Spjara er í úrslitahópi Bláskeljarinnar

13. september 2022

Bláskelin er viðurkenning Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra fyrir framúrskarandi lausnir í plastmálefnum. Viðurkenningin verður afhent á málþingi Plastlauss september í Háskóla Íslands þann 15. september næstkomandi. Þrír aðilar komust í úrslitahóp í ár og munum við fjalla um þá alla í aðdraganda afhendingarinnar. Í dag fjöllum við um SPJARA.

Deilihagkerfi með tískuföt

Ánægður viðskiptavinur í kjól frá SPJARA

SPJARA er fyrsta fataleiga sinnar tegundar á Íslandi og er eins og segir á heimasíðu fyrirtækisins „sprottin af hugsjón um að geta notið tísku án þess að auka á mengunarvandann sem iðnaðurinn veldur.“

SPJARA hlýtur tilnefningu til Bláskeljarinnar fyrir margnota umbúðir sem unnar eru úr afskurði í samstarfi við Seglagerðina. Pokarnir eru sterkir og praktískir og ætlaðir sem ytra byrði utan um vörurnar. Auk þessara poka notast fataleigan við  fjölnota taupoka í viðskiptum sínum sem gerðir eru úr lökum, rúmfötum og öðrum textíl sem fellur til hjá Rauða krossinum.

Með því að handþvo allar flíkur stuðlar SPJARA einnig að minni örplastmengun í sjó en með slíkri meðhöndlun við rétt hitastig losnar minna af örplasti við hvern þvott. Að lokum má segja að með fataleigunni dragi úr þörf neytanda að kaupa sér ný föt og þar sem mikið af fatnaði er búinn til úr plastefni er þetta enn eitt framlag SPJARA til minna plasts í samfélaginu.  

Við óskum SPJARA til hamingju með tilnefninguna!