Bambahús í úrslitahóp Bláskeljarinnar

10. september 2021

Bláskelin eru nýsköpunarverðlaun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins fyrir framúrskarandi lausn í plastmálefnum. 17 aðilar voru tilnefndir til verðlaunnanna í ár, en fjórir aðilar eru í úrslitahóp. Þetta er önnur umfjöllun af fjórum um aðilana sem komust í úrslitahóp. Í dag kynnum við til leiks Bambahús.

Hvað er Bambahús?

Bambahús eru gróðurhús sem búin eru til úr efnum sem átti að henda. Gróðurhúsin eru semsagt búin til úr Bömbum. Bambar eru 1.000 lítra vökvatankar úr plasti umvafðir járngrind. Bambarnir eru venjulega einnota, en í gegnum Bambahús er þessum tönkum gefið nýtt líf. Járngrindin utan um tankana er tekin í sundur og vökvatankarnir eru endurnýttir sem innvols í gróðurhúsið. Úr þessu verða létt og færanleg gróðurhús sem er hægt að setja hvar sem er þar sem er slétt undirlag. Eina aðkeypta efnið í gróðurhúsin eru klæðning, hurð og skrúfur.

Ef ekki væri fyrir Bambahús væru þessir tankan utan um vökva venjulega fluttir úr landi. Líklegasti farvegurinn fyrir Bambana er niðurvinnsla í plast af verri gæðum eða að plastið sé brennt til orkunýtingar. Sú úrgangsmeðhöndlun er vissulega betri en ef tankarnir væru urðaðir, en Bambahús er dæmi um uppvinnslu. Með uppvinnslu er átt við endurvinnslu sem skapar meiri verðmæti en voru í upprunalegu vörunni. Með uppvinnslunni spara Bambahús fyrirtækjum kostnað við að losa sig við Bambana, og draga úr auðlindasóun og kolefnisspori plastsins.

Þekking um matvæli vex í Bambahúsunum

Bambahús eru ekki aðeins gott dæmi um umhverfisvæna nýtingu á plasti, heldur er umhverfishugsunin höfð að leiðarljósi innan veggja Bambahúsanna líka. Á aðeins einu ári hafa Bambahúsin komist í notkun í fimm leikskólum og sex grunnskólum. Þar nýtast gróðurhúsin sem tæki fyrir kennara til að fræða börn um matvælaframleiðslu og matarsóun. Dómnefnd Bláskeljarinnar fór í heimsókn í einn slíkan skóla og hrifning kennarana og barnanna leyndi sér ekki. Bamabhúsin gefa börnunum tækifæri til að rækta sinn eigin mat sem oftast skilar sér í því að börnin eru opnari fyrir því að smakka grænmeti, sjá hversu mikil vinna fer í að rækta mat og eru stolt af uppskerunni.

Framtíðarsýn Bambahúsa er að koma gróðurhúsunum í notkun hjá fleiri skólum, mötuneytum, elliheimilum, og í húsnæði fyrir fatlað fólk. Bambahús hafa kappkostað við að halda niðri kostnaði, og geta því bæði verið á færi einkaaðila og stofnana með takmarkað fjármagn. Bambahúsin gefa því fleirum tækifæri til að rækta sinn eigin mat sem getur líka dregið úr plastnotkun þar sem mikið af grænmeti sem keypt eru úti í búð er pakkað inn í plast.

Í gær fjölluðum við um Te & Kaffi, og eftir helgi verður fjallað um hina tvo aðilana sem lentu í úrslitahóp Bláskeljarinnar. Fylgist með!