Umhverfisvænni jólagjafir á tilboðsdögum

23. nóvember 2021

Nú þegar svartur föstudagur nálgast flæðir allt í auglýsingum um vörur á tilboði. Margir nýta sér þessa tilboðsdaga til þess að kaupa jólagjafir á lækkuðu verði. Það getur verið sniðugt fyrir bæði budduna og plánetuna ef við höfum nokkur atriði að leiðarljósi.

Í staðinn fyrir vörur og efnislega hluti kaupum frekar:

  • Upplifanir: t.d. leikhús, miða á tónleika, pílu, keilu, námskeið
  • Gjafabréf: t.d. bröns, út að borða, kaffihús, gisting, dekur
  • Áskriftir: t.d. hljóðbækur, vefnámskeið, áskrift af nettímariti, áskrift á sódavatnshylki
  • Heimagerðar gjafir
  • Endurnýttar gjafir
  • Styrk til góðgerðamála

Það eru þvi miður of margir sem kaupa og gefa hluti sem ekki er vitað hvort vilji eða þörf sé á og enda þeir því fyrr eða síðar í ruslinu, eða safnast fyrir hjá fólki og nýtast ekki. Í því felst enginn gróði, hvorki fyrir umhverfið, gefandann eða viðtakandann, sama hversu mikill afslátturinn er.

Upplifanir að jafnaði með lægra kolefnisspor en vörur

Þrátt fyrir að flestir séu almennt meðvitaðir um mikilvægi þess að draga úr einkaneyslu og sóun vegna loftslagsbreytinga, þá virðist ekki draga úr jólagjafakaupum. Mesta jólaverslun frá upphafi mælinga var árið 2020. Í dag er neysla á varningi og kolefnisspor nátengt, sem þýðir að því meiri peningum sem við eyðum því meira er kolefnissporið. En með því að velja upplifanir frekar en vörur er hægt að rjúfa þessa tengingu neyslu og kolefnisspors. Að nýta tilboðsdaga til jólagjafakaupa þarf alls ekki að vera leiðinlegra eða draga úr jólastemningu.

Með því að gefa umhverfisvænni gjafir er líklegt að við eyðum minni tíma, orku og pening á aðventunni í jólagjafakaup. Á sama tíma gleðjum við viðtakandann og plánetuna.

Umhverfisvæn jól

Viltu læra meira um umhverfisvænni jól? Hlustaðu þá á opinn fyrirlestur um umhverfisvæn jól á mannamáli. Fyrirlesturinn er á morgun, 24. nóvember, klukkan 12:15 í streymi.