Plast í atvinnulífinu

Plast er mjög nytsamlegt en við erum að nota of mikið af því. Við þurfum að draga verulega úr notkun þess, endurnota og endurvinna. Atvinnulífið leikur lykilhlutverk í að koma á ábyrgari plastnotkun í samfélaginu.

„Hjá atvinnulífinu liggur bæði vandinn og lausnin að plastvandanum“

Það er atvinnulífið sem framleiðir plast, flytur inn plast, pakkar vörunum sínum í plast og selur plast. Það er ekki skrítið að plast verði fyrir valinu því það hefur marga ákjósanlega eiginleika, er endingagott og ódýrt. En við vitum öll að við erum að nota of mikið magn af plasti og líftími plasts er of stuttur. En með ábyrgari notkun á plasti er hægt að ná jafnvægi milli þeirra lífsgæða sem plastið hefur stuðlað að, á sama tíma og dregið er úr neikvæðum umhverfis og samfélagslegum áhrifum.

Af hverju ábyrgari plastnotkun?

Það eru margar ástæður fyrir því að framleiðendur umbúða, vörumerkja eigendur, og atvinnulífið almennt eiga að stefna að ábyrgari plastnotkun.

Innleiðir hringrásarhagkerfið

Hringrásarhagkerfið er hagkerfi þar sem leitast er við að koma í veg fyrir að auðlindir verði að úrgangi með áherslum sem tryggja að hægt sé að viðhalda verðmætum auðlinda eins lengi og mögulegt er. Markmiðið er að lágmarka auðlindanotkun og þar með úrgangsmyndun. 

Plast sem er notað á óábyrgan hátt er mjög skaðlegt umhverfinu. Plast getur hinsvegar verið tiltölulega umhverfisvænt ef því er komið inn í lokaða hringrás. Plast er mjög endingagott og hentar því vel að nota það aftur og aftur. Auk þess er hægt að endurvinna margar tegundir af plasti með góðum árangri.

  Lægra kolefnisspor

  Það er hægt að velja plast með lægra kolefnisspor. Lífplast sem unnið er úr hliðarafurðum matvælaframleiðslu eru að jafnaði með lægra kolefnisspor en hefðbundið plast. Endurunnið plast er einnig með lægra kolefnisspor en nýplast. Að jafnaði er minni orka nýtt í endurvinnsluferlinu en við útdrátt hráefnisins sem er nýtt í plast og vinnslu. 

   Nýting á endurunnu plasti er forsenda endurvinnslu plasts

   Markaðslögmál stýra endurvinnslu. Ef engin eftirspurn er eftir endurunnu hráefni þá svarar það ekki kostnaði að endurvinna það. Það eru því ekki endilega tæknilegar hindranir sem gera það að verkum að efni er ekki endurunnið, heldur ónóg eftirspurn. 

   Forðast orðsporsáhættu

   Fyrirtæki hafa mörg hver sett sér markmið um að verða umhverfisvænni. Þetta er hægt að gera með því að draga úr magni plasts, koma á hringrás plast, endurvinna betur og nýta meira af endurunnu plasti.  

   Byggja upp traust

   Æ fleiri neytendur vilja umhverfisvænar vörur, sérstaklega á meðal ungs fólks sem eru neytendur framtíðarinnar. Með því að bæta nýtingu á plasti og nota endurunnið plast í vörum sínum er hægt að ná til þessa hóps. 

   Draga úr plastmengun

   Plastrusl á landi og í vatnsfarvegum er alvarlegt umhverfisvandamál sem hefur áhrif á heilsu manna, dýra og lífríkisins almennt.  

   Þetta umhverfisvandamál getur á endanum líka haft áhrif á efnahaginn og atvinnulífið. Til dæmis getur plastmengun dregið úr fiskveiðum þar sem plast og örplast er hættulegt lífríki sjávar. Túrismi getur einnig minnkað á stöðum þar sem ímynd landa skaðast af miklu magni af plastrusli.

    Minnka þörfina á löggjöf

    Því betur sem atvinnulífinu tekst að bregðast við umhverfisvandanum sem tengist plastmengun því minni ástæða verður til þess að innleiða íþyngjandi löggjöf. 

    Reglur um plast

    Um mitt ár 2021 tóku í gildi reglur sem setja einnota plastvörum hin ýmsu takmörk.

    Í hverju felast lögin og hvaða lausnir standa til boða?

    Umhverfisvænni plastumbúðir

    Leiðbeiningar um umhverfisvænni plastumbúðir eru í vinnslu. Ábendingar velkomnar á ust@ust.is

    Hvað er plast?

    Plast er samheiti yfir mörg efnasambönd sem eiga það sameiginlegt að vera svokallaðar fjölliður sem íblöndunarefnum eða öðrum efnum hefur verið bætt við. Algengast er að plast sé framleitt úr jarðefnaeldsneyti en á undanförnum árum hefur framleiðsla á plasti úr öðrum efnum aukist, s.s. úr sykurreyr eða sterkju. Hefðbundið plast hverfur ekki eða eyðist við náttúrulegt niðurbrot, heldur brotnar það niður í smærri og smærri hluta og verður að endingu að svokölluðu örplasti. Flest plast sem auglýst er sem niðurbrjótanlegt brotnar heldur ekki niður í náttúrulegum aðstæðum heldur aðeins í iðnaðarjarðgerð.

    Lagalega skilgreiningin á plasti horfir til þess hvernig efni í tiltekinni einnota vöru er búið til. Því er mikilvægt að vita byrjun lífsferils vörunnar, eða með hvaða hætti hún var framleidd. Skilgreiningin á plasti tekur ekki mið af enda lífsferils vörunnar. Fyrir skilgreiningu laganna skiptir þess vegna ekki máli hvort einnota vara sé niðurbrjótanleg (e. biodegradable), endurvinnanleg (e. recyclable) eða moltanleg (e. compostable) til að ákvarða hvort efnið teljist vera plast eða ekki.

    Svona er plast skilgreint í lögum:

    • Plast er efni sem samanstendur af fjölliðu, eins og hún er skilgreind í reglugerð um skráningu, mat, leyfisveitingu og takmarkanir að því er varðar efni (REACH), sem íblöndunarefnum eða öðrum efnum kann að hafa verið bætt við og getur nýst sem aðalbyggingarefni fullunninnar vöru, þ.m.t. plast sem getur brotnað niður með eðlisfræðilegu og lífrænu niðurbroti, en undanskildar eru náttúrulegar fjölliður sem hefur ekki verið breytt með efnafræðilegum aðferðum.

     

    Örplast

    Örplast er heiti yfir smáar plastagnir sem eru minni en 5 mm að stærð.

    Örplast sem sett er í vörur

    Í sumum tilfellum er örplast framleitt í tilteknum tilgangi, s.s. plastþræðir í fatnað, örperlur í snyrtivörur og plastkorn sem notuð eru sem hráefni í almenna plastframleiðslu.

     Örplast vegna niðurbrots stærri plasthluta

     Örplast getur hins vegar líka orðið til við aflræna veðrun og niðurbrot stærri plasthluta sem berast út í umhverfið, t.d. drykkjarflaskna, veiðarfæra, plastumbúða og plastpoka. Ekki skiptir máli af hvorum þessara uppruna örplastið er þegar það hefur borist í umhverfið, það veldur sama skaða.

     Lífplast

     Lífplast er samheiti yfir plasttegundir sem framleiddar eru úr lífmassa í stað jarðefnaeldsneytis.

     Almennt kostir og gallar
     • Kostir
      • Helsti kosturinn við notkun lífplasts er að efnið er framleitt úr endurnýjanlegum auðlindum, sem olíulindir eru ekki.  
      • Helstu hráefni sem notuð eru í lífplast eru maís, sykurreyr, sykur og hálmur.  
      • Umhverfisávinningur framleiðslunnar eykst enn frekar þegar aukaafurðir frá annarri framleiðslu eru nýttar.
     • Gallar
      • Vandamál sem fylgja plasti leysast ekki endilega með því að skipta úr hefðbundnu plasti yfir í lífplast 
      • Lífplast brotnar hægt eða alls ekki niður í náttúrunni 
      • Lífbrjótanlegt plast getur skemmt fyrir plastendurvinnslu ef það endar þar
      Lífplast sem brotnar ekki niður
      • Eiginleikar
       Er 2/3 lífplasts. Framleitt úr lífmassa en hefur alveg sömu uppbyggingu og hefðbundið plast og flokkast því sem slíkt, t.d. til endurvinnslu. Það er því mikilvægt að skilja á milli lífplasts sem á að fara í plastendurvinnslu og lífplasts sem er lífbrjótanlegt. Þessi tegund plasts er notuð í auknum mæli í samsettum umbúðum, til dæmis í plasttappa á drykkjarvörufernum.
      • Dæmi
       bio-PE, bio-PET, bio-PA og bio-PP
      • Kostir
       Lífplast sem brotnar ekki niður er úr endurnýjanlegum auðlindum
      • Ókostir
       Lífplast sem brotnar ekki niður hefur sömu skaðlegu áhrif og hefðbundið plast ef það endar í náttúrunni.
       Lífbrjótanlegt plast
       • Eiginleikar
        Er 1/3 lífplasts. Hefur sömu eiginleika og annað lífrænt efni, þ.e. að það brotnar niður í vatn, CO2, lífmassa og metan. Niðurbrotið tekur um 10 vikur ef hita- og rakastig er hentugt og réttar örverur eru til staðar. Þessar tegundir plasts hafa verið notaðar í plastpoka, penna og í stað einnota borðbúnaðar svo eitthvað sé nefnt.
       • Dæmi
        PLA (polylactic acid) og PHA (polyhydroxyalkanoates)
       • Kostir
        • Er úr endurnýjanlegum auðlindum og getur brotnað niður í náttúrunni séu réttar aðstæður fyrir hendi. Hins vegar tekur það langan tíma og brotnar að líkindum aldrei alveg niður við sumar aðstæður.  
        • Að geta brotnað niður er mikilvægur eiginleiki ef efnið fær ekki rétta úrgangsmeðhöndlun og endar í náttúrunni.  
        • Ef lífbrjótanlegt plast kemst í meltingarfæri sjófugla og fiska brotnar það niður og verður að fæðu í stað þess að safnast upp eins og hefðbundið plast.  
        • Hefur ekki sömu óæskilegu áhrif á lífverur og hefðbundið plast eða lífplast sem brotnar ekki niður. Það er þó alls ekki æskilegt að lífplast lendi í sjónum.
       • Ókostir
        • Úrgangsmeðhöndlun getur ruglað neytendur í ríminu. Lífbrjótanlegt plast á ekki heima í plastendurvinnslu heldur flokkast sem lífrænn- eða almennur úrgangur.  
        • Ef lífbrjótanlegt plast er flokkað með hefðbundnu plasti getur það hindrað endurvinnslu plastefnanna og jafnvel sendingu innihalds viðkomandi gáms til endurvinnslu.  
        • Við heimajarðgerð er gott að hafa í huga að ákjósanleg skilyrði til niðurbrots lífplasts eru ekki alltaf til staðar og getur lífplastið því stundum hægt á niðurbroti í jarðgerðartunnu. 
        Skýringamynd frá Sorpu

        Tegundir plasts eftir uppruna efnis og niðurbrjótanleika. Mynd birt með leyfi Sorpu

        Plastmerkingar

        Plast er ekki bara plast heldur eru til margar mismunandi gerðir af því og til að ná fram ákjósanlegum eiginleikum eins og mýkt, endingu, hörku og að það brenni síður er ýmsum efnum bætt út í það.

        Þríhyrningarnir 7

         Plast er oft einkennt með þríhyrning með tölu inn í sem endurspeglar tegund fjölliðu.

         

        Númer Skammstöfun Heiti Dæmi Endurvinnsla
        1 PET Polyethylen terephthalat Gosflöskur, flíspeysur Hentar vel til endurvinnslu
        2 HDPE Polyethylen – High Density (HDPE) Umbúðir fyrir snyrtivörur Hentar vel til endurvinnslu
        3 PVC Polyvinylchlorid Plastfilma, leikföng, regnföt Hentar illa til endurvinnslu
        4 LDPE Polyethylen – Low Density (LDPE) Plastpokar Hentar vel til endurvinnslu
        5 PP Polypropylen Skyrdósir, bílar og gólfteppi Hentar vel til endurvinnslu
        6 PS Polystyren Frauðplast Hentar illa til endurvinnslu
        7 Annað/Other Allt annað plast, t.d. lífplast, ABS, EVA, nylon Lego kubbar, öryggisgler, lífbrjótanleg djúsglös Hentar misvel til endurvinnslu

        Bláskelin er viðurkenning sem er veitt fyrirtæki, stofnun, einstaklingi eða öðrum fyrir framúrskarandi lausnir sem stuðla að minni plastnotkun og plastúrgangi í samfélaginu.

        Áhugaverðar tölur

        20 mín - Meðal notkunartími plastpoka

        Meðalnotkunartími plastpoka

        Losun

        tonn af umbúðaplastúrgangi á Íslandi á ári

        35% - Endurvinnsla á umbúðaplasti á Íslandi síðustu ár

        Endurvinnsla á umbúðaplasti á Íslandi síðustu ár

        Á Íslandi er magn umbúðaplastúrgangs um 47 kg á hvern íbúa á hverju ári eða alls um 16.500 tonn á ári. Þegar við tölum um umbúðaplast er átt við allt umbúðaplast sem tengist lífi einstaklings, heimili, skóla og vinnu.  Endurvinnsla á umbúðaplasti á Íslandi síðustu ár er í kringum 25-30%, en inni í þeirri tölu er endurvinnsla drykkjavöruumbúða með skilagjaldi (80-85% endurunnið), heyrúlluplasts (80-85% endurunnið) og annarra umbúða úr plasti (10-15% endurunnið). Tölfræði um endurvinnslu umbúða er einnig að finna á síðu um tölfræði úrgangs á síðu Umhverfisstofnunar.

        Ekki eru til góðar heildartölur fyrir annað plast sem ekki er skilgreint sem umbúðir og er t.d. í raftækjum, leikföngum, húsgögnum og slíku. Svo þær tölur vantar hér.

        Afhverju getur plast verið vandamál?

        Framleiðsla á plasti hefur 200-faldast síðan árið 1950 og við erum alltaf að nota plastið í styttri og styttri tíma. Plast endist ótrúlega lengi en við erum oft að nota það bara í nokkrar mínútur. Með aukinni framleiðslu og styttri líftíma er meira og meira af plasti að enda í náttúrunni og hafa neikvæð áhrif á lífríki. 

        Umhverfisáhrif

        Vissir þú að...

        …á hverju ári enda um 8 milljón tonn af plasti í sjónum?

        …plast er að finnast allstaðar í náttúrunni, í lífverum og fæðukeðjum og í drykkjarvatninu okkar?

        Áhrif á lífríki
        • Dýr festast í plasti
         Dýr festast í plastrusli og hljóta af því ljót sár eða deyja vegna þess að þau geta ekki náð í mat
        • Dýr innbyrða plast
         Dýrin geta líka innbyrt litlar plastagnir sem þau fyrir mistök telja vera mat. Þessar agnir geta stíflað meltingaveg dýra og valdið síðan kvalafullum dauðdaga. Plastið getur einnig safnast fyrir í dýrum og borist upp fæðukeðjuna og þar með endað í okkar líkama.
        • Dýr og plöntur villast
         Plast í sjó, ám og vatni getur virkað sem flutningstæki fyrir dýr og plöntur milli staða sem geta verið ágengar framandi lífverur á nýja staðnum og valdið þar miklum umhverfisáhrifum og breytingum á lífríki.
         Heilsuspillandi efni
         • Efni í plasti
          Þegar plast er framleitt er ýmsum efnum bætt í það til að ná fram ákjósanlegum eiginleikum sem sum geta losnað úr þeim við notkun og haft slæm áhrif á heilsu og umhverfi. Þeirra á meðal eru þalöt (e. phthalates), bisphenol A (BPA) og eldvarnarefni (PBDEs og TBBPA). Þessi efni eru þrávirk og safnast fyrir í lífverum upp fæðukeðjuna.
         • Þalöt
          Rannsóknir hafa sýnt að ákveðin efni úr plasti hafi mögulega hormónaraskandi áhrif. Þalöt sem notuð eru í t.d gólf vínil, matarumbúðir og sjúkragögn hafa fundist í mælanlegu magni í fólki en talið er að það geti haft áhrif á þroska kynfæra drengja. Strangar takmarkanir og bönn gilda í dag um ákveðin þalöt.
         • Bisphenol A (BPA)
          Notað t.d. í drykkjarflöskur og matarumbúðir og getur lekið út í matinn. Efnið er hormónaraskandi og hefur verið tengt við hjartasjúkdóma og sykursýki. Um BPA efni gilda þó strangar takmarkanir og bönn í dag.
         • PVC-plast
          Inniheldur klór sem gerir það að verkum að bæði framleiðsla þess mengar meira en mörg önnur plastframleiðsla og við brennslu getur myndast díoxín.
          Fæðukeðjan
          • Eiturefni
           Ýmis eiturefni geta loðað við plast og plastagnir og þannig getur efnið virkað sem einskonar vörubíll fyrir eiturefni í gegnum fæðukeðjuna. Þetta geta til dæmis verið skordýraeitur, úrgangsefni frá bílum, iðnaði og landbúnaði. Ef dýr éta plast geta þau innbyrt þessi eiturefni sem síðan geta farið út í vefi og líffæri dýranna. Líkur eru á að eiturefni sem loða við plast geti borist upp fæðukeðjuna og að endingu til okkar.
          • Mengun frá plasti
           Sjávardýr og fuglar ruglast á plastögnum og mat, sem hefur sést á bitförum á plasti og magainnihaldi dýra. Einnig eru vísbendingar um að magn plastrusls í hafinu tengist hve mengaðir fiskar eru.
          • Fljótandi plast
           Plast hefur þann eiginleika að fljóta og því geta eiturefni fests við plastið á einum stað og borist langar leiðir og mengað staði og dýr.
           Sóun á auðlindum
           • Línulegt hagkerfi
            Plast er almennt fast í línulegu hagkerfi þar sem náttúruauðlindir eru nýttar til að framleiða vöru sem er notuð í stuttan tíma og endar hratt sem úrgangur.
           • Olíuauðlindir
            Til að framleiða plast er að mestu leyti notuð olía og jarðgas en einnig efni eins og kol, sellulósi, gas og salt. Eins og svo margt annað sem við nýtum frá jörðinni eru olíuauðlindir okkar ekki endurnýjanlegar. Það þýðir að á endanum mun auðlindin klárast.
           • Neysla og sóun
            Óþarfa neysla er mikil sóun á dýrmætum auðlindum. Þess vegna er mikilvægt að fara vel með olíuauðlind okkar og eyða henni ekki í efni sem síðan er hent eftir aðeins eina eða takmarkaða notkun. Að auki getur verið erfitt að endurvinna plast svo það leysir aðeins hluta vandans.
            Líftími plasts
            • Notkun plasts
             Eiginleikar plasts eru þannig að endingartími þess er yfirleitt nokkuð mikill. Þessi líftími plasts er hins vegar ekki í samræmi við notkun þess.
            • Örplast
             Plast er slitsterkt svo það hverfur ekki eða eyðist heldur brotnar í smærri og smærri plasthluta í náttúrunni og verður að svokölluðu örplasti sem veltist um í sjó og vatni eða safnast fyrir í seti og jarðvegi.
            • Vötn og höf
             Plast er það létt efni að það flýtur. Það getur því borist um hundruði kílómetra í vötnum og höfum og valdið skaða langt frá upprunastað sínum. Gríðarstórir flákar af plasti hafa til að mynda mótast í Kyrrahafi, Atlantshafi og Indlandshafi þar sem hafstraumar hafa borið plastið þangað. Það er síðan fast í gríðarstórum hringstraumum sem þar eru.

             Samfélagsleg áhrif

             Vissir þú að...

             …að plastmengun hefur verst áhrif á viðkvæma hópa?

             …að strandhreinsunum fylgir töluverður kostnaður?

             Kostnaður
             • Hreinsanir
              Plastmengun hefur í för með sér kostnað fyrir samfélagið, meðal annars við kostnað við hreinsanir. Talið er að minnsta kosti 8 milljónir tonna af plasti endi í hafinu og mikill kostnaður felst í að tína það upp.
             • Hornstrandir
              Til Hornstranda berst mikið af rekavið frá hafi en í dag rekur þar einnig á fjörur gríðarmikið magn af plastrusli. Þar fer fram árlegt hreinsunarátak sem margir aðilar koma að til að hreinsa rusl úr fjörum í friðlandinu. Árið 2020 höfðu safnast alls 36,5 tonn af plasti í 7 hreinsunarferðum til Hornstranda.
             • Rauðisandur
              Sambærileg hreinsun er nú hafin á ströndum Rauðasands þar sem sjálfboðaliðar og stofnanir taka til hendinni. Einnig hafa samtökin Blái herinn staðið lengi fyrir hreinsunum við strandlengjuna og í maí 2017 hleypti Landvernd ásamt fleirum af stað samnorrænu verkefni sem kallast Hreinsum Ísland.
              Áhrif á ímynd
              • Hreinleiki
               Ruslið hefur ekki aðeins slæm áhrif á lífríkið í náttúrunni heldur einnig á ímynd Íslands. Plast í náttúrunni getur dregið úr ímynd um hreinleika landsins.
              • Ósnortin náttúra
               Á Íslandi er mikil lagt upp úr því að eiga ósnortna náttúru og hrein höf. Það er ekki gott til þess að vita að í íslenskri náttúru sem við viljum kalla ósnortna, séu fleiri tonn af rusli bæði frá Íslendingum og rusl sem borist hefur hingað um óravegu með hafstraumum.
               Plast og ójöfnuður
               • Viðkvæmir hópar
                Viðkvæmir hópar geta orðið fyrir verri áhrifum af plasti vegna óskilvirkrar sorphirðu eða skorti á sorphirðu. Einnig geta verið slæm áhrif af framleiðslu plasts, notkunar og mengaðs umhverfis vegna plasts.
               • Framleiðsla plasts
                Plast er unnið úr olíu og olíuvinnsla getur verið mjög skaðleg og mengandi. T.d. hafa samfélög frumbyggja þurft að flýja landsvæði fyrir olíuborun, vinnslan getur mengað drykkjarvatn og olíuhreinsunsarstöðvar geta verið skaðlegar heilsu fólks sem býr í nágrenni þeirra.
               • Notkun plasts
                Konur eru líklegri til að vera útsettar fyrir eiturefnum í plasti vegna meiri notkunar plasts í vörum fyrir heimilið, snyrtivörum eða tíðarvörum.
               • Förgun plasts
                Plast sem fær ekki rétta úrgangsmeðhöndlun endar gjarnan í sjónum þar sem það getur ógnað lífsviðurværi fólks sem reiðir sig á fæðu úr sjónum. Plast getur jafnvel leynst í fæðu og ógnað heilsu fólks.
               • Plasttínsla
                Fólk sem starfar við plasttínslu er hlutfallslega meira útsett fyrir eiturefnum í plasti

                Plastaþon

                 

                Hugmyndasmiðja árið 2019 um lausnir á plastvandanum​

                Teymi unnu hugmyndir og kynntu fyrir dómnefnd. Veitt voru verðlaun fyrir bestu hugmyndina.

                Spói