Minni matarsóun – minni losun!

28. ágúst 2017

Síðastliðið vor undirrituðu sex ráðherrar í ríkisstjórn Íslands samstarfsyfirlýsingu um gerð aðgerðaráætlunar í loftslagsmálum. Markmið áætlunarinnar er að Ísland geti staðið við skuldbindingar sínar samkvæmt Parísarsamningnum í loftslagsmálum til 2030 með því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og auka bindingu koldíoxíðs úr andrúmslofti. Sérstök verkefnisstjórn og sex faghópar vinna áætlunina auk þess sem settur hefur verið upp sérstakur samráðsvettvangur þar sem fulltrúum haghafa og stjórnarandstöðu verður boðið að taka sæti. Aðgerðaráætlunin skal liggja fyrir lok þessa árs.

Faghóparnir sex vinna nú að aðskildum þáttum aðgerðanna, þ.e. um samgöngur, orku og iðnað, sjávarútveg, landbúnað, ferðamennsku og minni sóun og úrgangsmál. Í faghópi um minni sóun og úrgangsmál sitja fulltrúar umhverfis- og auðlindaráðuneytis, Umhverfisstofnunar og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Miða tillögur hópsins að því dregið verði annars vegar úr urðun, enda á útstreymi gróðurhúsalofttegunda frá úrgangi að mestu uppruna sinn að rekja til urðunarstaða, og hins vegar að aðgerðum sem hafa það að markmiði að draga úr myndun úrgangs.  

Í framangreindri vinnu er lögð mikil áhersla á að samfélagið allt taki fullan þátt til að tryggja langtímasýn og -árangur í minni auðlindasóun og uppbyggingu og þróun lágkolefnishagkerfis. Þetta kallar á samstillt átak stjórnvalda, atvinnulífs, félagasamtaka og almennings. Sérstakt vefsvæði tileinkað vinnunni hefur nú verið opnað á slóðinni www.co2.is. Almenningur er hvattur til að senda hugmyndir og tillögur að aðgerðum til verkefnisstjórnar á netfangið loftslag@uar.is. Til upplýsinga má nefna að Norðmenn stefna að því að helminga matarsóun í sinni loftslagsáætlun. Er tilvalið að senda verkefnisstjórn hugmyndir að aðgerðum til að minnka hvers konar sóun, ekki síst matarsóun.

Ætli þráðlausar ísskápsmyndavélar séu vænlegar til árangurs í baráttunni gegn matarsóun?