Styttist í að fyrstu airfyer pottarnir lendi í SORPU

17. mars 2022

Það getur verið ágætis samfélagsspegill að skoða hvað endar í ruslinu. Þetta kom berlega í ljós þegar SORPA yfirtók Instagram-reikning Saman gegn sóun í gær. En sous vide tækin sem voru í mikilli tísku fyrir skömmu eru farin að lenda hjá SOPRU og kæmi því ekki á óvart ef að fyrstu airfryer pottarnir fara að láta sjá sig á hverri stundu. Sama litla notkun á raftækjum hefur sést í síðustu áratugina hvort sem um ræðir fótanuddtæki, brauðvélar eða aðra dellu sem grípur þjóðina.

Í yfirtöku SORPU kom fram að mikill meirihluti raftækja á Íslandi sé flokkaður rétt að líftíma loknum, en þó er enn alltof mikið sem fer beint í almennt sorp og endar þar með í urðun. Þessu þarf að breyta, enda um mikil verðmæti að ræða, auk þess sem raftæki innihalda efni sem geta verið skaðleg náttúrunni ef þau eru ekki meðhöndluð sem skyldi. Eiríkur Örn Þorsteinsson, sérfræðingur SORPU í fræðslu og miðlun, greindi frá því að það væru helst litlu raftækin sem enda í ruslinu, s.s. hleðslutæki, heyrnartól, rafmagnstannburstar, lítil leikföng og fjarstýringar. Þessu þarf að breyta og það ætti að vera auðvelt verk.

Hér á eftir eru góðar þumalputtareglur til að fylgja þegar raftækin ykkar þjóna ekki tilgangi sínum lengur:

  • Raftæki sem teljast ónýt, þ.e. virka ekki og erfitt er að gera við, skal skila í þar til gerða gáma á endurvinnslustöðvum SORPU. Þar eru skaðleg efni flokkuð frá og endurvinnsluefnum komið í réttan farveg.
  • Raftæki sem enn virka ættu að fara í gáma fyrir nytjahluti á endurvinnslustöðvum SORPU, þaðan sem þau fara í Góða hirðinn í sölu og fá vonandi framhaldslíf hjá nýjum eigendum.

Athugið einnig að hægt er að koma með notuð verkfæri, byggingarefni og ýmsa hluti sem nýtast til framkvæmda og listsköpunar til Efnismiðlunar SORPU, sem selur vörurnar áfram.

Nánari upplýsingar um staðsetningu þessarar móttöku er að finna á www.sorpa.is en einnig er hægt að fá upplýsingar hjá öðrum móttökustöðvum úrgangs um landið allt.

Við þökkum Eiríki Erni kærlega fyrir greinargóðar upplýsingar og vonum að þær verði til þess að fólk hugsi sig tvisvar um áður en það lætur glepjast og festir kaup á enn einu tískuraftækinu sem það vill losa sig við eftir sáralitla notkun. Þau fáu sem enn henda raftækjum, batteríum og snúrum í ruslið eru eindregið hvött til að koma þeim úrgangi í réttan farveg á endurvinnslustöðvar.