Matarsóunarrannsókn Umhverfisstofnunar 2019

Umhverfisstofnun hefur tvívegis gert rannsókn á umfangi matarsóunar á Íslandi með stuðning frá Eurstat, árin 2016 og 2019. Safnað var upplýsingum um hversu miklum mat og drykk er hent inni á heimilum, í matarframleiðslu, í heildsölu og smásölu, á veitingastöðum og í mötuneytum hér á landi og hversu stórum hluta af matvælunum væri hægt að nýta. Rannsóknirnar voru unnar með styrk frá Evrópsku hagstofunni (EUROSTAT) og eru fyrsti vísir af hagtölum um matarsóun á Íslandi. 

Rannsóknin skiptist í tvennt, annars vegar í heimilishluta og hins vegar í fyrirtækjahluta. Þátttakendur mældu og skráðu þann mat sem þeir hentu.

Helstu niðurstöður:
• Matarsóun á heimilum á Íslandi er sambærileg því sem gerist í öðrum löndum Evrópu. Byggt á niðurstöðunum má áætla að hver einstaklingur sói að meðaltali um 90 kg af mat árlega.
• Ekki var tölfræðilega marktækur munur á niðurstöðunum 2019 og 2016.
• Rannsóknirnar draga upp svipaða mynd af matarsóun frá atvinnurekstri og komið hefur fram í öðrum Evrópulöndum, þar sem mesta sóunin er í veitingarekstri og matvælaframleiðslu.

Taka verður niðurstöðunum með fyrirvara því svarhlutfall var lágt, eða í kringum 10%. Árið 2019 lentu 1067 heimili í úrtaki en svör bárust frá 90 heimilum. Sama ár lentu 762 fyrirtæki í úrtaki og svör bárust frá 80 fyrirtækjum. Svipuð svörun var uppi á teningnum 2016, en þá lentu 1036 heimili í úrtaki og svör bárust frá 123 heimilum. Þá lentu 701 fyrirtæki í úrtaki og svöruðu 84.