Tökum trén okkur til fyrirmyndar á degi jarðar

21. apríl 2021

Nú nálgast dagur jarðar óðfluga, en hann er haldinn hátíðlegur 22. apríl ár hvert. Í raun er dagur jarðar nú þegar byrjaður, því málefni jarðarinnar eru svo mikilvæg og víðfeðm að dagskrá þessa alþjóðlega dags rúmast ekki á einum degi, heldur hefur teygt anga sína yfir þrjá daga. 20. Apríl var haldin alþjóðleg ungmenna ráðstefna, 21. Apríl var haldin alþjóðleg menntaráðstefna, og 22. Apríl verður svo haldinn alþjóðlegur viðburður með vinnustofum, panel umræðum og fyrirlestrum um málefni jarðarinnar.

Endurreisn jarðarinnar

Í ár er þemað á degi jarðar endurreisn hennar (e. Restore the earth). Eins og staðan er í dag er aukinn hagvöxtur á kostnað jarðarinnar. Í tímamóta rannsókn um þolmörk jarðarinnar kemur fram að manneskjan stefnir þremur af níu fyrirhuguðum þolmörkum jarðarinnar í hættu með lifnaðarháttum sínum. En það er ekki náttúrulögmál að manneskjan og hagvöxtur hafi neikvæð áhrif á jörðina. Manneskjan getur verið afl sem endurreisir og endurlífgar jörðina.

Tökum trén okkur til fyrirmyndar

Í bók sinni Hagkerfi framtíðarinnar bendir Per Espen Stoknes á að við getum tekið trén okkur til fyrirmyndar í leit að heilbrigðari hagvexti og samfélagi. Hann bendir á að tré vaxi ekki bara línulega. Tré halda ekki áfram að vaxa eftir að hafa náð sinni hámarkshæð, heldur mynda í staðinn ríkulegri krónur og flóknari rætur. Tré, eins og mannfólkið, búa til úrgang í formi fallinna laufa og trjágreina, en ólíkt okkur nýtist úrgangurinn í hringrás vistkerfisins. Þrátt fyrir að til séu um þrjár trilljónir trjáa glímum við ekki við offjölgunar vanda. Það er vegna þess að tré gera umhverfi sínu meira gagn en skaða. Manneskjur og tré eiga það sameiginlegt að vera komin af náttúrunni, vera náttúran. Hvers vegna getum við ekki ímyndað okkur að mannleg samfélög, alveg eins og tré og maurar, séu gagnleg fyrir jörðina?

Með heimajarðgerð endurnærum við jörðina

Það er þetta sem þema dags jarðarinnar minnir okkur á. Við manneskjur höfum bæði kraft og hugvit til þess að geta gert gagn. Þetta getum við gert í hinu smáa og stóra. Í stað þess að skapa úrgang sem endar í urðun þar sem að hann leysir frá sér metan getum við umbreytt úrgangnum okkar í mold. Þetta gerist þegar lífrænn úrgangur er jarðgerður.  Moltan nýtist svo sem næringarefni fyrir plöntur og lífverur sem binda gróðurhúsalofttegundir. Jarðgerð hefur því tvöföld jákvæð áhrif með því að koma í veg fyrir losun gróðurhúsalofttegunda ásamt því að bjóða upp á frjósaman jarðveg fyrir aukna bindingu. Í stað þess að skapa úrgang og mengun byrjum við að gera gagn. Með því að stunda jarðgerð verðum við meira eins og tré.

Fyrir áhugasama hefur Umhverfisstofnun nýlega gefið út ítarlegar leiðbeiningar um heimajarðgerð.

Hvernig getur þú verið meira eins og tré? #VertuTré