Bláskelin er viðurkenning umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra fyrir framúrskarandi lausnir í plastmálefnum. Viðurkenningin verður afhent á málþingi Plastlauss september í Háskóla Íslands þann 15. september næstkomandi. Þrír aðilar komust í úrslitahópinn í ár og munum við fjalla um þá alla í aðdraganda afhendingarinnar. Í dag fjöllum við um Marea.
Plastlausar umbúðir úr þara og þörungahrati
Marea ehf. er sprotafyrirtæki á sviði líftækni sem hefur undanfarin ár verið að þróa umbúðalausnir fyrir matvæli úr þara og þörungum með það fyrir augum að minnka plastnotkun og draga úr matarsóun.
Marea er tilnefnt til Bláskeljarinnar fyrir þróun á náttúrulegri filmu (e. coating) úr þörungahrati sem ætluð er fyrir grænmeti og ávexti. Efninu er spreyjað á matvæli og myndast þá filma sem stjórnar raka á yfirborðinu og ver matvælin svo geymsluþolið eykst. Notkun filmunnar dregur því úr matarsóun án þess að plast komi við sögu og stuðlar þannig að minni plastnotkun og -mengun. Filmuna má svo hreinlega borða með eða skola af matvælunum og því enginn óþarfa úrgangur sem verður til.
Hrat frá Algalíf nýtist sem hráefni
Upphaflega var Marea stofnað í kringum þróun á lífplasti úr þara, svokölluðu Þaraplasti, og stendur sú vinna enn yfir. Þar sem markmið fyrirtækisins er að skapa viðskiptamódel sem tekur mið af hringrásarhagkerfinu ýtti sú sýn þeim enn lengra í rannsóknir og þróun á vörnum matvæla og bættri auðlindanýtingu.
Marea framkvæmdi rannsókn á fullnýtingu þara og þörunga hérlendis sem gerði það að verkum að fyrirtækið kom auga á tækifæri til nýtingar á þörungahrati líftæknifyrirtækisins Algalíf sem framleiðir hágæða bætiefni úr örþörungum. Það er síðan hratið úr þessari framleiðslu sem Marea nýtir sem aðalhráefni í filmuna sem þau eru tilnefnd til Bláskeljarinnar fyrir. Leiðarstef Algalíf er sjálfbærni, gæði og matvælaöryggi svo samstarf fyrirtækjanna á vel við. Þessi fullnýting Marea styður svo sannarlega við hringrásarhagkerfið þar sem hráefnið fellur til við aðra framleiðslu, er nýtt í vöru sem brotnar að fullu niður með náttúrulegu niðurbroti og kemur í veg fyrir einnota plastnotkun.
Við óskum Marea til hamingju með tilnefninguna!