Undanfarin ár hafa fregnir af örplasti verið áberandi og rannsóknir sýna að fáir ef einhverjir staðir á jörðinni virðast lausir við þessar örsmáu plastagnir. Í fyrra fundu íslenskir vísindamenn t.a.m. örplast í Vatnajökli og plast fannst í blóði manna í fyrsta skipti í ár.
En hvað er örplast? Plast hverfur ekki eða eyðist við náttúrulegt niðurbrot, heldur brotnar það niður í smærri og smærri hluta sem við köllum örplast. Í sumum tilfellum er örplast framleitt í tilteknum tilgangi, eins og t.d. plastþræðir í fatnað og örperlur í snyrtivörur. Það er því ljóst að ef hlutir úr plasti enda í náttúrunni hverfa þeir ekki þaðan heldur verða að téðu örplasti sem dreyfist um allt lífríkið. Við mennirnir innbyrðum einnig örplast þegar við borðum, drekkum og öndum. Lítið er vitað um áhrif þess á heilsu okkar að innbyrða plast en vitað er að ýmis eiturefni loða almennt vel við það.
Hvernig getum við lágmarkað örplastið sem frá okkur kemur og við erum útsett fyrir? Hér eru nokkur atriði sem gott er að hafa í huga:
- Fyrst og fremst þurfum við að draga úr neyslu almennt – það dregur úr magni plasts sem kemur á heimilið.
- Sleppum umbúðum og notum margnota þegar hægt er – drögum þannig úr notkun á einnota plasti.
- Kaupum notuð föt og föt úr náttúrulegum efnum – örplast losnar frá fötum úr gerviefnum (t.d. polyester, pvc, nylon, polyamid, acrylic) við þvott og þá sér í lagi fyrstu þvottana.
- Notum almenningssamgöngur, samnýtum ferðir, göngum eða hjólum – dekk eru stór uppspretta örplasts.
- Leitum eftir áreiðanlegu umhverfismerkjunum; Svaninum, Evrópublóminu, Blá englinum, Bra Miljoval og Green Seal – tryggir neytendum vitneskju um að vara/þjónusta sé það besta fyrir umhverfið og heilsu.
- Kaupum snyrtivörur sem innihalda ekki örplast – Beat the microbead er frábær síða (einnig til app) þar sem hægt er að fletta snyrtivörum upp og sjá hvort þær innihaldi örplast.
- Loftum út og þrífum vel híbýlin okkar – örplast sem kemur frá m.a. húsgögnum, raftækjum og fötum loðir við rykið, best er að ná góðum gegnumtrekk a.m.k. tvisvar sinnum á dag í 5 mínútur í senn.