Matarsóun

Þriðjungur þess matar sem er framleiddur fer beint í ruslið. Með því að draga úr matarsóun má vernda umhverfið, nýta betur auðlindir og spara fé. Með því að breyta matarvenjum okkar getum við dregið úr óþarfa sóun.

„Sjö af hverjum tíu reyna að lágmarka matarsóun“

Þetta eru niðurstöður þriggja kannana sem Maskína gerði fyrir hönd Umhverfisstofnunnar árið 2015, 2017 og 2021. Fleiri en þúsund þátttakendur voru spurðir í hvert sinn og byggir á tilviljunarúrtaki úr Þjóðskrá og svörin eru svo viktuð til að endurspegla þjóðina útfrá kyni, aldri og búsetu.

Hvað get ég gert?

Ástæður matarsóunnar heimilan eru margþættar. Þær tengjast því hvernig við skipuleggjum okkur, verslum, geymum, eldum, borðum og nýtum afganga. Hér fylgja ráð um hvað hver og einn getur gert til að breyta sínum vönum til að draga úr líkunum á matarsóun. Ef að við sjáum fram á að matarsóun sé yfirvofandi bendum við líka á leiðir til að gefa og molta mat.

Skipuleggja
 • Búa til innkaupalista

Vísbendingar eru um að matarsóun geti minnkað um 20% við það eitt að versla eftir innkaupalista.

 • Kíkja í ísskápinn áður en þú kaupir í matinn

Það hjálpar við skipulagningu á innkaupalista, og matarplani, og tryggir að þú kaupir ekki mat að óþörfu.

 • Taka mynd af því sem er til í ísskápnum

Það getur verið einföld og fljótleg leið til að vita hvað er til í ísskápnum áður en þú ferð út í búð

 • Tala saman um innkaupin.

Ef fleiri en einn sér um innkaupin á heimilinu er mikilvægt að eiga samskipti um innkaupin til að forðast að sama vara sé keypt tvisvar. Það er hægt að tæknivæða slík samskipti með því að nota snjallforrit sem auðvelda fólki að gera sameiginlega innkaupalista.

 • Gera mataráætlanir.

Gott getur verið að miða við að skipuleggja þrjár máltíðir fyrir vikuna. Einnig er æskilegt að gera ráð fyrir að nýta afganga fyrir allavega einn af dögunum og nýta það sem er til fyrir í mataráætlanirnar.

 • Panta matarpakka

Fyrir þá sem hafa lítinn tíma fyrir skipulag er þægilegt að kaupa matarpakka með skipulögðum máltíðum sem eru annaðhvort sóttar eða sendar heim.

 • Halda dagbók fyrir matarafganga

Þetta getur hjálpað þér að fá yfirsýn yfir hversu miklum matvælum þú hendir og hvernig hægt er að skipuleggja hvað eigi að gera úr þeim.

Versla
 • Forðast magnafsláttargryfjuna.

Þú gætir verið að kaupa meira magn en þú nærð að klára áður en það skemmist.

 • Velja litla körfu eða kerru í matvörubúðinni

Ef við veljum of stóra körfu þegar við förum í matvörubúðina er hætta á því að við kaupm meira en við ætlum okkur.

 • Kaupa matvöru í litlum pakkningum

Um 20-25% af matarsóun tengist of stórum pakkastærðum. Við gætum þess vegna haldið að við séum að spara peninga með því að kaupa vöru í meira magni, en það sparast enginn peningur ef maturinn endar svo bara í ruslinu. Ef þú kaupir í stórum pakkningnum er gott að skipta því í minni pakkningar og frysta það sem ekki nýtist strax.

 • Versla við kaupmanninn á horninu

Matarsóun er meiri meðal þeirra sem versla eingöngu í stórmörkuðum. Ódýrara verð stórmarkaða getur því verið tálsýn, þar sem stærri hluti endar í ruslinu. Verslaðu því meira við kaupmanninn á horninu og í sérvöruverslunum eins og fiskbúðum, kjötbúðum, ostabúðum og hjá grænmetissala. Með því að taka gæði umfram magn er líklegra að maður klári gæðavöruna.

 • Kaupa frekar oft og lítið í einu 

Það eru vísbeningar um að matarsóun sé minni meðal heimila sem versla oft í matinn. 

 • Kaupa útlitsgallaðar vörur

Oft er grænmeti og ávöxtum með útlitsgalla hent, alveg af óþörfu. En það er fegurð í fjölbreytileikanum og við getum skemmt okkur við að kaupa skrítnar og skældar matvörur.

Um 20-40% ferskra afurða komast aldrei í verslanir sökum strangra útlitskrafna verslana. Hvort sem það er vegna vitlausrar stærðar, litar eða lögunar. Þetta leiðir til offramleiðslu bænda til að fullvissa að þeir rækti nægilegt magn af „fallegum“ afurðum. Verslanir setja ekki þessar kröfur að ástæðulausu, heldur er það vegna þess að neytendur einfaldlega kaupa ekki „ljótu“ afurðirnar. Bananar mega hvorki vera of eða vanbeygðir, epli ekki of stór eða lítil eða gulrætur of gular, þrátt fyrir að næringargildi útlitsgölluðu afurðanna sé hið sama. Því þarf að breyta viðhorfi neytenda til útlits grænmetis og ávaxta og hvetja verslanir til að selja þessar afurðir. Verslanir geta selt útlitsgallaðar afurðir á lægra verði, hvatt neytendur til að kaupa þessar afskræmdu afurðir og með tímanum sýnt neytendum að þessar afurðir eru alveg jafngóðar og þessar „fallegu“.

 • Kaupa vörur sem eru að renna út

Margar búðir bjóða upp á matvöru á afslætti sem er að nálgast síðasta söludag eða best fyrir dagsetningu. Vörur sem eru komnar yfir síðasta söludag og best fyrir geta verið fullgóðar vörur. Notaðu nefið til að athuga hvort þær séu í lagi og borðaðu þær við fyrsta tækifæri.

Geyma
 • Raða opnuðum umbúðum fremst

Það er gott að skipuleggja ísskápinn þannig að þú raðar elstu vörunum og þeim sem hafa verið opnaðar fremst og í augnhæð.

 • Notaðu nefið

Treystu á skynfærin áður en þú hendir góðum mat.

 • Þekkirðu muninn á geymsluþolsmerkingum?

Síðasti notkunardagur: Matvara gæti verið skaðleg heilsu, ekki taka áhætuna.

Best fyrir, oft gott eftir: Ef matvaran lyktar og bragðast vel er hún í góðu lagi.

 • Stilltu ísskápinn rétt.

Geymslutími matvæla getur styst töluvert ef hitastig ísskáps er of hátt. Í kæliskáp er gott að gera ráð fyrir að hitastigið sé um og undir + 4°C og -18°C í frystiskáp. Ef kæliskápurinn er of heitur er hætt á því að kjöt og fiskur skemmist. Ef kæliskápurinn er of kaldur er hætta á frostskemmdum á grænmeti og ávöxtum.

Sumar nýrri gerðir af kæliskápum nýta sér tækni til þess að ná sem bestri kælingu, t.d. með því að kæla niður vörur hratt ef stórt magn er sett inn í ísskápinn, kælikerfi í hurð skápsins, og mismunandi hitastillingar fyrir kjöt, fisk, grænmeti og ávexti.

 • Hafðu rúmt um matvælin í ísskápnum, þar sem það gefur betri yfirsýn, kælir vörurnar betur og minnkar líkurnar á því að eitthvað týnist í ísskápnum.

 

 • Merktu hvenær þú opnaðir vörur svo að hægt sé að átta sig á því hvað þær eru orðnar gamlar.

 

 • Hafðu fullt af margskonar ílátum í eldhúsinu fyrir afganga.

 

Ávextir og grænmeti

Það er mikilvægt að kaupa ekki of mikið í einu af grænmeti og ávöxtum til að passa að þau skemmist ekki.

 

Gott er að kaupa meira af grænmeti sem endist lengi s.s. gulrætur, rauðrófur, hvítkál og blómkál.

 

Mikilvægt er að pakka grænmeti og ávöxtum vel inn til að lengja geymslutíma, t.d. með því að pakka þeim inn í plast.

 

Yfirleitt er best að geyma grænmeti og ávexti í grænmetisskúffunni í kælinum. Þó geta bananar, ananas, gúrka og eggaldin fengið frostbit ef kælirinn er of kaldur. Óþroskaðir tómatar og avókadó (lárpera) þroskast vel á eldhúsbekknum, en eftir það er best að setja í kæli.

 

Ef þau eru á síðasta snúningi er auðveldlega hægt að frysta og nýta síðar. Ávexti er best að skera niður í minni bita áður en þeir eru settir í frystinn. Grænmeti er gott að sjóða stuttlega og hella svo yfir köldu vatni áður en þeir eru settir í frysti.

 

 

Brauð

Brauð er best að geyma á þurrum stað í stofuhita, og þannig heldur það í ca. viku.

Sniðugt að frysta brauð áður en það myglar og harðnar. Fleiri hugmyndir undir afgangar.

Dósamatur Geymsluþol dósamats er langur. Eftir að dósamatur er opnaður þarf að geyma matinn í ísskáp.
Egg Ef egg eru geymd inn í kæli haldast þau góð langt umfram best fyrir dagsetningu. Best fyrir dagsetningin miðar við að egg hafi verið geymd við stofuhita.
Ferskar kryddjurtir Auktu geymsluþol þeirra með því að vefja þeim inn í vota eldhúsrúllu inni í ísskáp eða frystu. Fleiri hugmyndir undir afgangar.
Harðostar

Ef mygla myndast á hörðum osti þá er í lagi að skera einfaldlega mygluna og svæðið í kringum í burtu.

Ef harðostur er á seinasta snúning er gott að rífa hann niður og setja í frystinn.

Hnetur Hnetur geymast best á dimmum, köldum stað í vel lokuðum umbúðum. Hnetur með skurn er hægt að geyma í mörg ár, en hnetur án skurnar halda í skemmri tíma. Hægt er að setja hnetur í kæli og frysti til að lengja geymsluþol þeirra.
Kjöt og fiskur

Það er mikilvægt að kjöt og fiskur haldist kaldur. Finndu þann stað í kælinum sem er kaldastur og settu kjötið og fiskinn þar. Þetta á sérstaklega við um viðkvæmar vörur s.s. ferskan fisk, skelfisk og hakk.

Það virkar vel að frysta kjöt og fisk. Passaðu að pakka því vel inn og merktu með dagsetningu. Magrar kjötvörur haldast lengur í frysti en feitari vörur.

Kartöflur Gott að geyma á svölum stað
Mjólkurvörur

Mjólk og jógúrt sem hafa verið vel kæld geymast oftast mun lengur en uppgefnar dagsetningar, því ber að treysta á skynfærin þegar svo á við.

Mjólk og rjómi á seinasta snúning er hægt að setja í frystinn. Það er ekki hægt að þeyta frystan rjóma, en það virkar vel að elda með honum.

Mjúkostar Ef mygla myndast á mjúkum osti, eins og brie, camembert og jafnvel sýrðum rjóma, ber ekki að neyta hans.
Olía Olíu er hægt að geyma í stofuhita, en gjarnarn á dimmum stað. Það er hægt að lengja geymsluþol olíu með því að geyma hana á köldum stað.
Þurrvörur Geymið á þurrum stað og þá haldast þurrvörur lengi. Það er hægt að lengja geymsluþol þurrvara með því að geyma þær á köldum stað.
Elda
 • Elda rétt magn

Gott að miða við að elda ekki fyrir fleiri en þá sem eru í mat. Til dæmis að minnka uppskrift fyrir fjóra um helming ef aðeins tveir eru í mat. Einnig er hægt að nýta sér skammtareiknivélina til að vita hversu mikið þú þarft að elda.

 • Elda úr því sem er til í ísskápnum

Það minnkar líkurnar á matarsóun að nýta það sem er til í ísskápnum til að ákveða hvað eigi að vera í matinn. Notaðu hugmyndaflugið og leitaðu á netinu að uppskriftum sem hægt er að nota innihaldsefni sem eru þegar til.

 • Elda sjálfur

Með því að elda oft eykst færni í því að elda sem gerir það auðveldara að nýta það sem er til á skapandi hátt. Og af hverju ekki að fara á námskeið til að læra meira?

 • Lærðu að elda úr öllu

Eldað úr öllu námskeiðin eru verkleg og eru eins og nafnið gefur til kynna til þess ætluð að auka vitund fólks og færni í að nýta mat betur. Hvernig hægt er að elda góðan mat úr því sem er til er.

Frekari upplýsingar um námskeiðin fást hjá Kvenfélagasambandi Íslands:
Kvenfélagasamband Íslands
Sími: 552 7430
Netfang: kvenfelag@kvenfelag.is

Borða
 • Notaðu minni matardiska

Stórir matardiskar auka líkurnar á matarsóun. Hér áður fyrr voru diskar oft minni en hafa stækkað með árunum. Það getur verið gott að leita eftir svipuðum diskum og afi og amma voru með.

 • Berðu fram lítið í einu

Það getur verið gott að bera fram matinn í smærri einingum og geymi umfram matinn í kæli. Þetta gildir bæði um veislumat og heimilismat. Svo er alltaf hægt að bæta við ef einhverjir vilja fá meira.

 • Berðu fram mat í sitthvoru lagi

Ef við berum fram matinn í sitthvoru lagi þá geymast afgangarnir betur. Hugsaðu hverja máltíð eins og taco kvöld, þar sem maturinn er borinn fram í minni ílátum og hver setur saman sína eigin máltíð.

 • Hafa það kósý heima

Ef við förum oft út á borða er hætta á því að við gleymum því sem er til heima og það hættir á að verða gamalt. Hafðu það því í staðinn kósý heima, kveiktu kertaljós og borðaðu eitthvað gott.

 • Pantaðu af matseðli

Ef þú ferð út að borða er best að panta af matseðli. Hlaðborð eru ávísun á matarsóun. Og afhverju ekki að panta tvo forrétti í staðinn fyrir aðalrétt? Þá geturðu bæði verið skemmtileg matarupplifun og þú getur verið nokkuð viss um að klára. Annars er alltaf hægt að biðja um að fá að taka afgangana með heim.  

Afgangar
 • Matarafgangar eru gróði. Ef þú notar afganga sparar þú þér ferð út í búð, að skipuleggja hvað verður í matinn og peninga.

 

 • Settu afgangana strax í kæli

Afgangar haldast ferskir lengur ef maður kælir þá niður sem fyrst. Ef þú ætlar þér ekki að nota þá strax, hentu þeim þá inn í frysti.

 • Notaðu frystinn

Ýmis konar afganga má frysta og nota síðar, t.d. umframmat, ávexti, grænmeti, rjóma, og kryddjurtir. Skiptu afgöngunum upp í hæfilegar skammtastærðir,  merktu með innihaldi og dagsetningu.

 • Notaðu nefið

Þegar það er komið að því að borða afgangana notaðu þá nefið – ef það er góð lykt og gott bragð, þá er í góðu lagi með þá. Nefið er miklu áreiðanlegra en best fyrir dagsetning.

 • Settu afgangana á ábernadi stað í ísskápnum og í augnhæð

 

 • Gerðu það að vana að nota afganga í alla matargerð, og skipulegðu það sem á að vera í matinn út frá því sem er til.

 

 • Veldu einn fastan dag í viku fyrir afganga.

 

 • Settu á kaupstopp áður en kemur að stórhátíðum og fríum. Þá getur þú passað upp á að klára úr kæliskápnum og frystinum áður en þú ferð í fríið eða fyllir ískápnum af hátíðarkræsingum.

 

 • Gefðu afgöngunum nýtt líf og berðu fram á lystugan hátt

 

Afgangar Nýtt líf
Appelsína

Appelsínudjús

Ávaxtasallat

Ris á la Malta

Ávextir

Smoothie

Ávaxtasallat

Bananar

Bananabrauð

Bananakaka

Skera í bita og frysta og nota í smoothie og ís

Basílika

Settu í alla rétti með tómötum

Gefðu súpunni líf

Gerðu basilikupestó

Stingdu í frystinn

Baunir

Baunasúpa

Pastasallat

Pottrétti

Baunabuff

Ber

Sulta

Nota í smoothie

Frysta

Bóhveiti Nota í bauna eða gulrótaborgara
Brauð

Brauðteningar með olíu og hvítlaukskryddi í ofni

Þurrka og rífa svo niður í rasp

Fátæki riddarinn

Brauðréttur

Eggjahvíta

Marens

Ommeletta

Egg (soðin)

Notið sem álegg

Búið til eggjasalat

Skerið í helminga og notið í spínatsúpu

Notið í þorsk með eggjasósu

Eppli

Rífa niður í graut

Eplapæ

Eplamauk

Nota í matrétti

Fiskur Plokkfiskur
Grautur

Lummur

Brauð úr graut

Grænmeti (papríka, gulrætur, brokkolí)

Pizza

Ommeletta

Pottréttir

Wok

Súpur

Hakkabuff

Bolognese sósa og lasange

Gera grænmetiskraft úr afgangi

Hrísgrjón

Risotto

Stir-fry

Nota í súpur

Nota í fylltar papríkur

Nota í tortillas

Hvítkál

Hvítkálssalat með vinegrette

Ríf niður og settu í bolognese eða lasange

Kálsúpa

Kálbögglar

Kaffi

Súkkulaðikúlur

Súkkulaðikaka

Kartöflur (soðnar)

Ommeletta

Kartöflubrauð

Pædeig

Kartöflusalat

Skerið niður og notið sem álegg á brauð

Kartöflumús

Fjárhirðabaka

Írsk fiskbaka

Kartöflumöffins

Kjötrestir

Pizza

Wok

Hakkabuff

Fylltar papríkur

Pytt i panna

Kóríander

Skelltu í mixer með olíu og salti og notaðu á allt

Hakka niður og settu í guacamole

Á asíska rétti

Stingdu í frysti

Laukur

Ommeletta

Hverskonar hakkabollur

Hverskonar pottrétt

Súpu

Lax og silungur

Salat Nicoise

Laxasalat á brauð

Skinka

Álegg á pizzu

Ommeletta

Musli

Hafraklattar

Hafrakökur

Mjólk

Pönnukökur

Hrísgrjónagrautur

Makkarónugrautur

Mynta

Settu út í smoothie

Settu út í jógúrt

Búði til myntupestó

Stingdu í frystinn

Ostur – kantar og restar

Tilvalið að rífa niður og setja í frystinn

Hægt að nota í gratín, pæ, taco eða pizzu

Pasta

Ommeletta

Pastasallat

Pastagratín

Quinoa (soðið)

Notið í quinoa borgara

Gerið quinoa salat

Rótargrænmeti

Gott að setja rótargrænmeti í kallt vatn sem er orðið lint

Rótargrænmeti í ofni

Rífið niður í sallat

Rífið niður og bætið í bolognese sósu, lasange, hakkabuff, eða hakkabollur

Ruccola Ruccolapestó
Rauðrófur (soðnar)

Notið í rauðrófubuff

Rauðrófupæ

Salat með rauðbeðum og fetaosti

Steinselja

Steinseljupestó

Stingdu í frystinn

 

Listinn byggir á umfjöllunninni hér

Gefa
 • Gefa vinum og kunningjum

Ef þú eldar of mikið er hægt að deila afgöngum með nágrönnunum eða bjóða vinum í mat. Það er líka hægt að taka með sér afganga í vinnuna og bjóða kollegunum.

 • Gefa samtökum matargjafir

Mörg samtök á Íslandi taka gjarnan við matargjöfum frá fólki eða fyrirtækjum sem eiga umfram matvæli til að gefa áfram og koma þannig í veg fyrir sóun á mat.

Ef fólk er að flytjast búferlum erlendis og er að tæma hjá sér skápana, verið er að afþíða frystinn eða ef kartöfluuppskeran í garðinum var sérstaklega stór, þá er um að gera að beina matvælunum áfram og gefa með sér. Þrátt fyrir að vörur eins og pasta, sykur, hrísgrjón og hunang séu merktar með dagsetningu um best fyrir, þá er vel hægt að neyta þeirra langt fram yfir þessa dagsetningu.

Í sumum tilfellum er tekið við afgangs mat úr stórum veislum svo sem brúðkaupum, afmælum og fermingum og einnig erfidrykkjum.

Hafa verður í huga að skjólstæðingar þessara samtaka eru oft viðkvæmir fyrir svo ekki er ætlast til að fólk mæti á staðinn með matargjafir nema búið sé að hafa samband við viðkomandi samtök fyrir fram.

 • Vin fræðslu- og batasetur Rauða krossins

Vin er athvarf fyrir fólk með geðraskanir, rekið af Rauða krossinum í Reykjavík. Oft er boðið upp á mat á viðráðanlegu verði í athverfinu og því tekur Vin við matargjöfum frá fyrirtækjum sem og einstaklingum til að aðstoða við það.

Best er að hafa samband við Vin í sambandi við matargjafir:
Sími: 561 2612
Netfang: vin@redcross.is
Facebook: Vin Fræðslu og Batasetur

 • Matargjafir á Facebook

Þó nokkrir hópar um matargjafir hafa myndast á Facebook. Þar með hefur myndast aðgengilegur vettvangur fyrir þá sem vilja gefa mat og þá sem þurfa á matargjöfum að halda. Best er einfaldlega að leita á Facebook undir matargjöf eða -gjafir að hóp á þínu landsvæði.

Molta
 • Flokkaðu

Mörg sveitafélög bjóða upp á að fólk flokki lífrænt rusl. Það er algjört glapræði að urða lífrænan úrgang með öðru almennu rusli í stað þess að koma honum í réttan farveg svo hann geti orðið að moltu.

 • Búðu til moltu

Fyrir þá sem búa ekki í sveitafélögum sem taka á móti lífrænum úrgangi bendum við fólki á heimajarðgerð, þ.e.a.s. að umbreyta lífrænum úrgangi heimilis í moltu. Þessi molta nýtist svo sem jarðvegsbætir sem gerir jarðveginn frjótsamari og léttari. Leiðbeiningar Umhverfisstofnunar um heimajarðgerð finnast hér

Framleiðendur

Til dæmis bóndabýli, fiskvinnsla eða matarvinnsla

 1. Kynnið ykkur leiðir til að lágmarka sóun í framleiðslu. Bresk skýrsla með leiðbeiningum um lágmörkun sóunar í landbúnaði og bóndabýlum
 2. Skoðið vel þann úrgang sem myndast, hverju er hent mest af og reynið að minnka hann.
 3. Skoðið alla ferla í framleiðslunni með lágmörkun matarsóunar eða almennrar sóunar í huga.
 4. Geymið afurðirnar rétt.
 5. Myndið samstarf með nýsköpunaraðilum sem gætu fullnýtt afurðina þína. Eins manns rusl er annars fjársjóður!
 6. Seljið útlitsgallaðar afurðir og vörur á lækkuðu verði.
 7. Varist að setja óþarfa dagsetningar á vöru. Komið frekar upplýsingum til verslana um síðasta  söludag og annað í gegnum strikamerki.
 8. Gefið afgangsafurðir og vörur til samtaka sem taka við matargjöfum. Fyrir neðan finnst listi yfir þá aðila sem þiggja matargjafir á Íslandi.
 9. Búið til moltu sem getur nýst sem jarðvegsbætir. Á vef Umhverfisstofnunarer hægt að skoða leiðbeiningar um heimajarðgerð
 10. Upplýsið starfsmenn um aðgerðir gegn matarsóun.
Veitingastaðir

Þessi ráð gilda jafnt um veitingastaði og mötuneyti

 1. Geymið matinn á réttan hátt í vel stilltum ísskáp og frysti.
 2. Skoðið vel þann úrgang sem myndast, hverju mest er hent af og reynið að minnka hann. Hér er að finna leiðbeiningar að því hvernig ber að haga sér í skoðun úrgangs
 3. Berið innkaupalistann, búrið og hverju er hent, saman reglulega og endurmetið innkaup.
 4. Skipuleggið og minnkið matseðilinn með það í huga að minnka sóun.
 5. Bjóðið upp á minni skammta á lægra verði.
 6. Nýtið afganga í aðra rétti. Skoðið uppskriftasíðu matarsóun.is! 
 7. Áætlið betur það magn sem þarf að elda með því að nota skammtareiknivélina eða láta fólk skrá sig í mat. 
 8. Hvetjið viðskiptavini til að taka afganga með sér heim.
 9. Gefið afganga/matvæli sem ekki er neytt til samtaka sem taka við matargjöfum. Fyrir neðan finnst listi yfir þá aðila sem þiggja matargjafir á Íslandi.
 10. Upplýsið starfsmenn um aðgerðir gegn matarsóun.
Verslanir
 1. Geymið vöruna rétt eða samkvæmt leiðbeiningum.
 2. Skoðið vel þann úrgang sem myndast, hverju er hent mest af og reynið að minnka hann. Hér eru leiðbeiningar að því hvernig ber að haga sér í skoðun úrgangs
 3. Skoðið vel alla ferla með lágmörkun matarsóunar eða almennrar sóunar í huga.
 4. Seljið útrunnar vörur eða vörur á “síðasta notkunardegi” á lækkuðu verði.
 5. Seljið útlitsgallaðar vörur á lækkuðu verði. Athugið þó að umbúðir séu ekki rofnar. Um 15-30% af grænmeti og ávöxtum er hent sökum útlitsgalla.
 6. Endurhugsið framsetningu á vöru þannig að hillur virðist fullar þrátt fyrir að vera það ekki.
 7. Leyfið vörum að klárast í hillum.
 8. Gefið óseldar vörur til samtaka sem taka við matargjöfum. Hér er listi yfir þá aðila sem þiggja matargjafir á Íslandi.
 9. Upplýsið starfsmenn um aðgerðir gegn matarsóun.
 10. Látið okkur vita af þessum aðgerðum og við bætum ykkur á lista hér yfir verslanir sem sporna gegn matarsóun.

Uppskriftir

Hér eru hugmyndir að uppskriftum sem nýta matinn vel

Afhverju er matarsóun vandamál?

Matarsóun er léleg nýting á auðlindum, peningum og skapar mengun sem myndast af óþörfu.

Þriðjungur þess matar sem framleiddur er fer beint í ruslið

Síðustu misseri hefur matarsóun verið töluvert í umræðunni og er almennur samhljómur um að draga þurfi úr henni. Með því að draga úr matarsóun má nýta betur auðlindir og spara fé.

Þriðjungur þess matar sem framleiddur er fer beint í ruslið samkvæmt Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) eða um 1.3 milljarðar tonna af mat á hverju ári í heiminum. MatarÁ Norðurlöndunum er sóað um 3.5 milljónum tonna af mat árlega! Matvæli sem er sóað hefðu mögulega getað brauðfætt milljónir manna og minnkað þá hungursneyð sem steðjar að ýmis staðar í heiminum. Þar að auki hefur framleiðsla matar oft talsverð neikvæð umhverfisáhrif sem þjóna þá engum tilgangi ef maturinn er ekki nýttur og eykur verulega við magn úrgangs sem þarf að urða. Hér er einnig um sóun á fjármunum að ræða þar sem heimili og stóreldhús kaupa í rauninni oft of mikið af mat. Því fæst töluverður samfélagslegur, umhverfislegur og fjárhagslegur ávinningur af því að minnka matarsóun. 

Fólk heldur oft að matarsóun skipti ekki máli því matur er lífrænn og brotnar auðveldlega niður. Það er rétt í þeim skilningi að þegar við hendum epli í skógi þá brotnar það eðlilega niður og gefur að mestu frá sér CO2. Hins vegar er meirihluti þessa úrgangs á Íslandi urðaður sem krefst sífellt meira landsvæðis og leiðir til myndunar og losunar gróðurhúsalofttegunda. Þegar lífrænn úrgangur brotnar niður við loftfirrðar aðstæður, líkt og myndast við urðun, þá myndast metan gas. Metan er 21 sinnum virkari gróðurhúsalofttegund en koltvíoxíð og því töluvert verri.  Þótt málið sé flókið og margir aðilar komi að því geta nokkrar einfaldar breytingar á venjum okkar og rekstri fyrirtækja haft veruleg áhrif.

Matarsóun skilar sér í 8 - 10% af hnatrænni losun gróðurhúsalofttegunda

Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna (e. UNEP) gaf 2021 út nýja skýrslu sem leggur mat á umfang matarsóunnar á heimsvísu. Þeirra niðurstaða er að samanlagt endar 17% af mat í matvöruverslunum, á matsölustöðum og meðal neytenda í ruslinu. Áætlað er að þetta skili sér í 8 – 10% af hnatrænni losun gróðurhúsalofttegunda. Ef matarsóun á framleiðslu- og vinnslustigi og dreifingu er tekið inn í myndina verður umfangið enn meira og losunin sömuleiðis. Matvæla– og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna áætlar að um 3.300.000 Gg af losun koldíoxíðígilda í heiminum á ári megi rekja til matarsóunar[1]. Þetta er sérstaklega alvarlegt þar sem matarsóun er mengun sem myndast af óþörfu[2].

Samkvæmt Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna er hlutur neytenda er þar talinn einna stærstur, eða um ríflega 60%. Matarsóun meðal neytenda er sérstaklega áberandi í ríkari löndum, eins og til dæmis Íslandi.  Mælingar á matarsóun á Íslandi benda til þess að umfangið svipar til hinna Evrópulandanna[3]. Í Danmörku, Svíþjóð og Noregi eru til áreiðanlegar mælingar á umfangi matarsóunnar heimilanna, en í þeim löndum hendir hver einstaklingur kringum 80 kíló af mat á ári.[4] Í venjulegri fjögurra manna vísitölu fjölskyldu er því hent 320 kílóum á ári. Það eru nær 6 kíló af mat á viku! Þessi matarsóun endar sem úrgangur, en meðhöndlun úrgangs var uppspretta 6% af heildarlosun Íslands árið 2018 (án landnotkunnar). Þessi losun á sér fyrst og fremst stað þegar lífbrjótanleg efni, svo sem matarleifar í urðuðum úrgangi brotnar niður og breytist í metan og aðrar gróðurhúsalofttegundir.

Í aðgerðaráætlun íslenskra stjórnvalda til að stuðla að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda fram til 2030 er rætt um áhrif matarsóunnar á losun. Þar er lögð áhersla á að draga eigi úr losun frá úrgangi um 59% miðað við árið 2018. Þar sem matvæli eru stór hluti urðaðs úrgangs á Íslandi þá mun minni matarsóun óhjákvæmilega draga úr urðun og tilheyrandi losun. Þess vegna er það hluti að aðgerðum stjórnvalda að draga úr matarsóun samhliða því að bann við að urða lífrænan úrgang og urðunarskattur verði settur á.

 

[1] https://knowledge4policy.ec.europa.eu/publication/global-food-losses-food-waste-extent-causes-prevention_en

[2] https://www.unep.org/resources/report/unep-food-waste-index-report-2021

[3] https://ust.is/library/Skrar/Einstaklingar/Graenn-lifstill/Food%20Waste%20in%20Iceland%20-%20Methodological%20report%20with%20Abstract%20in%20IS%2028%2011%202016.pdf

[4] https://www.unep.org/resources/report/unep-food-waste-index-report-2021

 

Verkefni

Yfirlit yfir fyrri og núverandi verkefni sem hafa haft það að markmiði að draga úr matarsóun

Virðiskeðjan

Matarsóun á sér stað í öllum stigum virðiskeðju framleiddra matvæla; við framleiðslu, vinnslu, flutning, sölu, og neyslu. Matarsóun hefur í för með sér ýmis neikvæð umhverfisáhrif, mikla sóun á fjármunum og samfélagsleg áhrif þar sem þeim mat sem er sóað væri mögulega hægt að nýta annars staðar í heiminum. Hér má sjá einfaldaða mynd sem sýnir virðiskeðju framleiddra matvæla, hver helstu umhverfisáhrifin eru og helstu aðföng sem þarf fyrir hvert stig. Matvælum sem er sóað á öllum stigum keðjunnar. 

Framleiðsla

Uppspretta matvæla liggur í náttúruauðlindum okkar. Framleiðsluferlið er þó yfirleitt töluvert flóknara og getur haft áhrif á umhverfi, samfélag og efnahag. Ýmislegt þarf við framleiðslu matvæla, m.a. fjármagn, vatn, plöntuvarnarefni og jarðefnaeldsneyti. Framleiðsla matvæla getur leitt til losunar gróðurhúsalofttegunda, jarðvegs- og vatnsmengunar, jarðvegsrýrnunar, minnkunar líffræðilegs fjölbreytileika og aukinnar úrgangsmyndunar.

Vinnsla

Matvæli eru oft unnin talsvert áður en þau rata í búðir eða á disk neytenda. Hrísgrjón, salt og sykur eru hreinsuð, dýrum er slátrað, korn malað og afurðirnar unnar í hinar ýmsu vörur. Þessi vinnsla getur kostað mikla peninga og orku, m.a. í formi raforku eða jarðefnaeldsneytis. Einnig fer töluvert hráefni í bæði vöruna sjálfa og umbúðir á vörunni. Líkt og í framleiðsluferlinu, þá getur vinnsluferlið haft í för með sér ýmis konar umhverfisáhrif, þá helst losun gróðurhúsalofttegunda, jarðvegs- og vatnsmengun og úrgangsmyndun.

Flutningur

Þegar varan er fullunnin og búið að pakka henni inn í viðeigandi umbúðir þarf að koma vörunni til neytenda. Matvæli eru flutt með bílum, flugvélum og skipum um allan heim. Því felur þetta skref virðiskeðjunnar í sér mikla brennslu á jarðefnaeldsneyti sem leiðir til mengunar og losunar gróðurhúsalofttegunda. Þetta á sérstaklega við á Íslandi þar sem stór hluti þeirra matvæla sem við neytum er fluttur inn með tilheyrandi kolefnisspori. Flutningur matvæla eykur einnig slit á innviðum, t.d. vegum, með tilheyrandi kostnaði.

Verslun

Á endanum rata innpakkaðar vörurnar í verslanirnar. Mikil vinna, orka og fjármagn fer í framsetningu á vörunum til að hvetja neytendur til að kaupa þær. Þrátt fyrir það selst ekki nærri því allt og mikil matarsóun og úrgangsmyndun á sér því stað.

Neysla

Þá er neytandinn loks kominn með afurðirnar á diskinn, hvort sem það er heima eða á veitingastað. Peningur, orka og tími fór í að verða sér út um það sem er á disknum. Í vestrænum heimi er matarsóun hvað mest á þessu stigi.

Áhugaverðar tölur

Þrjár viðhorfskannanir hafa verið gerðar af Maskínu fyrir hönd Umhverfisstofnunnar árið 2015, 2017 og 2021. Fleiri en þúsund þátttakendur voru spurðir í hvert sinn og byggir á tilviljunarúrtaki úr Þjóðskrá og svörin eru svo viktuð til að endurspegla þjóðina útfrá kyni, aldri og búsetu.

20 mín - Meðal notkunartími plastpoka

Reyna að lágmarka matarsóun

Losun

%

Fleiri draga úr matarsóun umhverfisins vegna núna en 2015

35% - Endurvinnsla á umbúðaplasti á Íslandi síðustu ár

Telja að umræða um matarsóun hafi aukist

Rannsóknir

Yfirlit yfir tölfræði og rannsóknir á matarsóun

Kennsluefni og vinnugögn

Hér má finna fræðsluefni um matarsóun sem hægt er að hala niður í prentvænum útgáfum. Einnig má nálgast einfalda og skýra glærusýningu um matarsóun sem upplagt er að nýta í fræðsluerindi eða í kennslustund í t.d. heimilisfræði eða samfélagsfræði.

Glærusýning

Nýtist í kennslustund til að fræða um matarsóun

Nemendahefti

Af stað með úrgangsforvarnir

Kennarahefti

Af stað með úrgangsforvarnir

Plakat

Húsráð gegn matarsóun

Plakat

Notaðu nefið 

Plakat

Virðiskeðja