Viðtal við Þorbjörgu Söndru Bakke, teymisstjóra í teymi hringrásarhagkerfis og starfsmann Saman gegn sóun, sem birtist í sjálfbærniblaði Fréttablaðsins miðvikudaginn 29. mars 2023.
Þorbjörg Sandra Bakke starfar sem teymisstjóri í teymi hringrásarhagkerfis hjá Umhverfisstofnun. Þar er unnið að margvíslegum verkefnum sem snúa að eflingu hringrásarhagkerfins.
Eitt þessara verkefna er Saman gegn sóun sem leggur meðal annars áherslu á að draga úr myndun óþarfa plastsúrgangs með fræðslu, miðlun, samvinnu og samtali við bæði almenning og atvinnulífið. 70 % Íslendinga telja sig hafa dregið úr plastnotkun samkvæmt Umhverfiskönnnun Gallup 2022. „Á sama tíma segist helmingur svarenda ekki geta gert sín innkaup umhverfisvænni þar sem það skorti umhverfisvænni valkosti. Þetta segir okkur að neytendur vilja og eru tilbúnir til að stuðla að ábyrgri notkun plasts en þeir þurfa stuðning og lausnir frá fyrirtækjunum sem þeir versla við,“ segir Þorbjörg og bætir við að brýnt sé að kynna neytendum hvernig hægt er að vinna enn frekar gegn sóun og nýta þær lausnir sem eru þegar til staðar. „Á vef Saman gegn sóun hefur Umhverfisstofnun tekið saman allskonar upplýsingar sem gagnast fyrirtækjum sem vilja mæta þessu ákalli. Þar á meðal má nefna leiðbeiningar um ábyrga notkun plasts. Hægt er að lesa sér nánara til um það á eftirfarandi síðu: Plast í atvinnulífinu,“ segir Þorbjörg.
Umræðan á þá vegu að plast sé vondi kallinn
Að sögn Þorbjargar hefur umræðan í samfélaginu síðustu ár hefur svolítið verið á þann veginn að plast sé vondi kallinn. „En það þarf alls ekki að vera það. Plast sem er notað á óábyrgan hátt er mjög skaðlegt umhverfinu en það getur hins vegar verið tiltölulega umhverfisvænt ef því er komið inn í lokaða hringrás. Ástæðan er m.a. sú að plast er mjög endingagott efni og hentar því vel að nota það aftur og aftur. Auk þess er hægt að endurvinna margar tegundir plasts með góðum árangri. Vandamálið er ofgnóttin sem framleidd hefur verið af plasti, bæði einnota og fjölnota.
„Við þurfum að endurnota og endurvinna það plast sem er þegar í umferð í stað þess að framleiða alltaf meira.“
Hönnun vara skiptir máli
„Atvinnulífið leikur lykilhlutverk í að skapa hér hringrás fyrir plast, hvort sem það eru fyrirtæki í framleiðslu, verslun, skrifstofustarfsemi eða iðnaði. Bæði með sinni eigin eftirspurn, því þau velja hvort þau kaupi umhverfisvænni vörur eða eitthvað annað. En einnig með því að velja vel hvaða hráefni er notað í vöruna og hvernig henni er pakkað inn. Evrópusambandið hefur bent á að allt að 80% af umhverfisáhrifum vöru séu ákvörðuð á hönnunarstiginu og þess vegna er lykilatriði að hanna vörur sem haldast í hringrásinni eins lengi og mögulegt er.
„Mörg fyrirtæki eru komin langt af stað í þessu ferli, farin að bjóða upp á umbúðalausar vörur, fjölnota lausnir og vörur úr endurunnu plasti og það þykir okkur í verkefninu Saman gegn sóun frábært“
„Ef það er eitthvað þrennt sem ég ætti að ráðleggja framleiðendum varðandi val á umbúðum og efnivið í plastvörur þá er það að vörurnar séu endurvinnanlegar og að hluta til eða öllu leyti úr endurunnu plasti, að þær séu úr einni gerð plasts og í ljósum lit. Nánari lýsing á því hvernig plast er heppilegast má finna í leiðbeiningum okkar um ábyrga notkun plasts. „Ég hvet alla til þess að kíkja á vefinn okkar og fylgja okkur á Instagram og Facebook, bæði almenning og atvinnulífið. Þar má nálgast aragrúa af hagnýtum upplýsingum um ábyrga plastnotkun, og margt fleira,“ segir Þorbjörg.