Nóvember er að mörgu leyti orðinn mánuður tilboðsdaga þar sem fyrirtæki keppast við að bjóða almenningi upp á góð verð fyrir jólin. Dagur einhleypra, svartur föstudagur og rafrænn mánudagur eru orðnir viðburðir sem boða komu jólanna. Það er jákvætt fyrir neytendur að geta keypt vörur og þjónustu á lækkuðu verði en menningin og stemmningin í kringum slíka daga er oft mjög tengd við ofneyslu.
Það er enginn sparnaður að kaupa hluti sem við þurfum ekki
Til þess að draga úr streytu fyrir jólin getur því verið gott ráð að detta ekki í þessa stemmningu. Það mikilvægasta sem við getum gert fyrir budduna og umhverfið er að spyrja okkur hvort við, eða aðilinn sem á að fá gjöfina, þarf á gjöfina að halda. Eykur gjöfin hamingju? Er hún raunverulega nytsamleg? Einnig er gott að spyrja sig hvort það sé hugsanlega eitthvað annað sem veitir meiri eða jafnmikla hamingju? Kannski einverskonar upplifun? Eða notuð bók í stað nýrrar? Margir eiga nú þegar allt sem þeim langar í og þá er til dæmis hægt að kaupa eitthvað góðgæti sem gleður. Oft eru litlu og persónulegu gjafirnar þær sem raunverulega skilja eitthvað eftir og búa til minningu sem heldur áfram að gefa 🙂
Með að spyrja þig þessara spurninga áður en tilboðsdagar renna upp er hægt að skipuleggja betur hvað á að vera í jólapökkunum og taka ákvarðanir áður en við förum í verslunarleiðangra.
Höfum í huga að lífsgæði felast ekki í hlutum heldur í góðum minningum, upplifunum og samveru með vinum og fjölskyldu
Til upprifjunar er gott að rifja upp þessa ágætu mynd frá vinum okkar hjá Landvernd.