Bláskelin

Viðurkenning fyrir framúrskarandi lausnir sem stuðla að minni plastnotkun og plastúrgangi.

Það hefur verið ótrúlegt að fylgjast með viðhorfsbreytingunni sem orðið hefur í umhverfismálum undanfarin ár. Metfjöldi tilnefninga til Bláskeljarinnar nú í ár ber vott um aukinn metnað og vilja til þess að gera betur í plastmálum.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra við afhendingu Bláskeljarinnar 2021

Hvað er Bláskelin?

Bláskelin er viðurkenning sem er veitt fyrirtæki, stofnun, einstaklingi eða öðrum fyrir framúrskarandi lausnir sem stuðla að minni plastnotkun og plastúrgangi í samfélaginu.

Viðurkenningin er hluti af aðgerðum umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra til að draga úr neikvæðum áhrifum plastnotkunar. Henni er ætlað að draga fram það sem vel er gert og hvetja til nýsköpunar. Sérstök úthlutunarnefnd velur viðurkenningarhafa en hana skipa fulltrúar frá Samtökum iðnaðarins, Ungum umhverfissinnum, Sorpu, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti og Umhverfisstofnun.

Við val á verðlaunahafa er horft til eftirfarandi þátta:

 • nýsköpunargildis viðkomandi lausnar
 • stuðlar lausnin að hringrásarhagkerfinu
 • hvert er almennt framlag lausnarinnar til umhverfismála
 • hvaða plastvöru er verið að komast hjá með lausninni
 • hefur lausnin möguleika á að komast í almenna notkun

Bláskelin 2022

 

Sprotafyrirtækið Marea ehf. hlaut Bláskelina árið 2022. Marea þróar lausnir úr þara og þörungum sem leysa matvælaumbúðir úr hefðbundnu plasti af hólmi. Fyrirtækið hlaut Bláskelina fyrir þróun á náttúrulegri filmu úr þörungahrati sem ætluð er fyrir grænmeti og ávexti. Efninu er spreyjað á matvæli og myndast þá filma sem ver matvælin svo geymsluþolið eykst. Notkun filmunnar dregur því úr matarsóun án þess að plast komi við sögu. 

Í rökstuðningi dómnefndar kemur fram að Marea hafi uppfyllt öll skilyrði semlögð voru til grundvallar. Fyrirtækið hefur: 
 

 • Haft nýsköpun að leiðarljósi 
 • Stuðlað að hringrásarhagkerfinu með því að nýta aukaafurð frá öðru fyrirtæki sem hráefni
 • Þróað lausnir sem koma í stað hefðbundinna plastumbúða og nýtast fyrir grænmeti og ávexti
 • Stuðlað að minni plastnotkun án þess að það auki matarsóun

  Það að fá hvatningu frá stofnunum sem eru á bak við Bláskelina og fagfólkinu sem tók þátt í dómnefndinni er afar þýðingarmikið og það segir okkur að við erum allavega að vinna í rétta átt.

  Julie Encausse, stofnandi og framkvæmdastjóri Marea

  Tveir aðrir aðilar komust í úrslit Bláskeljarinnar í ár, en það voru Krónan og SPJARA. Krónan leggur áherslu á að draga úr umbúðum og að stuðla að hringrás plasts í sínum rekstri. SPJARA er fataleiga sem hannað hefur margnota umbúðir úr afskurði frá Seglagerðinni og afgangstextíl frá Rauða krossinum.

  Bláskelin 2021

   

  Pure North Recycling hlaut Bláskelina 2021. Pure North Recycling fæst við endurvinnslu plasts og knýr starfsemi sína með jarðvarma. Fyrirtækið fullnýtir glatorku við bæði þvott og þurrk á hráefninu og dregur þannig úr kolefnisspori endurvinnslunnar um 80%, miðað við sambærilega vinnslu í Evrópu. Pure North Recycling hefur m.a. komið á samstarfi við bændur um að endurvinna heyrúlluplast á Íslandi og gera úr því nýjar vörur, til að mynda girðingastaura. Hægt er að lesa meira um starfsemi Pure North hér

   Í rökstuðningi dómnefndar kemur fram að Pure North Recycling hafi uppfyllt öll skilyrði sem dómnefndin lagði til grundvallar mati sínu. Fyrirtækið hefur:

  • Haft nýsköpun að leiðarljósi
  • Skapað innlenda hringrás plast
  • Dregið úr vistspori endurvinnslunnar
  • Framleitt vörur úr endurunnu plasti í stað nýs plasts
  • Endurunnið plast á stórum skala og stefnir enn hærra

  Bláskelin, þessi viðurkenning hefur gífurlega mikil áhrif fyrir okkur. Hjá okkur starfar 12 manna hópur sem er afar metnaðarfullur sem er búinn að leggja mikið á sig til þess að ná árangri. Viðurkenningin er okkur hvatning til betri og fleiri verka

  Sigurður Halldórsson, Framkvæmdastjóri Pure North Recycling

  Þrír aðrir aðilar komust í úrslit Bláskeljarinnar, en það voru Bambahús, Hemp Pack og Te & Kaffi. Bambahús eru gróðurhús sem búin eru til úr efnum sem annars hefði verið hent og Hemp Pack er líftæknifyrirtæki sem framleiðir ætt lífplast. Te & Kaffi hlaut tilnefningu fyrir að hafa skipt ál- og plastumbúðum út fyrir umbúðir úr plöntusterkju og trefjum.  

  Bláskelin 2020

  Matarbúðin Nándin hlaut Bláskelin árið 2020. Matarbúðin Nándin er fjölskyldufyrirtæki staðsett við Austurgötu í Hafnarfirði og í Kolaportinu í Reykjavík. Markmið fjölskyldunnar er að skapa sjálfbært matvælakerfi þar sem sett er upp hringrás fyrir gler, ásamt því að selja matvöru í niðurbrjótanlegum og moltuhæfum umbúðum. Fjölskyldan leggur áherslu á að hvetja viðskiptavini og samstarfsaðila til að vinna að plastlausum heimi með sér og um leið að vekja fólk til umhugsunar um áhrif umbúða á náttúruna og framtíðina. Í rökstuðningi dómnefndar kemur fram að framtak Matarbúðarinnar Nándarinnar sé sannarlega fordæmisgefandi fyrir aðrar matvöruverslanir og framleiðendur.

  Í því vandasama verkefni að setja upp plastlausa matarbúð, finna og flytja inn umbúðir, þróa ferla og pakka nánast öllum vörum, er það ómetanleg hvatning að fá opinbera viðurkenningu sem þessa.

  Kolbeinn Lárus Sigurðsson, tæknistjóri Matarbúðin Nándin

  Þrír aðrir aðilar komust í úrslit Bláskeljarinnar, en það voru Bioplastic Skin, Krónan og Plastplan. Bioplastic Skin er verkefni sem snýr að hönnun umhverfisvænna umbúða úr dýrahúðum sem nota má til að pakka kjötvörum. Krónan hefur unnið markvisst að því að draga úr magni plasts sem fellur til í verslunum og auka endurvinnslu. Plastplan býr til nytjahluti úr endurunnu plasti fyrir viðskiptavini sína en þeir flokka, hreins, hakka og umbreyta sjálfir plastúrgangi.

  Bláskelin 2019

   

  Brugghúsið Segull 67 hlaut Bláskelina 2019, fyrir bjórkippuhringi úr lífrænum efnum.

  Í rökstuðningi dómnefndarinnar kemur fram að hún hefði lagt áherslu á að vinningslausnin hefði möguleika á að komast í almenna notkun og að nýnæmi hennar hér á landi hefði vegið þungt. Ef fleiri framleiðendur myndu nota lífræna kippuhringi í stað plasts myndi það ekki einungis skila sér í minni plastnotkun og -mengun heldur einnig auka meðvitund í samfélaginu um óþarfa plastnotkun. Á síðasta ári voru 15 milljónir lítra af bjór í áldósum seldir hérlendis og 75% þeirra eru íslensk framleiðsla.

  Fimm aðilar komust í úrslitahóp dómnefndar auk Seguls 67, en það voru Bioborgarar, Efnalaugin Björg, Farfuglar á Íslandi og Kaja Organics. Bioborgarar er lífrænn hamborgarastaður sem m.a. framreiðir matinn í margnota búnaði á staðnum og í pappaumbúðum fyrir þau sem taka hann með, Efnalaugin Björg býður upp á fjölnota fatapoka, Farfuglar á Íslandi hafa dregið verulega úr plastúrgangi og tekið út einnota plast í rekstri farfuglaheimila sinna og Kaja Organics rekur meðal annars umbúðalausa verslun, lífrænt kaffihús, heildsölu og framleiðslu vottaða af Tún lífrænni vottun.