Óhóf 2018

4. janúar 2019

Óhóf, sem er hugvekja í nafni matarsóunar, var haldið í annað sinn þann 5. desember síðast liðinn og var þar boðið upp á veitingar sem eiga það sameiginlegt að vera góð nýting á matvælum og jafnframt uppspretta hugmynda að því hvernig veislumatur getur allt eins verið úr afgöngum, útlitsgölluðum mat eða einhverju sem er jafnan ekki nýtt. Gestir voru einnig hvattir til þess að horfa inn á við og skoða hvað hver og einn getur gert til þess að draga úr sinni matarsóun. 

Líkt og í fyrra, fengu Umhverfistofnun og samtökin Vakandi með sér einvalalið í skiplagningu viðburðarins. Í skipulagshópnum voru Gísli Matt matreiðslumeistari, Loft HI hostel, Björn Steinar Blumenstein og Ljótu kartöflurnar. Sigga Dögg kynfræðingur hélt matarsóunarhugvekju og Amabadama steig á stokk – en hljómsveitin hefur lengi látið sig umhverfismál varða.

Veitingarnar slógu í gegn enda hefur Gísli Matt mikla ástríðu fyrir íslenskum matvælum og er snillingur í að nýta hráefni sem aðrir líta framhjá. Matseðillinn sem Gísli bauð uppá var því ævintýralegur og hlaut mikið lof gesta. Gísli rekur veitingastaðina Slippinn, sem er í Vestmannaeyjum, og Skál! í Hlemm Mathöll.

Rakel Garðarsdóttir bauð upp á smakk af Toast Ale, fyrsta íslenska bjórnum sem vinnur gegn matarsóun. En Toast Ale er unninn úr brauði í samvinnu við Mylluna og er nýkominn á markað hérlendis.

Vöruhönnuðurinn Björn Steinar Blumenstein bauð upp á smakk af vodka. Verkefnið hans ber nafnið Catch of the day og berst gegn matarsóun, með einni vodka flösku í einu. En hann er með ávaxtavodka í þróun – sem er bæði umhverfisvænn og bragðgóður!

Því miður er staðreyndin sú að einum þriðja af framleiddum mat í heiminum er sóað, á meðan líða 821 milljónir manna fyrir matarskort. Hver Íslendingur hendir 60 kg af mat á ári. Og því miður bendir nýleg könnun til þess að þó svo að umræðan í íslensku samfélagi hafi aukist um þessi mál, þá virðast heimilin enn vera að henda jafn miklum mat. Því er enn mikil þörf á vitundarvakningu um matarsóun og umhverfisáhrif hennar.

Stefnt er á að endurtaka leikinn 2019.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfisráðherra, smakkar á kræsingunum. 

Gísli Matt matreiðslumeistari og stjórnarmeðlimur Slow Food Reykjavík sá um veitingarnar, en réttir hans sýndu fram á hvernig listilega má bera fram vannýtt íslensk hráefni.

Rakel Garðars býður Sölku Sól upp á Toast Ale, sem heldur betur sló í gegn!