Er grænmetisskúffan full af skorpnuðu og leiðu grænmeti? Vinningshafi samfélagsmiðla leiksins okkar Uppskriftir gegn sóun er með lausn á þeim vanda. Hún Kristrún Anna leggur til að maður búi til pastarétt úr grænmetinu og gefi því þannig nýtt líf. Smá pestó og smá rjómi lyftir svo pastanu í nýjar hæðir.
Kremaða pastað hennar Kristrúnar
Innihald:
- pasta, t.d. blöndu af penne og skrúfum
- tómatar, t.d. ein askja piccolo tómatar
- grænmeti sem er til, t.d. papríka, spergilkál, gulrætur
- laukur, t.d. blanda af gulum lauk og blaðlauk
- heill hvítlaukur
- 1 dós niðursoðnir tómatar
- 1/2 krukka pestó (má sleppa)
- sósu bragðbætir t.d. tabasco sósa, pizzu sósa, tómatsósa
- rjómi (má sleppa)
- salt, pipar og ítölsk krydd
- ólífuolía
- 1 dl pastavatn
Aðferð:
- Skerið hvítlaukinn í helming og steikið á pönnu í olíu
- Bætið við hökkuðum lauk. Þegar laukurinn er eldaður er hann settur til hliðar.
- Allt grænmetið (nema tómatarnir) skorið í hæfilega bita og steikt á pönnu. Passið að nýta grænmetið vel, t.d. með því að skera stilkinn á spergilkálinu í litlar ræmur.
- Á meðan er pastað soðið samkvæmt leiðbeiningum í öðrum potti.
- Kryddið grænmetið með salti, pipar, pastakryddi eða öðru grænu kryddi.
- Þegar grænmetið er steikt í gegn bætið aftur við lauknum, tómötunum og niðursoðnu tómötunum.
- Setjið pastavatn, pestó, sósurnar til að bragðbæta og rjómann út í. Látið malla í 5-10 mín.
- Endið á því að bæta soðnu pasta og látið malla í 5 mín í viðbót.
Dásamlegt að bera fram með parmesan, steinselju og nýbökuðu hvítlauksbrauði.
Hægt er að finna þessa uppskrift og fleiri uppskriftir gegn sóun hér. Við óskum Kristrúnu til hamingju með vel verðskulduð verðlaun í leiknum og sendum henni 10.000 króna gjafabréf frá Te & Kaffi sem þökk.