki víst að plast sem merkt er jarðgeranlegt sé það sannarlega í heimajarðgerð. Mikilvægt er að framleiðendur merki með skýrum hætti við hvaða aðstæður umbúðin sé jarðgeranleg. Í evrópska staðlinum EN 13432 kemur fram að til að hægt sé að halda því fram að plast sé jarðgeranlegt í iðnaðarjarðgerð þurfi það að hafa brotnað að fullu niður eftir 6 mánuði. Það þýðir að 90% eða meira af plastinu hafi breyst í koldíoxíð (CO2).

                            Lífplast úr lífmassa (e. bio-based): er að fullu eða hluta til framleitt úr líffræðilegu hráefni öfugt við jarðolíu sem hefðbundið plast er framleitt úr. Best er ef slíkt plast er framleitt úr aukaafurðum frá annarri framleiðslu.

                            Ólífbrjótanlegt plast (e. non-biodegradable): brotnar niður í smærri hluta fyrir tilstilli súrefnis og sólarljóss og myndar að endanum örplast. Örplastið brotnar ekki að fullu niður og hverfur því ekki úr náttúrunni heldur safnast þar upp. Stundum er orðið niðurbrjótanlegt (e. degradable) notað fyrir þessa tegund plasts.

                            Plast niðurbrjótanlegt með oxun (e. oxo-degradable): er plast þar sem íblöndunarefnum hefur verið bætt við svo það brotni hraðar niður í örplast, með oxun.

                            Skýringamynd frá Sorpu

                            Tegundir plasts eftir uppruna efnis og niðurbrjótanleika. Mynd birt með leyfi Sorpu.

                            Plastmerkingar

                            Plast er ekki bara plast heldur eru til margar mismunandi gerðir af því og til að ná fram ákjósanlegum eiginleikum eins og mýkt, endingu, hörku og að það brenni síður er ýmsum efnum bætt út í það.

                            Þríhyrningarnir 7

                             Plast er oft einkennt með þríhyrning með tölu inn í sem endurspeglar tegund fjölliðu.

                             

                            Númer Skammstöfun Heiti Dæmi Endurvinnsla
                            1 PET Polyethylen terephthalat Gosflöskur, flíspeysur Hentar vel til endurvinnslu
                            2 HDPE Polyethylen – High Density (HDPE) Umbúðir fyrir snyrtivörur Hentar vel til endurvinnslu
                            3 PVC Polyvinylchlorid Plastfilma, leikföng, regnföt Hentar illa til endurvinnslu
                            4 LDPE Polyethylen – Low Density (LDPE) Plastpokar Hentar vel til endurvinnslu
                            5 PP Polypropylen Skyrdósir, bílar og gólfteppi Hentar vel til endurvinnslu
                            6 PS Polystyren Frauðplast Hentar illa til endurvinnslu
                            7 Annað/Other Allt annað plast, t.d. lífplast, ABS, EVA, nylon Lego kubbar, öryggisgler, lífbrjótanleg djúsglös Hentar misvel til endurvinnslu

                            Áhugaverðar tölur

                            20 mín - Meðal notkunartími plastpoka

                            Meðalnotkunartími plastpoka

                            Losun

                            af plastumbúðum á hvern Íslending á ári

                            35% - Endurvinnsla á umbúðaplasti á Íslandi síðustu ár

                            endurvinnsla á plastumbúðum á Íslandi síðustu ár

                             

                            Á Íslandi er magn plastumbúða sem hver íbúi losar sig við um 47 kg á hverju ári eða alls um 16.500 tonn. Þegar við tölum um plastumbúðir er átt við allar umbúðir úr plasti sem tengjast lífi einstaklings, heimili, skóla og vinnu.  Endurvinnsla á plastumbúðum á Íslandi síðustu ár er í kringum 25-30%, en inni í þeirri tölu er endurvinnsla drykkjavöruumbúða með skilagjaldi (85% endurunnið), heyrúlluplasts (60-70% endurunnið) og annarra umbúða úr plasti (10-15% endurunnið). Tölfræði um endurvinnslu umbúða er einnig að finna á síðu Umhverfisstofnunar, úrgangur.is.

                            Ekki eru til góðar heildartölur fyrir annað plast sem ekki er skilgreint sem umbúðir og er t.d. í raftækjum, leikföngum, húsgögnum og slíku. Svo þær tölur vantar hér.

                            Plastaþon

                             

                            Hugmyndasmiðja árið 2019 um lausnir á plastvandanum​

                            Teymi unnu hugmyndir og kynntu fyrir dómnefnd. Veitt voru verðlaun fyrir bestu hugmyndina.

                            Spói

                            Reglur um plast

                            Um mitt ár 2021 tóku í gildi reglur sem setja einnota plastvörum hin ýmsu takmörk.

                            Hvernig eiga einstaklingar að bregðast við takmörkunum á einnota plasti og burðarpokum úr plasti?