Mikil ofneysla fylgir tilboðsdögum á við Dag einhleypra, Svarts föstudags og Rafræns mánudags.
100% afsláttur ef maður kaupir ekkert
Það sem getur gleymst þegar maður heyrir auglýsingar um hátt í 70-80% afslátt af vörum, er að maður græðir ekki neitt á því að kaupa eitthvað sem manni vantar ekki eða langar ekki í. Maður sparar hinsvegar alltaf 100% með því að sleppa að kaupa vörur.
Á tilboðsdögum er hollt að minna sig á hvernig auglýsingar hafa áhrif á hegðun okkar.
Auglýsingar ýfa upp kauplöngun í óþarfa
Í fyrsta lagi erum við minnt reglulega á að svartur föstudagur (eða aðrir tilboðsdagar) sé að nálgast sem ýfir upp löngun í kaupa eitthvað. Með þessum áminningum geta líka skapast umræður í vinahópnum eða í vinnunni um bestu tilboðin. Þar með verður ofneyslan félagslega samþykkt og það telst viðeigandi að nýta einhver tilboð, jafnvel þó mann skorti ekkert.
Auglýsingar skapa FOMO
Í öðru lagi eru tilboðsauglýsingar settar fram á þann hátt að þær láta okkur ekki einungis líða eins og við þurfum að kaupa eitthvað nýtt til þess að lífið okkar verði betra, heldur einnig eins og við missum af einhverju ef við bregðumst ekki við. Nokkur dæmi:
- Allt á tilboði aðeins í dag
- Takmarkað magn í boði
- Örfá eintök eftir
- Missið ekki af tækifærinu
- Tilboð endar á miðnætti
Þetta ýtir undir að fólk geri hvatvís kaup vegna hræðslu við að missa af, á ensku oft kallað FOMO, eða the fear of missing out. Það er ekki af tilviljun sem þetta er sett fram á þennan hátt heldur er vitað að skilaboð af þessu tagi hafa meiri áhrif á fólk. Ef við erum ekki viss um að við viljum kaupa eitthvað, getum við samt verið tilbúin að taka áhættuna í staðinn fyrir að missa af tilboðinu.
Ekki láta auglýsingar plata þig
Við erum flest ekki að missa af neinu. Slökum á og nýtum tímann í eitthvað skemmtilegra!