Bláskelin eru nýsköpunarverðlaun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins fyrir framúrskarandi lausn í plastmálefnum. 17 aðilar voru tilnefndir til verðlaunnanna í ár, en fjórir aðilar eru í úrslitahóp. Þetta er fyrsta umfjöllun af fjórum um aðilana sem komust í úrslitahóp. Fyrsta aðilann þarf vart að kynna, en það er fyrirtækið Te & Kaffi, sem hefur um árabil markvisst unnið að því að minnka og bæta plastnotkun sína. Þar sem Te & Kaffi er leiðandi á íslenskum kaffimarkaði, auk þess að reka níu kaffihús, hefur það mikið að segja hvað þau gera.
Úr 17 tonnum af óendurvinnanlegu plasti yfir í umhverfisvænni umbúðir
Hér áður fyrr voru umbúðirnar sem kaffið þeirra sem selt er í matvöruverslunum úr blöndu af hefðbundnu plasti og áli, en slíka blöndu er ekki hægt að endurvinna aftur í plast. Forsvarsmenn Te & Kaffi höfðu því lengi leitað eftir betri umbúðum sem hefðu minni umhverfisáhrif, sem á sama tíma viðhéldi gæðum kaffisins. Það munar líka um minna, en Te og Kaffi notaði um 17 tonn af plasti árlega í umbúðir sínar.
En nú, árið 2021, er allt kaffi á neytendavörumarkaði í niðurbrjótanlegum umbúðum unnum úr plöntusterkju og trefjum. Efsta lag umbúðanna er úr pappír, miðjuefnið er úr cellolan og innsta lagið er úr PLA lífplasti. Umbúðirnar eru fimm sinnum dýrara en þær umbúðir sem Te & Kaffi voru að nota áður. Þann kostnað hefur fyrirtækið tekið á sjálft sig, enda telja þau það vera hluta af sinni samfélags ábyrgð að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum sinnar framleiðslu. Umbúðirnar er hægt að flokka sem lífrænt rusl, en má einnig fara í almennt rusl ef lífræn flokkun stendur ekki til boða. Mælingar GAIU sýna að umbúðirnar brotna niður í lífræn efni eftir 16 vikur í iðnaðarjarðgerð.
Minnkuð notkun á plasti á kaffihúsum
Te & Kaffi hefur einnig unnið að því að draga úr plastnotkun á kaffihúsunum sínum. Þau hafa lengi umbunað viðskiptavinum sínum fyrir að koma með sín eigin fjölnota götumál. Þau skiptu einnig plaströrum yfir í papparör, plasthrærum fyrir tréhrærur, plastpokum fyrir bréfpoka og plasthnífapörum fyrir tré löngu áður en slíkt var bannað með lögum. Eftir að ný lög tóku gildi í júlí 2021 hafa þau einnig byrjað að rukka 5 kr fyrir einnota plastlok á kaffimál, til þess að letja viðskiptavini sína að fá sér þau að óþörfu. Þau eru líka hætt að plasta inn stakar samlokur í eldhúsinu sínu og fara þær til kaffihúsanna nú í fjölnota boxum. Þau eru hætt að afgreiða smjör og sultur í litlum einnota umbúðum og er það nú afgreitt í litlum glærum skálum. Einnig fyllir Te & Kaffi á hunangsbangsana sína aftur og aftur úr stórum fötum. Fyrir utan þetta er plast að sjálfsögðu flokkað á öllum kaffihúsunum, en plastflokkunin hefur orðið nær óþörf eftir tilkomu allra þessara aðgerða.
Stöðugar umbætur
Árið 2019 skiptu Te & Kaffi út öllum lokunum á ferðamálunum sínum úr hefðbundnu plasti yfir í PLA lífplast. Forsvarsmenn Te & Kaffi lýsa því hversu spennt þau voru þegar PLA lífplastið fór að koma á markað, enda stóðu vonir um að það væri „Lausnin“, með stóru „L-i“. Síðan þá hefur tónninn aðeins breyst, og PLA er ekki lengur óumdeild lausn. Það er vissulega svo að PLA lífplast er búið til úr endurnýjanlegum orkugjöfum í stað olíu, er með lægra kolefnisspori, og brotnar niður undir réttum kringumstæðum. Hinsvegar getur PLA lífplastið skapað rugling hvað varðar flokkun, en PLA lífplastið á að flokka sem lífrænt rusl eða almennt rusl. Margir flokka PLA lífplast sem plast, en það getur haft slæm áhrif á gæði plast flokkunarinnar. PLA brotnar heldur ekki niður í heimajarðgerð eða úti í náttúrunni, og getur því valdið vandræðum ef það endar sem rusl. Forsvarsmenn Te og Kaffi eru vel meðvituð um þetta og halda augunum opnum fyrir framtíða lausnum og séu alltaf til í að halda áfram að breyta og bæta eftir því sem þekkingu og lausnum vindur fram.
Bláskelin verður afhent á málþingi Plastlauss septembers 16. September klukkan 17:00 í Auðarsal í Veröld, húsi Vigdísar. Við gerum ráð fyrir að margir bíði spenntir eftir því að sjá hvort Te & Kaffi hlýtur vinninginn eða hinir sem lentu í úrslitahóp.