Víða tækifæri til að draga úr sóun

20. september 2024

Um þessar mundir stendur yfir endurskoðun á stefnunni Saman gegn sóun sem er stefna ríkisins um úrgangsforvarnir. Umhverfisstofnun stendur fyrir vinnunni og hefur haldið opna fundi um allt land til að safna hugmyndum fyrir stefnumótunarvinnuna. Síðasti opni fundurinn var haldinn í dag í Reykjavík fyrir fullum sal í Iðnó.

Fundurinn var vel sóttur og á honum fór fram lausnamiðað samtal um þær hugmyndir sem safnast hafa upp um hringferð Saman gegn sóun um landið.

Hér á eftir fer nokkuð löng samantekt á því sem fram fór á fundinum, fyrir þau sem hafa áhuga á að kafa í efnið.

Tónninn settur

Fundurinn hófst á því að Þorbjörg Sandra Bakke, teymisstjóri hringrásarhagkerfis hjá Umhverfisstofnun, sagði frá stefnunni og niðurstöðum samráðsins hingað til. Mestur úrgangur verður til hjá fyrirtækjum og fyrirtæki hafi kallað eftir því að fá að taka virkan þátt í stefnumótunarvinnunni og innleiðingu stefnunnar. Þær leiðir sem hagaðilar sjái sem vænlegastar til að draga úr sóun séu beiting skatta og ívilnana, aukin fræðsla og skýrt regluverk. En varðandi regluverk kom skýrt ákall frá fyrirtækjum að það sé öflugt en jafnframt leiðbeinandi.

Guðmundur Steingrímsson, umhverfisfræðingur, var með hugvekju um stöðu hringrásarhagkerfisins á Íslandi. Þrátt fyrir umræðuna í samfélaginu sýni tölurnar að Íslendingar flytji inn sífellt minna af vörum sem hafa neikvæð umhverfisáhrif eða tengist ofneyslu. Því séu jákvæð teikn á lofti.

Aðgerðir dýpkaðar fyrir opnum sal

Að inngangserindum loknum tóku við pallborðsumræður í fjórum pallborðum. Hvert pallborð fékk nokkrar aðgerðir til að ræða fyrir opnum sal en fundargestir sáu síðan um að forgangsraða aðgerðunum eftir því hversu mikilvægt sé að taka þær inn í aðgerðaáætlun við nýju stefnuna. Aðgerðirnar eru sprottnar úr þeirri vinnu sem átti sér stað á fundum með hagaðilum um allt landið.

Rauður þráður í umræðum pallborðanna voru að hvatar séu líklegastir til þess að skila árangri þegar kemur að því að draga úr sóun og niðurstöður fundarins voru í samræmi við það.

Fyrsta pallborð – matvæli og umbúðir

  • Baldur Ólafsson, markaðsstjóri Bónus
  • Bergrún Ósk Ólafsdóttir, verkefnastjóri umhverfis & samfélags hjá Samkaup
  • Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í landbúnaði
  • Einar Örn Thorlacius, lögfræðingur hjá Matvælastofnun
  • Umræðustjóri: Jóhannes Bjarki Urbancic Tómasson, sérfræðingur í teymi hringrásarhagkerfis hjá Umhverfisstofnun

Það getur reynst áskorun að minnka matarsóun á sama tíma og við ætlum okkur að minnka magn umbúða utan um matvæli. Umræðan í pallborðinu snerist að miklu leyti að því að hvata vantitil að draga úr matarsóun en á sama tíma sjái fyrirtæki ekki augljósar leiðir til að draga úr magni pakkninga utan um vörur. Þegar kemur að því að lágmarka umbúðir liggi tækifærin sérstaklega í því lágmarka flutningsumbúðir utan um matvæli áður en þau fari í hillur verslana.

Ljóst er að hvata vantar í kerfið til að koma nothæfum matvælum í nýtingu en þó hafi það tekist í sumum smásöluverslunum. Framleiðendur séu meðvitaðir, smásöluverslanir séu með hugann við efnið og ný strikamerki vara geti auðveldað verslunum að bjóða matvæli á lægra verði eftir því sem þau nálgast að renna út á tíma.

Eftir umræður í pallborðinu forgangsröðuðu þátttakendur fundarins aðgerðum sem tengjast matvælum og umbúðum á þennan hátt:

  1. Hvatar til að draga úr matarsóun
  2. Regluverk styðji við minni umbúðir eða umbúðaleysi
  3. Matvæli séu ekki ónýt þegar komið er að best fyrir stimplinum
  4. Á skannasala rétt á sér?

Annað pallborð – Neytendavörur

  • Brynja Dan, eigandi Extraloppunnar, 1111.is og bæjarfulltrúi í Garðabæ
  • Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Prís
  • Gró Einarsdóttir, sérfræðingur Rannsóknamiðstöðvar Háskólans á Akureyri og doktor í félagssálfræði
  • Óttar Örn Sigurbergsson, framkvæmdarstjóri Elko
  • Umræðustjóri: Björn Steinar Blumenstein, vöruhönnuður, eigandi Studio Plastplan og fagstjóri í vöruhönnun við Listaháskóla Íslands

Á Íslandi er kaupmáttur mikill og hagkerfið línulegt – sem leiðir til þess að við erum meðal mestu neysluþjóða heimsins. Í pallborðinu um neytendavörur var rætt um nægjusemi, fræðslu og hvernig fyrirtæki geti aðlagað sig að breyttum gildum samfélagsins.

Þar kom meðal annars fram að, ólíkt því sem mörg halda, þá felist góð viðskiptatækifæri í umhverfismálum, sérstaklega hvað varðar að draga úr sóun og að lágmarka umbúðir. Þar sem fyrirtæki finna fjárhagslegan ábata séu þau óhrædd við að stökkva á viðskiptatækifærin. Það hafi verið raunin hingað til og stefnumótendur megi gera ráð fyrir að það verði þannig áfram. Það skipti smásala ekki öllu máli hvort þeir selji nýja vöru eða notaða.

Eftir umræður í pallborðinu forgangsröðuðu þátttakendur fundarins aðgerðum um neytendavörur á þennan hátt:

  1. Hagrænir hvatar fyrir hringrásarlausnir (deilihagkerfi, viðgerðir, ending, endursala)
  2. Fræðsluátak um úrgangsforvarnir og hringrásarhagkerfið
  3. Við þurfum að rækta hamingjuna því hamingjusama vantar ekkert
  4. Fyrirtæki framleiði færri hluti (framleiða of mikið og miklu af því hent)

Þriðja pallborð – Byggingariðnaður

  • Sigurður Pálsson, forstjóri Byko
  • Sigríður Ósk Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri umhverfis- og gæðasviðs hjá Hornsteini
  • Bergþóra Góa Kvaran, sérfræðingur hjá Svaninum á Íslandi
  • Áróra Árnadóttir, framkvæmdarstjóri Grænni byggðar
  • Umræðustjóri: Guðmundur Steingrímsson, umhverfisfræðingur

Undanfarin ár hefur verið víðtæk umræða um umhverfismál í byggingargeiranum. Rauði þráðurinn sé að það vantar rannsóknir, þekkingu og fyrirmyndir til að auka nýtingu hráefna og bæta hönnun þannig að sem minnst af úrgangi falli til. Einnig hafi orðið til hvatar til að byggja stærri íbúðir en áður, íbúðir sem er jafnvel ekki sérstök eftirspurn eftir, heldur séu sérsniðnar að gildandi regluverki frekar en þörfum íbúa. Þessu sé hægt að vinda ofan af.

Nokkur umræða var einnig um að hversu miklu marki sé raunhæft að nýta byggingarefni sem þegar eru til staðar, svo sem burðarvirki bygginga sem á að rífa, og hversu mikil sóun geti fylgt því þegar hús séu hönnuð eða byggð án stöðlunar. Aðferðafræði við nýbyggingar á Íslandi sé einnig önnur en á hinum Norðurlöndunum og þar liggi einnig tækifæri til að bæta verkferla.

Eftir umræður í pallborðinu forgangsröðuðu þátttakendur fundarins aðgerðum um byggingariðnaðinn á þennan hátt:

  1. Nýta hagræna hvata til að lágmarka úrgangsmyndun
  2. Hönnun taki mið af lágmörkun nýs byggingarefnis
  3. Auknir hvatar til að viðhaldi sé sinnt og það skráð
  4. Aukið aðgengi að notuðu byggingarefni

Fjórða pallborð – Framleiðslufyrirtæki

  • Sigurjón Svavarsson, framkvæmdastjóri umhverfismála hjá Elkem Ísland
  • Sveinn Margeirsson, framkvæmdastjóri nýsköpunar og loftlagsmála hjá Brim
  • Jóna Bjarnadóttir, framkvæmdarstjóri samfélags og umhverfis hjá Landsvirkjun
  • Umræðustjóri: Elva Rakel Jónsdóttir, framkvæmdarstjóri Festu

Framleiðslu fylgir óhjákvæmilega einhver sóun en það sé bæði hagur framleiðenda og viðskiptavina að sjá til þess að sem stærstum hluta vörunnar sé komið í verð. Sóun í framleiðslu sé oft tilkomin af gamalli arfleifð þegar verksmiðjur eða innviðir voru hannaðir. Kostnaður við endurbætur á framleiðsluferlum geti verið hindrun fyrir fyrirtæki sem búa við óstöðugt rekstrarumhverfi og því skipti fyrirsjáanleiki í rekstrarumhverfinu máli til að draga úr sóun.

Þeir hvatar sem þegar séu til staðar hafi verið vel nýttir af fyrirtækjum en ljóst er að til fá öll fyrirtæki á hringrásarvagninn þurfi að stilla hagræna hvata þannig að bætt nýting skili sér samhliða í aukinni arðsemi.

Sérstök tækifæri séu einnig í viðgerðum á vélbúnaði í framleiðslufyrirtækjum og þar séu vannýtt tækifæri.

Eftir umræður í pallborðinu forgangsröðuðu þátttakendur fundarins aðgerðum fyrir framleiðslufyrirtæki á þennan hátt:

  1. Hagrænir hvatar sem flýta fyrir umbótum, t.d. fjárfestingu í tækni sem eykur nýtni
  2. Einfalda regluverk til að tryggja að aukaafurðir/úrgangur eins fyrirtækis geti orðið hráefni í framleiðslu annars
  3. Í stað þess að frumframleiða ál ætti Ísland með sína endurnýjanlegu orku að laða að fyrirtæki sem endurvinna ál eða aðrar málmafurðir
  4. Setja skýrari kröfur í starfsleyfi stórra fyrirtækja um leiðir til að draga úr myndun úrgangs
  5. Hagrænir hvatar til að draga úr viðgerðarkostnaði við viðhald á búnaði og vélum

Get ég enn haft áhrif?

Eftir fundinn tekur nú við vinna við að móta tillögu að stefnu um úrgangsforvarnir sem lögð verður fyrir ráðherra ásamt aðgerðum. Tillögurnar fara í samráðsgátt stjórnvalda á fyrstu vetrarmánuðum þar sem almenningi og hagaðilum gefst tækifæri til að koma athugasemdum sínum á framfæri.

Saman gegn sóun þakkar fundarmönnum fyrir sína þátttöku og góðar viðtökur.