Hemp Pack í úrslitahóp Bláskeljarinnar

14. september 2021

Hemp Pack er ungt íslenskt líftæknifyrirtæki sem stofnað var haustið 2020. Hemp Pack hefur það að markmiði að minnka kolefnisspor Íslands og styðja við hringrásarkerfi þess með því að framleiða niðurbrjótanlegt lífplast úr næringarríkum úrgangi sem fellur til við m.a. landbúnað og matvælaframleiðslu. Þessi úrgangur er nýttur til að framleiða svokallað PHA plast, en framleiðslan sjálf er í “höndum” örvera, sem einangraðar hafa verið úr íslenskri náttúru og nýta úrganginn sem orkugjafa.

Lífplast sem raunverulega brotnar niður

Framleiðsla lífplasts hefur aukist mikið á undanförnum árum og vonir hafa staðið um að í þeim felist „Lausnin“ við plastvandanum með stóru „L-i“. Síðan hefur tónnin aðeins breyst og lífplast er ekki lengur óumdeild lausn, meðal annars vegna þess að framleiðendur lífplasts hafa lofað meiru en þeir hafa getað efnt. Til dæmis er algengt að lífplast sé auglýst sem 100% niðurbrjótanlegt, en sannleikurinn er flóknari en svo. Sumt lífplast er framleitt úr lífmassa en hefur sömu uppbyggingu og hefðbundnið plast sem brotnar ekki niður. Annað lífplast, eins og t.d. PLA er vissulega niðurbrjótanlegt, en bara undir vissum kringumstæðum. PLA þarf nefnilega ákveðið rakastig, hitastig og örveruflóru til að brotna niður. Það er því fyrst og fremst 100% niðurbrjótanlegt í iðnaðarjarðgerð, en getur tekið hundruðir jafnvel þúsundir ára að brotna niður í náttúrulega umhverfi.

PHA plast brotnar hinsvegar sannarlega niður í lífræn efni úti í náttúrunni og heimajarðgerð. Til að minnka skaðan af einnota plasti sem á það á hættu að lenda í náttúrunni getur PHA plast því orðið hluti af lausninni, en PHA er líka hægt að nýta í fjöldan allan af umhverfisvænni plastvörum.

Plast sem óhætt er að borða

Eitt af vandamálunum með plast er að oft á tíðum er bætt í ýmsum efnum út í plast til að ná fram ákjósanlegum eiginleikum sem sum geta losnað úr þeim við notkun og haft slæm áhrif á heilsu og umhverfi. Þeirra á meðal eru þalöt (e. phthalates), bisphenol A (BPA) og eldvarnarefni (PBDEs og TBBPA). Þessi efni eru þrávirk og safnast fyrir í lífverum upp fæðukeðjuna. Rannsóknir hafa sýnt að ákveðin efni úr plasti hafi mögulega hormónaraskandi áhrif. Í PHA framleiðslu Hemp Pack eru ekki sett nein íblöndunarefni. PHA efni Hemp Pack er meira segja svo hættulaust að óhætt er að leggja það sér til munns, sem er eitthvað sem forsvarsmenn Hemp Pack gera reglulega.