Nýtt ár – nýtt upphaf

6. janúar 2022

Saman gegn sóun er almenn stefna umhverfis- og auðlindaráðherra um úrgangsforvarnir sem gildir frá árinu 2016 til 2027. Á tveggja ára fresti er skipt um áhersluflokk og nú er komið að raftækjum.

Í stefnunni eru níu áhersluflokkar í brennidepli. Þessum flokkum er skipt í tvennt; annars vegar sex flokka sem hver um sig eru í forgangi í tvö ár í senn og hins vegar þrjá flokka sem hentar betur að vinna með til lengri tíma.

Þó að áhersla verði lögð á raftæki 2022-2023 munum við ekki kveðja matvæli, plast og textíl og getið þið enn átt von á umfjöllun og ráðum sem varða þá flokka.

Markmið Saman gegn sóun haldast þau sömu en þau eru:

  • að draga úr myndun úrgangs
  • að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda
  • að bæta nýtingu auðlinda, m.a. með áherslu á græna nýsköpun
  • að draga úr hráefnisnotkun samhliða minni umhverfisáhrifum
  • að minnka dreifingu á efnum sem eru skaðleg heilsu og umhverfi