Hvernig hefur hafið áhrif á líf okkar og hvernig höfum við áhrif á hafið?
Í bókinni Hreint haf – Plast á norðurslóðum er hafið skoðað á heildstæðan hátt. Efnið byggir á haflæsi (e. ocean literacy) og valdeflandi aðferðum menntunar til sjálfbærni (e. education for sustainability).
Nemendur á yngsta- og miðstigi grunnskóla læra um áhrif hafsins á líf okkar og hvernig við höfum áhrif á hafið. Fjallað er um plast í hafi og sjónum beint að því hvernig hægt er að hjálpa hafinu. Í þessari bók er fjallað um mikilvægi hafsins fyrir allt líf á Jörðinni og hafið notað sem rauður þráður til að kenna um áhrif manna á náttúruna, mengun og getu til aðgerða.
Hreint haf á Norðurlöndum
Bókin hefur verið þýdd á fimm norðurlandatungumál og er aðgengileg öllum til afnota á vef Menntamálastofnunar og Norden i skolen.
Um útgáfuna
Hreint haf – Plast á norðurslóðum samanstendur af rafbók og verkefnasafni og kennsluleiðbeiningum. Bókin er unnin í samstarfi Landverndar, Menntamálastofnunar og Umhverfisstofnuna. Útgáfan var styrkt af NordMar Plastics, formennskuverkefni Íslands í Norrænu ráðherranefndinni 2019.
Höfundur námsefnisins er Margrét Hugadóttir sérfræðingur hjá Landvernd. Hún er náttúrufræðikennari með meistarapróf í fjölmenningarlegum kennsluháttum og hefur mikla reynslu af námsefnisgerð sem byggir á hugsmíðahyggju, menntun til sjálfbærni, leitarnámi og umbreytandi námi.
Áður skrifaði Margrét námsefni á borð við Hreint haf (2020), Vísindavöku (2017), Skapandi skóli, handbók um fjölbreytta kennsluhætti (2017), og Jörð í hættu!?(2016).
Hönnun og teikningar voru í höndum Aronar Freys Heimissonar grafisks hönnuðar.