Hátíðlegt er um að líta í kirkjugörðum landsins á aðventunni þegar margir setja við leiði látinna ástvina jólaskreytingu, kerti eða ljósakross til að heiðra minningu þeirra. Auðvelt er að útbúa umhverfisvænar jólaskreytingar á leiðin sem sporna við sóun og hægt er að endurvinna eða nýta í jarðgerð.
Kirkjugarðar Reykjavíkur sitja uppi með gífurlegt magn af úrgangi eftir hver jól sem fellur einungis til vegna þeirra jóla- og kertaskreytinga sem settar eru upp í görðunum. Úrgangurinn samanstendur af plastböndum- og borðum, plasthólkum utan af útikertum, vírum, jólakúlum o.fl. Á árinu 2021 féllu til 10,380 kg af jólaskrauti innan kirkjugarða Reykjavíkur sem er ótrúlegt magn sé litið til þess að jólaskreytingar vega almennt ekki mikið. Meðfylgjandi myndir sýna dæmi um hversu mikill úrgangur þetta er.
Starfsfólk kirkjugarðanna reynir að flokka í sundur úrganginn til endurvinnslu en umfangið er svo mikið að ekki er hægt að greiða úr honum að fullu; skilja plast frá greinum, taka víra og bönd úr skreytingunum o.s.frv.
Kirkjugarðar Reykjavíkur starfrækja sína eigin jarðgerð og því hentar best fyrir förgun jólaskreytinga að þær séu úr efni sem brotnar niður og verður að moltu.
Hér eru nokkur góð ráð til að gera skreytingarnar umhverfisvænni:
• Nota lifandi greinar af greni- eða furutrjám í skreytingar.
• Binda borða úr hör eða striga á skreytinguna í staðinn fyrir plast- eða tauborða. Hör- og strigaborðar mega fara með greinum og öðrum garðúrgangi í jarðgerð.
• Skreyta með eplum, mandarínum, könglum eða öðrum jólalegum, umhverfisvænum efnum. Með því að nota epli í skreytingar nýtast þau sem fuglafóður. Þannig heldur skreytingin áfram að gefa í hringrás lífsins.
• Setja útikerti við leiði sem eru vistvæn, ekki úr of mörgum tegundum efna (t.d. plast, málmur, vax) og sem hægt er að endurvinna að notkun lokinni.
Einnig má huga að atriðum sem varna því að skreytingar og kerti fjúki og endi á víðvangi, festa þarf þær vel niður eða fergja. Ef ætlunin er að nýta einhverja hluti aftur af skreytingum þarf að fjarlægja skreytingarnar eftir jólahald og hirða það sem nýtist aftur og koma öðru í viðeigandi úrgangsflokk.
Að vitja leiða þeirra sem fóru á undan okkur er góður og fallegur siður sem veitir okkur kyrrðarstund í amstri jólanna. Það veitir okkur einnig ákveðna hugarró, að vita að skreytingarnar sem við leggjum við leiðin séu umhverfisvænar og skapi náttúrulega hringrás í garðinum.
Gleðilega hátíð!