Þann 8.september síðastliðinn gaf umhverfis- og auðlindaráðuneytið út aðgerðaáætlun í plastmálefnum sem ber titilinn Úr viðjum plastsins. Aðgerðaáætlunin byggir á tillögum samráðsvettvangs um plastmálefni sem að komu fulltrúar stjórnvalda, atvinnulífsins, félagasamtaka og þingflokka. Í áætluninni eru settar fram 18 aðgerðir sem miða að því að 1) draga úr notkun á plasti, 2) auka endurvinnslu á plasti, og 3) draga úr áhrifum plasts á lífríki hafs.
„Að ráðast gegn plastmengun er áskorun sem allar þjóðir heimsins standa frammi fyrir og hafa óæskileg áhrif plastmengunar á lífríki komið æ betur í ljós á síðustu árum og er mikilvægt fyrir íslenskt samfélag að grípa til aðgerða til að draga úr óábyrgri og óþarfri notkun plasts hér á landi, auka endurvinnslu plasts og lágmarka magn þess plasts sem ratar út í umhverfið, ekki síst til sjávar.“
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra
Það verður spennandi að fylgjast með framgangi þeirra aðgerða sem settar eru fram og hvaða árangri þær munu skila. Það er gleðiefni að vinna við margar aðgerðanna er hafin og í sumum tilfellum er innleiðingunni lokið. Aðgerðaáætlunin er í góðu samræmi við áherslur í úrgangsforvarnarstefnunni Saman gegn sóun, þá sérstaklega aðgerðir undir kaflanum um að draga úr notkun á plasti. Aðgerðir sem settar eru fram þar snúa meðal annars að banni við sölu burðarpoka úr plasti, innleiðingu tilskipunar Evrópusambandsins um einnota plasthluti, áframhaldandi vinna við vitundavakningu um plastvandann, rekstur Bláskeljarinnar og auknir styrkir til rannsókna og þróunnar.
Við hvetjum áhugasama til að kynna sér efni aðgerðaáætlunarinnar !