Í síðustu viku kom út matvælastefna fyrir Ísland til ársins 2030. Einn af fimm lykilþáttum sem horft var til í mótun stefnunnar var umhverfi og þá var sérstaklega horft til hringrásarhagkerfisins og loftslagsmála. Í stefnunni kemur fram áhersla á bætta nýtingu auðlinda og minni sóun auk áherslu á að tryggja almenningi og fyrirtækjum gott aðgengi að leiðum til að endurnýta, endurvinna og farga. Einnig að fyrirtæki í matarframleiðslu dragi verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda og bindi meira kolefni.
Framtíðarsýnin til ársins 2030 í kaflanum um hringrásarhagkerfið er:
Sóun auðlinda og matvæla hefur minnkað verulega. Hráefni, sem áður fóru til spillis eru nú endurnýtt og endurunnin í meiri mæli en áður og unnt er að framleiða meira úr minna hráefni. Rannsóknir á aðfangakeðju matvæla eru nýttar til stefnumótunar og ákvarðana.
Framtíðarsýn til ársins 2030 í kaflanum um loftslagsbreytingar er:
Landbúnaður og sjávarútvegur hafa dregið verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda. Markmið um kolefnishlutleysi 2040 er í augsýn. Alþjóðlega er horft til íslenskra fyrirtækja í matvælaiðnaði sem fyrirmyndar í umhverfisvænum lausnum.
Það er ánægjulegt að sjá að nýtni og minni sóun eru fléttuð inn í stefnumótun ríkisins á fjölbreyttum sviðum og við hlökkum til að sjá hvaða aðgerðir verða lagðar fram í framhaldinu. Ef að nást á árangur í umhverfismáum með minni sóun, bættri auðlindanýtingu og minni losun gróðurhúsalofttegunda er mikilvægt að horfa á umhverfismálin þvert á málaflokka en ekki sem einangaraðan málaflokk.
Við hvetjum áhugasama til að kynna sér matvælastefnunna sem er aðgengileg hér og skoða kynningarmyndband stefnunnar hér að neðan!