Nýtnivikan 2021

18. nóvember 2021

Stefnum saman að nýtnari heimi

Á laugardaginn, 20. nóvember, hefst Nýtnvikan og stendur hún yfir til 28. nóvember. Átakið er samevrópskt og hefur það að markmiði að hvetja fólk til að draga úr óþarfa neyslu, nýta hluti betur og draga þannig úr myndun úrgangs. 

Í ár er þema vikunnar hringrásarsamfélög og er þar vísað til þeirra hvetjandi áhrifa sem að samfélög geta haft til þess að auðvelda fólki að innleiða hjá sér umhverfisvænar hegðunarbreytingar. Samfélög eru skilgreind á eftirfarandi máta á vísindavefnum:

,,Samfélag er hópur fólks sem býr saman í skipulögðum félagsskap. Fólk sem hefur samskipti hvert við annað myndar samfélag, og samfélögin geta verið bæði lítil og stór. Minnstu samfélögin sem maður tilheyrir eru fjölskyldan og vinahópurinn. Næst kemur sveitarfélagið, þá Ísland, Evrópa og loks alheimssamfélagið sem allir íbúar jarðar eru hluti af.“

Það er því ljóst að hringrásarsamfélög geta verið jafn fjölbreytt og þau eru mörg á Íslandi. Í samfélögum býr gífurlegur kraftur og tækifæri til áhrifa. Við mótumst af okkar samfélögum en höfum að sama skapi mikil tækifæri til að móta þau sömuleiðis. Til þess að skapa raunverulegt hringrásarhagkerfi þurfa margir aðilar í ólíkum geirum og af ólíkum stærðargráðum að stefna að sama marki. Hvað hefur atvinnulífið fram á að færa í þessum málum? Hvað geta sveitarfélög gert til að skapa frjóan jarðveg fyrir hringrás í sínu samfélagi? Hvað með vinnustaði? Eða einkaframtakið?

Í tilefni Nýtnivikunnar 2021 langar Umhverfisstofnun að vekja athygli á nokkrum samfélögum sem hafa nú þegar myndast með hringrásarhagkerfið að leiðarljósi og gefa þeim orðið. Saman gegn sóun mun bjóða eftirtöldum aðilum að taka yfir hjá okkur á instagram og facebook í Nýtnivikunni og segja frá sínu starfi og hver þeirra framtíðarsýn er.

Dagskrá:

22. nóvember: Hringrásarmánudagur

23. nóvember: Skútustaðahreppur og fyrirlestur Umhverfisstofnunar um umhverfisvæn jól

24. nóv: Amtsbókasafnið á Akureyri

25.-26. nóv: Jarðgerðarfélagið

27.-28. nóv: Munasafnið segir frá ráðstefnunni og hakkaþoninu ,,Connecting Loops´´

Endilega fylgist með og sendið inn spurningar í gegnum instagram og facebook!