Hringrásar umbúðir

8. október 2021

Hver hefur ekki horft á umbúðaflóðið heima hjá sér, til dæmis eftir kaup í húsgagnaverslun, stórhátíðir, eða bara eftir viku söfnun í flokkunartunnurnar heima og hugsað – getur þetta virkilega verið umhverfisvænt? Á Íslandi er magn umbúðaplastúrgangs um 47 kg á hvern íbúa á ári hverju. Á fjögurra manna vísitölu fjölskyldu jafngildir það þyngdinni á heilu hreindýri af umbúðarplasti á ári! Magnið er svo enn meira ef við tökum með aðrar gerðir af umbúðum, eins og pappa og gler. Sama hvaða mælikvarði er notaður þá hlýtur það að teljast mikið magn, og allt þetta umbúðarfargan hefur óneitanlega áhrif á umhverfið. En umbúðir eru líka mjög nytsamlegar þar sem þær nýtast til að vernda og flytja vörur. Matvælaumbúðir úr plasti eru líka mjög oft mikilvægur liður í því að draga úr matarsóun.

Geta umbúðir verið umhverfisvænar?

Það er ekki til neitt sem heitir umhverfisvænar umbúðir, aðeins umhverfisvænni umbúðir. Með því er átt við að allar umbúðir hafa einhver neikvæð áhrif á umhverfið. Til eru ýmsar leiðir til að minnka neikvæð umhverfisáhrif umbúða, en besta leiðin er að halda umbúðunum í hringrás sem allra lengst. Hringrásarhagkerfið er hagkerfi þar sem leitast er við að koma í veg fyrir að auðlindir verði að úrgangi með áherslum sem tryggja að hægt sé að viðhalda verðmætum auðlinda eins lengi og mögulegt er. Helstu aðgerðir sem tryggja að auðlindum sé haldið í hagkerfinu eru að deila, gera við, endurnota, endurframleiða og endurvinna. Röðin á aðgerðunum er ekki tilviljunakennd, heldur eru þær í mikilvægisröð. Í dag er algengasti umhverfisvæni farvegurinn fyrir umbúðir endurvinnsla, en sem betur fer eru fleiri aðgerðir farnar að riðja sér rúms til að halda umbúðum í hringrás.

Hvað eru deiliþjónustur fyrir umbúðir?

Umbúðir er nefnilega hægt að endurskilgreina sem þjónustu í stað vöru. Þegar vörur eru keyptar í umbúðum er það oftast ekki umbúðirnar sjálfar sem viðskiptavinurinn ásælist, heldur að varan sé vel varðveitt og að hún komist örugglega heim. Þessu ástandi er hægt að ná með því að bjóða upp á hringrásar þjónustu í stað þess að viðskiptavinurinn kaupi umbúðirnar. Þægindi skipta oft neytendur miklu máli, en með því að bjóða upp á þjónustu sem gerir hringrás umbúða þægilegri aukast líkurnar á því að hringrás sé komið á. 

Mjólk í flösku endurvakin

Bæði erlendis og hérlendis eru fyrirtæki að stíga sín fyrstu skref í að koma á hringrásar umbúðum. Hér á landi er besta dæmið líklegast Matarbúðin Nándin. Matarbúðin er byggð á þeirri hugmynd að endurvekja mjólk í flösku. Hér áður fyrr voru mjólkurflöskur seldar í glerflöskum sem var skilað eftir notkun, þær þvegnar og svo endurfylltar. Matarbúðin Nándin hefur komið á skilakerfi fyrir glerumbúðirnar sem þau selja stóran hluta af matvörum sínum í. Þau hafa svo komið upp sérstakri þvottastöð sem mætir ströngum reglum hvað varðar hreinlæti og sótthreinsun. Matarbúðin hefur svo sett upp skilakerfi fyrir viðskiptavini sína. Á svipaðan hátt tekur Súrkál fyrir sælkera aftur við krukkunum undir súrkálið sitt til endurnýtingar. Súrkál fyrir sælkera hefur komið á samstarfi við verslanir svo þær taki á móti krukkunum þeirra. Krukkurnar eru svo þvegnar eftir ströngustu kröfum og nýttar aftur.

Umbúðir leigðar eins og rafskutlur

Erlendis eru svo dæmi um fyrirtæki sem nýtt hafa nýjustu tækni til að koma á deiliþjónustum fyrir umbúðir og gert það á stærri skala en hérlendis. Nú þegar hafa sprottið upp fyrirtæki sem hafa endurskilgreint kaffimál og matarílát sem þjónustu. Á svipaðan hátt og deiliþjónustur fyrir rafhjól og rafskutlur hafa gert, eru umbúðirnar merktar með QR kóða og þær leigðar í gegnum app. Viðskiptavinir leigja þar kaffimál og matarílát og skila þeim eftir notkun á skilastöðum. Viðskiptavinir geta leigt ílátin á einum stað og skilað þeim á öðrum, og fá svo endurgreitt skilagjald í gegnum app. Annað nýlegt dæmi er Tesco, sem er ein stærsta matvörukeðja Breta. Hún hefur nýverið sett á fót verkefnið Loop, sem býður upp á breitt vöruúrval í hringrásar umbúðum. Við hönnun kerfisins hefur verið hugað að bæði þægindum og hvötum til að styðja við hringrásina sem getur verið öðrum til eftirbreytni.  

Þeir sem skila, græða

Allar Loop umbúðir eru með skilagjaldi. Viðskiptavinir fá skilagjaldið endurgreitt í sérstöku Loop skilagjalds appi, en þaðan er hægt að millifæra yfir á bankareikning. Þegar Loop umbúðum er skilað er QR kóði þeirra skannaður á skilastöðvum og skilagjald svo greitt sjálfvirkt í appinu innan nokkura daga. Sá sem skilar Loop umbúðunum fær gjaldið, sem þýðir að þeir sem nenna ekki að skila umbúðunum geta til dæmis gefið þær áfram í góðgerðasamtök eða til félagstarfs. 

Hringrásarumbúðir jafn þægilegar og aðrar umbúðir

Til að auka þægindin er hægt að leigja svokallaða Loop skilapoka, þar sem hægt er að setja 10 Loop umbúðir í pokann og skila þannig á auðveldan hátt fleiri umbúðum í einu. Það er einnig skilagjald á Loop pokanum sjálfum, sem er hægt að endurheimta við skil. Skilastöðvarnar eru staðsettar í öllum búðum Tesco og einnig á útvöldum McDonalds stöðum. Í appinu eru kort þar sem hægt er að sjá alla staði þar sem hægt er að skila umbúðunum. Það er því hægt að kaupa Loop umbúðir á einum stað og skila þeim á öðrum. Markmið Loop er að hringrásar umbúðir séu jafn þægilegar og aðrar umbúðir, og því er ekki skilyrði að hreinsa umbúðirnar fyrir skil, þó að viðskiptavinir séu vissulega hvattir til þess.  

Væri ekki gaman að sjá eitthvað svipað í náinni framtíð á Íslandi?