Umhverfismál og geðheilsa

10. október 2021

Endurhugsum hvað veitir okkur hamingju og drögum í leið úr áhrifum loftslagsbreytinga á geðheilsu viðkvæmra hópa. 

Í tilefni af alþjóða geðheilbrigðisdeginum (e. World Mental Health Day) vill Saman gegn sóun vekja athygli á hvernig geðheilbrigðismál geta tengst sóun og umhverfismálum. Með því viljum við einnig leggja okkar að mörkum til að reyna bæta geðheilsu.  

Í ár er þema dagsins „Geðheilbrigði í ójöfnum heimi“ (e. Mental Health in an Unequal World). Lögð er áhersla á mikilvægi þess að geðheilbrigðisþjónusta sé öllum aðgengileg, ekki síst í ljósi áhrifa Covid-19 heimsfaraldurs á andlega heilsu viðkvæmra hópa og skerðingar á þjónustu við þessa hópa.  

En hvernig getur þetta tengst sóun og umhverfismálum?  

Geðheilsa tengist umhverfismálum á að minnsta kosti tvennan hátt:

  • Annars vegar vegna þess að loftslagsáhrif hafa verstar afleiðingar í för með sér fyrir líkamlega og andlega heilsu viðkvæmra hópa. 
  • Hins vegar vegna þess að efnis- og neysluhyggja virðist geta haft í för með sér neikvæð áhrif á geðheilsu fólks.  

Ójöfnuður og loftlagsbreytingar 

Ójöfnuður og  umhverfismál eru nátengd. Loftslagsbreytingar hafa mismikil áhrif á ólíka hópa í heiminum. Á meðal hópa sem eru líklegri til að verða fyrir verri áhrifum eru konur, börn, eldri borgarar, framlínufólk, fólk með geðræn vandamál og fátækt fólk.  

Þurrkar, flóð og hækkuð sjávarstaða í kjölfar loftslagsbreytinga mun hafa meiri áhrif á fólk í fátækari löndum heimsins. Þegar hamfarir vegna loftslagsbreytinga verða algengari mun fólk því í auknum mæli upplifa áföll og geðræn vandamál sem eykur enn frekar þörf á aðgengilegri geðheilbrigðisþjónustu fyrir þessa viðkvæmu hópa.  

Rannsakendur hafa jafnvel bent á að áhrif loftslagsbreytinga á geðheilsu hafi í raun verið stórlega vanmetinÞað er því rík ástæða til aðgerða gegn loftslagsbreytingum sé vilji til jafns aðgengis að heilbrigðisþjónustu. Neytendur geta lagt sitt af mörkum með því að draga úr sóun og óþarfa neyslu. 

Efnishyggja og andleg vanlíðan 

Við sem berum mesta ábyrgð á loftslagsbreytingum erum ekki undanskilin. Neysluvenjur okkar virðast geta haft verulega slæm áhrif á geðheilsuna. Að huga að óumhverfisvænum neysluvenjum okkar er því ekki einungis til ávinnings fyrir loftslagið og þar af leiðandi viðkvæma hópa, heldur gæti einnig bætt okkar eigin geðheilsu. 

Flestir þekkja það hvernig nýir hlutir geta veitt okkur hamingju, en sú hamingju endist oftast ekki lengi og fljótt kemur löngun í að kaupa eitthvað nýtt. Þetta getur orðið að vítahring neyslu, sem getur verið skaðlegur fyrir andlega heilsu, veskið okkar og umhverfið.  

Efnishyggja er áhersla á að eiga og kaupa hluti til þess að öðlast hamingju, betra sjálfsálit og betra álit annarra. Þessu fylgir að meiri tíma er varið í neyslu, minni sparnaður og að hlutum er oftar skipt út fyrir nýja. Rannsóknir hafa endurtekið gefið til kynna neikvæð áhrif efnishyggju á andlega líðan. Nýleg samantekt rannsókna sýndi skýrt að efnishyggja tengist minni lífsánægju, lægra sjálfsáliti, kvíða- og þunglyndiseinkennum og verri heilsu. 

Þetta bendir því til að sú hugmynd að efnislegir hlutir (t.d. föt, skór, lífstílsvörur) muni veita okkur hamingju geti verið okkur skaðleg. Það er því mikilvægt í neyslusamfélagi eins og á Íslandi að velta fyrir sér hvað veitir okkur raunverulega hamingju. Það getur verið leið til að huga að geðheilsunni.  

Hvað get ég gert?

Verum meðvituð þegar við erum að versla um hvort okkur vanti þennan hlut eða hvort auglýsingar hafi talið okkur trú um að lífið okkur verði betra ef við eigum hann. Það er vel hægt að breyta neysluvenjum sínum og þar með hafa einnig meiri tíma og pening til að verja í annað. Minnum okkur reglulega á það sem veitir okkur sanna ánægju, t.d. samvera með fólkinu í kringum okkur eða áhugamálin okkar. 

Hugmyndir fyrir geðheilsuna og umhverfið sem geta komið í stað neyslu: 

  • Samverustundir 
  • Hugleiðsla 
  • Hreyfing 
  • Nudd 
  • Elda góðan mat  
  • Lesa bók eða horfa á mynd  
  • Make love, not co2