Krónan er í úrslitahópi Bláskeljarinnar

12. september 2022

Bláskelin er viðurkenning umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra fyrir framúrskarandi lausnir í plastmálefnum. Viðurkenningin verður afhent á málþingi Plastlauss september í Háskóla Íslands þann 15. september næstkomandi. Þrír aðilar komust í úrslitahóp í ár og munum við fjalla um þá alla í aðdraganda afhendingarinnar. Í dag fjöllum við um Krónuna.

Metnaður og sýnileiki í umhverfismálum

Lágvöruverðsverslunin Krónan er tilnefnd til Bláskeljarinnar fyrir verkefnið sitt Umbúðalaust. Krónan hefur síðustu ár vakið athygli fyrir metnaðarfullt umhverfisstarf en hún var t.a.m fyrst allra dagvöruverslana til að hljóta Svansvottun og hafa allar verslanir keðjunnar hlotið slíka vottun í dag. Krónan leggur áherslu á þrjá megin umhverfisþætti í rekstri sínum; að draga úr matarsóun, spara orku og minnka umbúðir og hlýtur fyrir það síðastnefnda tilnefninguna.

Ábyrgð í umbúðavali í forgrunni

Sérstök áhersla er lögð á ábyrgð í umbúðavali Krónunnar með því að bjóða umbúðalausar lausnir þegar hægt er og velja umhverfisvænar umbúðir fram yfir aðrar. Einnig hvetur Krónan til þess að umbúðir geti orðið fjölnota fremur en einnota. Þessi umbúðastefna Krónunnar endurspeglast í umbúða-píramídanum sem sjá má hér að neðan.

Dæmi um umbúðalaus verkefni:

  • Krónukranar eru staðsettir í verslunum Krónunnar í Vík og á Granda en þar býðst viðskiptavinum að fylla á fjölnota vatnsflöskur.
  • Í desember 2021 opnaði sjálfsali í verslun Krónunnar í Lindum sem býður upp á Hreppamjólk í glerflöskum beint frá bænum Gunnbjarnarholti í Skeiðar- og Gnúpverjahreppi.
  • Áfyllanlegur sápubar er á Granda fyrir vörur eins og sjampó, hárnæringu og uppþvottlög.
  • Umbúðalaus bændamarkaður á hverju hausti en þar fóru t.a.m í gegn 49 tonn af ópökkuðu grænmeti síðastliðið haust.
  • Umbúðalaus þurrvara er svo væntanleg í verslanir í haust.

Nýskapandi hringrásarlausnir fyrir plast

Að auki við að vinna eftir umbúðastefnu sinni hefur Krónan staðið fyrir mörgum verkefnum sem stuðla að aukinni hringrás plasts. Þá er allt plast sem fellur til í verslunum endurunnið á Íslandi í samstarfi við Pure North Recycling í Hveragerði og Plastplan. Dæmi um hringrásarverkefni:

  • Taktu poka, skildu eftir poka snýr að því að bjóða svokallaðar pokastöðvar fyrir fjölnota poka í verslunum
  • Afpökkunarborð – viðskiptavinum er boðið upp á að flokka og skilja eftir plast- og pappaumbúðir í öllum verslunum sem eru svo flokkaðar og endurunnar á réttan hátt.
  • Engir plastpokar – Krónan var fyrst matvöruverslana á Íslandi til að afnema einnota plastpoka úr ávaxta og grænmetisdeild og við afgreiðslukassa.
  • Segjum skilið við frauðplast – Krónan á í samtali við þjónustuaðila sem hyggjast framleiða kjötbakka úr pappa sem fellur til í verslunum þeirra.
  • Grænu kerrurnar – í maí hóf Krónan notkun á nýjum innkaupakerrum sem framleiddar eru úr endurnýttum fiskinetum og öðru endurunnu plasti úr sjónum. Þegar kemur að endurnýjun kerra framvegis verða þær af þessari gerð.
  • Allt plast sem fellur til í verslunum er endurunnið á Íslandi í samstarfi við Pure North Recycling í Hveragerði og Plastplan. 33,6 tonn af plasti fóru til Pure North árið 2021 og 780 kg til Plastplan.
  • Samstarf við Plastplan sem vinna úr plastinu fjölbreytta nytjahluti sem nýtast í rekstri Krónunnar eins og bændamarkaðsbox og kassaskiljur. Á árinu 2021 framleiddi Plastplan 3.660 hluti úr plasti frá Krónunni.
Bændamarkaðsbox framleidd af Plastplan úr plasti sem féll til úr verslunum Krónunnar

Við óskum Krónunni til hamingju með tilnefninguna!