Leitað að hamingjunni á rafrænum mánudegi

29. nóvember 2021

Undanfarið hefur auglýsingunum rignt yfir okkur sem fylgifiskur hinna ýmsu tilboðsdaga. Dagur einhleypra, svartur fössara, svört viku og rafrænn mánudagur. Oft eru óbein eða bein skilaboð auglýsingana að við verðum hamingjusamari þegar við eignumst nýjasta heimilistækið, flíkina eða snjalltækið og að nú sé seinasta tækifærið okkar að eignast hamingjuna á tilboði. En hversu líklegt er það að kvöldi rafræns mánudags að við leggjumst hamingjusamari til svefns?

Ef einhver veit svarið þá er það kannski Sonja Lyubomirsky, pró­fessor við Kali­forn­íu­há­skóla og einn af þekktustu rannsakendum innan hamingjufræðanna. Lyubomirsky hefur í áraraðir, í mörgum tugum vísindagreina, rannsakað hvað það er sem hefur áhrif á hamingjuna. Í metsölubók sinni „The How of Happiness“ fjallar hún hvaða aðferðum við getum beitt til að auka okkar eigin hamingju. Aðferðirnar eru 12, og eiga það sameiginlegt að byggja á rannsóknum sem sýnt hafa fram á að þær séu hamingjuaukandi. Þá er spurningin, er hægt að nýta sér þessar aðferðir til að vera aðeins hamingjusamari í lok rafræns mánudags?

  1. Æfa sig í þakklæti

Áður en við byrjum að elta tilboðin er mikilvægt að staldra við og horfa í kringum sig. Hvað af því sem við eigum nú þegar erum við þakklát fyrir? Með því að iðka þakklæti, og átta sig á því sem við eigum nú þegar, eru minni líkur á því að við freistumst til þess að kaupa óþarfa.

2. Rækta jákvæðni

Eins og Ragna Benedikta Garðarsdóttir, prófessor í sálfræði hefur bent á þá kaupir sátt manneskja sér ekki neitt. Hún bendir á að það er vísvitandi verið að gera okkur ósátt með okkur og lífið okkar, því ósáttar manneskjur eru líklegri til að reyna að kaupa sér lífsfyllingu með neysluvarningi. Með því að rækta jákvætt hugarfar, og vera sátt við okkur sjálf, er hægt að vinna gegn ósáttarfræi auglýsinga.

3. Forðast félagslegan samanburð

Ef við nálgumst rafrænan mánudag með það að markmiði að halda í við nágranna og vini í neyslu er líklegt að við endum daginn ósáttari og fátækari en ella. Með tilkomu samfélagsmiðla hefur félagslegur samanburður verið settur í ofurdrif, þar sem gott skroll í gegnum grammið getur gert það að verkum að við berum okkur saman við pródúseraðar glansmyndir. Reynum því að halda aftur að félagslegum samanburði í dag, og kaupa ekkert bara af þeirri ástæðu að aðrir eiga það.

4. Gera góðverk

Góðverk geta verið stór og smá. Þau geta snúist um allt frá klappi á bakið til þess að vera sjálfboðaliði eða styrkja góðgerðarsamtök. Það sem við vitum er að góðverk láta bæði þiggjanda og gefanda líða vel. Þannig að afhverju ekki styrkja góðgerðasamtök á rafrænum mánudegi?

Ef tilgangur kaupa á rafrænum mánudegi eru að kaupa jólagjafir, bendum við á að það gleður engan að fá óþarfa og bendum í staðinn á þessar hugmyndir.

5. Rækta félagsleg samskipti

Það sem kannski sést nú þegar, er að hamingjuna er ekki að finna í neysluvarningi. Hinsvegar erum við félagsverur í grunninn, og fjöldi rannsóknar sýnir fram á að félagsleg samvera færir okkur hamingju. Ef við viljum nýta okkur tilboð rafræns mánudags þá er gott að horfa eftir tilboðum sem styðja við félagsleg samskipti, sem eru alla jafna upplifanir í staðinn fyrir hluti. Tilboð á gjafabréfum í bröns, út að borða, kaffihús, leikhús, miðar á tónleika eða keila, getur verið góð leið til að nýta sér tilboð sem stuðla að samskiptum.

6. Draga úr stressi

Mikil neysla er stressandi. Það skapar stress að eyða miklum tíma í að versla vörur, koma þeim fyrir og sjá um þær. Það skapar líka stress að þurfa að vinna mikið og afla sér mikilla tekna til þess að hafa efni á allri neyslunni. Minni neysla getur því verið góð leið til að draga úr stressi og stuðla þannig að hamingju.

7. Fyrirgefning

Að burðast með gremju og hatur dregur úr hamingju fólks. Það er ókeypis að fyrirgefa en getur engu að síður verið gulls í gildi. Óháð því hvort það sé rafrænn mánudagur eða einhver annar dagur, getur verið gott að gefa sér tíma til að íhuga hvort við séum að dröslast um með hatur.

8. Komast í flæði

Flæði á sér stað þegar við og verkefnið okkar verðum eitt, og við gleymum stað og stund. Að reglulega upplifa flæði stuðlar að hamingju. Það er ólíklegt að við upplifum flæði þegar við eltumst við tilboð á netinu. Hinsvegar er hægt að nýta tilboð dagsins til að skrá sig á námskeið sem gæti á endanum komið okkur í flæði.

9. Hægja á hraðanum og njóta

Það er mikilvægt fyrir hamingjuna að staldra við, taka eftir núinu og njóta þess. Til þess þarf engan óþarfa, engin tilboð. Það eina sem þarf er að opna augun, opna eyrun, finna lyktina af gróðrinum, bragðið af matnum.

10. Setja sér markmið

Það er líklegast markmið fárra að láta ginnast af tilboðum á óþarfa. Á rafrænum mánudegi er því mikilvægt að ef maður kaupir eitthvað séu það upplifanir eða hlutir sem styðja við langtíma markmiðin okkar. Hér er hægt að lesa meira um hvernig maður getur sett sér umhverfisvæn markmið.

11. Tengjast andlegu hliðinni

Margar rannsóknir sýna fram á gildi þess að rækta sína andlegu hlið eða iðka trúarbrögð. Enda fyrirfinnast mörg af aðgerðunum að ofan í lífsskoðunarfélögum og trúarbrögðum, eins og að iðka þakklæti, gjafmildi, fyrirgefningu og núvitund. Áður en við æðum í tilboðin getur því verið gott að staldra við til að íhuga og tengja við gildin sín. Hvað finnst mér mikilvægt í lífinu? Hvernig manneskja vill ég vera?

12. Líkamsrækt

Að hlúa vel af líkamanum er mikilvægt fyrir hamingjuna. Á rafrænum mánudegi er því hægt að horfa eftir tilboðum á líkamsrækt, streymisveitum fyrir hreyfingu, hollu mataræði og slökun.