Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hefur falið Umhverfisstofnun að endurskoða stefnuna um Saman gegn sóun. Af því tilefni verður boðað til opinna funda fyrir fólk og fyrirtæki vítt og breytt um landið og er opið fyrir skráningar á fundina hér.
Ný stefna og aðgerðaáætlun
Umhverfisstofnun hefur verið falið að endurskoða stefnuna um Saman gegn sóun. Þá gefst tækifæri til að horfa til baka, meta árangur og móta nýja framtíðarsýn. Auk nýrrar stefnu ber okkur að leggja fram drög að aðgerðaáætlun og móta aðgerðir sem eru til þess fallnar að draga úr sóun, flýta innleiðingu hringrásarhagkerfis hér á landi og auka þar með velsæld fólks og fyrirtækja í landinu.
Samtal við fólk og fyrirtæki
Við hjá Saman gegn sóun leggjum áherslu á að almenningur, fyrirtæki og stofnanir um land allt hafi tækifæri til að hafa áhrif á nýju stefnuna og koma sínum sjónarmiðum á framfæri. Þess vegna ætlum við að halda opna fundi á Ísafirði, Akureyri, Egilsstöðum og höfuðborgarsvæðinu á næstu vikum. Þar gefst áhugasömum færi á að fræðast um þau tækifæri sem liggja í bættri nýtingu og minni sóun og koma með tillögur að aðgerðum. Nánari upplýsingar um fundaröðina og skráningu má finna hér.
Ráðgjöf frá atvinnulífinu
Við höfum einnig sett á laggirnar ráðgefandi hóp, Akkeri, sem er skipaður fimm fulltrúum atvinnulífs og fræðasamfélags. Akkeri er ætlað að vera stuðningur við verkefnahóp Umhverfisstofnunar í vinnunni fram undan og felast helstu hlutverk hópsins í að veita innsýn í stöðuna í málaflokknum, virkja hagsmunaaðila, tryggja eignarhald og samstöðu með verkefninu, hjálpa til við að auka sýnileika verkefnisins og koma að þróun, framsetningu og mögulega framfylgd aðgerðaáætlunar. Í Akkeri sitja Guðmundur Steingrímsson frá Háskóla Íslands sem jafnframt er formaður hópsins, Bergrún Ólafsdóttir frá Samkaupum, Margrét Gísladóttir frá Mjólkursamsölunni, Sigurjón Svavarsson frá Elkem og Sveinn Margeirsson frá Brim.
Meðlimir Akkeris og starfsmenn Saman gegn sóun hjá Umhverfisstofnun. Frá vinstri: Jóhannes Bjarki Urbancic Tómasson Umhverfisstofnun, Guðmundur Steingrímsson, Þorbjörg Sandra Bakke Umhverfisstofnun, Bergrún Ólafsdóttir, Margrét Gísladóttir, Sigurjón Svavarsson og Birgitta Steingrímsdóttir Umhverfisstofnun. Á myndina vantar Svein Margeirsson frá Brim.
Úrgangsforvarnir mikilvægur hlekkur
Úrgangsforvarnir eru mikilvægur hlekkur í hringrásarhagkerfinu en þær snúast í kjarna sínum um að draga úr myndun úrgangs í samfélaginu. Áhersla er lögð á auðlindir séu nýttar betur og lengur og að samfélagið allt geti tekið þátt í þeirri vegferð með einhverjum hætti .
Árið 2016 var fyrsta úrgangsforvarnarstefna stjórnvalda, Saman gegn sóun, gefin út og hefur Umhverfisstofnun farið með umsjón verkefnisins frá upphafi.