Pure North Recycling í úrslitahóp Bláskeljarinnar

13. september 2021

Bláskelin eru nýsköpunarverðlaun Umhverfis- og auðlindaráðuneytisins fyrir framúrskarandi lausn í plastmálefnum. 17 aðilar voru tilnefndir til verðlaunnanna í ár, en fjórir aðilar eru í úrslitahóp. Þetta er þriðja umfjöllun af fjórum um aðilana sem komust í úrslitahóp. Í dag fjöllum við um Pure North Recycling.

Plastendurvinnslu í sinni skýrustu mynd

Pure North Recycling sérhæfir sig í endurvinnslu á plastúrgangi og plastefnum sem falla til í íslensku samfélagi. Í dag tekur Pure North Recycling á móti mörgum tegundum plastefna til endurvinnslu. Þar ber helst að nefna heyrúlluplast úr landbúnaði, pökkunarfilmu utan af vörubrettum, umbúðir úr matvælaframleiðslu, plastpokum undan dósasöfnun og ýmsum tegundum plastúrgangs úr innlendri plastframleiðslu. Með þessu er verið að koma í veg fyrir innflutning á nýju plasti sem aftur minnkar eftirspurn eftir olíu og lífmassa sem nýtt plast er búið til úr. Við endurvinnslu á 1 tonni af plasti er komið í veg fyrir framleiðslu á um 1,8 tonnum af olíu sem hefði þurft til að búa til 1 tonn af nýju plasti.

Innlend framleiðsla tryggir gagnsæi og gæði

Pure North er eina fyrirtækið sem endurvinnur plast á Íslandi, en það fylgja því margir kostir að endurvinna plastið hérlendis. Fyrir stofnun fyrirtækisins árið 2015 var allt flokkað plast á Íslandi sent úr landi til plastendurvinnslu eða það brennt til orkunýtingar. Gagnsæi um hvað verður um plastið eftir að það er flutt úr landi hefur oft á tíðum verið ábótavant. Ef plastið er hinsvegar hérlendis er auðveldara að hafa yfirsýn yfir plastnotkun Íslendinga og fá áreiðanlegar tölum um það plast sem við neytum, endurvinnum og urðum. Það er einnig auðveldara að ná fram gagnsæi hvað varðar gæði og kolefnisspor endurvinnslunnar sjálfrar, vinnuaðstæður fólksins þar að baki og hvort efnið sé sannarlega endurunnið.

Endurvinnsla með 75% lægra kolefnisspori

En afhverju að tilnefna plastendurvinnslu til nýsköpunnar verðlauna? Er eitthvað nýskapndi við plastendurvinnslu, eða er það bara sjálfsagður hlutur í nútíma samfélagi? Nýsköpunargildi Pure North Recycling felst fyrst og fremst í því að nota nýstárlega aðferð til að knýja endurvinnsluferlið. Pure North nýtir jarðgufu í Hveragerði bæði við þvott og þurrk á plastinu sem verið er að endurvinna. Þessi aðferð er umtalsvert umhverfisvænni en sambærileg ferli í Evrópu. Samkvæmt vistferilsgreiningu er kolefnisspor endurvinnslunnar 75% lægra á hvert unnið tonn en meðallosun í evrópskum plastendurvinnslum. Við vitum ekki til þess að nokkuð annað fyrirtæki í heiminum nýti sér jarðvarma til endurvinnslu á plasti, og því mætti segja að Pure North framleiði eitthvert umhverfisvænasta plast í heiminum í dag.

Samvinna við fólk og fyrirtæki

En það mætti einnig segja að nýsköpunargildi Pure north felist í að stofna til samvinnu við fyrirtæki og samtök í þeim tilgangi að endurvinna og nýta fleiri gerðir af plasti.  Til dæmis hafa Pure North komið á samstarfi við bændur til að endurvinna heyrúlluplast. Heyrúlluplastið er svo nýtt til að skapa nýjar vörur. Undanfarna mánuði hefur Pure North til dæmis verið í þróunarsamstarfi við SET röraverksmiðju á Selfossi sem hefur notað endurunnið heyrúlluplast í framleiðslu sína á rörum og lagnaefni fyrir íslenskan markað.. Þeir hafa einnig staðið fyrir átakinu Þjóðþrif, þar sem þeir í samvinnu við íslensk fyrirtæki skapa hringrás fyrir plast. Stór íslensk fyrirtæki eins og Eimskip, Brim, Össur, MS, Marel, Coca Cola, Bláa lónið, Lýsi, Krónan og BM Vallá senda nú endurvinnanlegt plast sem fellur til í þeirra rekstri til Pure North Recycling.

Framtíðarsýnin að allt plast verði aftur plast


Næstu skref fyrirtækisins eru að þróa fleiri vinnsluferli fyrir plastúrgang svo taka megi við fjölbreyttari flóru plastúrgangs. Í dag endurvinnur Pure North um 2.000 tonn af plasti á ári, á meðan áætluð árleg plastnorkun á Íslandi er 40.000 tonn. Margar vörutegundir á Íslandi gætu verið framleiddar úr endurunnu plasti fyrir innanlandsmarkað og komið þar í staðinn fyrir timbur, nýtt plast og málma sem bera alla jafna hærra kolefnisspor. Framtíðarsýn Pure North Recycling er að allt endurvinnanlegt plast sem fellur til á Íslandi, verði endurunnið hérlendis. Þannig tökum við ábyrgð á því að skapa hringrás svo að plast verði aftur plast.

Bláskelin verður afhent á málþingi Plastlauss septembers 16. September klukkan 17:00 í Auðarsal í Veröld, húsi Vigdísar. Við gerum ráð fyrir að margir bíði spenntir eftir því að sjá hver í úrslitahóp sem hneppir vinningin. Fyrir helgi fjölluðum við um Te & Kaffi og Bambahús og á morgun kynnum við til leiks seinasta aðilann í úrslitahópnum. Fylgist með!