Textíllab: Hugmynd sem kviknaði á Spjaraþoni

8. september 2020

Textíllab, tilraunastofa fyrir frumgerðir og nærsköpun, var hugmynd sem hlaut um síðustu helgi annað sæti í hugmyndasamkeppninni Spjaraþon.

Krafan um að lágmarka umhverfisáhrif textílframleiðslu er sífellt sterkari á sama tíma og áhugi að vinna textíl úr nýjum og náttúrulegum efnum hefur aukist.

Til að mæta þessu er hugmyndin að koma á fót svökölluðu textíllabi eða tilraunastofu með textíl. Þar er fólki gefin aðstaða til að prófa hugmyndir sínar um að vinna úr nýju hráefni meðal annars úr nærumhverfi sínu.

Hópurinn nefndi að jafnvel væri hægt að prófa ágengar plöntur í textílframleiðslu svo sem skógarkerfil sem myndi þá hafa þríþætt jákvæð umhverfisáhrif í för með sér. Losa okkur við ágengar plöntur sem grafa undan íslenskum vistkerfum, bæta auðlindanýtingu og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda með því að færa framleiðsluna nær okkur. Að auki getur það haft jákvæð félagsleg áhrif að vinna textíl í nærumhverfi á sama tíma og verðmætasköpunin sem verður við framleiðslu sem þessa hefur jákvæð efnahagsleg áhrif.

Það var einstaklega ánægjulegt að sjá hugmyndina kvikna á staðnum og hvernig mikil sérþekking mættist í teymi sem þekktist ekki fyrir Spjaraþonið. En teymið skipa Þorbjörg Valdimarsdóttir sem meðal annars er textílhönnuður og með diplóma í nýsköpunarfræðum, Sara Valný Sigurjónsdóttir sem er listfræðingur og alþjóðamarkaðsfræðingur, Ásta Þórisdóttir, listgreinakennari og hönnuður, Helga Rún Pálsdóttir, klæðskerameistari, fatahönnuður og leikmynda- og búningahöfundur auk Ragnheiðar Guðmundsdóttir Textílhönnuði, myndlistarmanni og listgreinakennara.