Árið 2016 var fyrsta stefnan um úrgangsforvarnir á Íslandi gefin út undir nafninu Saman gegn sóun. Á haustmánuðum 2023 tók umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra ákvörðun um að endurskoða stefnuna. Ráðuneytið fól Umhverfisstofnun að vinna tillögu að nýrri stefnu sem tæki við af þeirri eldri, í samræmi við lögbundið hlutverk stofnunarinnar. Sú vinna hófst í byrjun árs 2024.
Öll geta sent inn umsögn á Samráðsgáttinni
Nú hefur undanfari nýrrar stefnu, stöðumat og valkostir (grænbók), verið birt á Samráðsgátt stjórnvalda og ber Umhverfisstofnun ábyrgð á vinnslu og útgáfu þess.
Þar sem úrgangsforvarnir hafa víðtæk áhrif á samfélagið allt er nauðsynlegt að stjórnvöld komi á virku samtali við sem flesta hagaðila til að ná markmiðum nýrrar stefnu. Við hvetjum því öll til að taka þátt í stefnumótunarferlinu og senda inn umsögn um stöðumatið í gegnum Samráðsgáttina. Frestur til þess er 13. janúar 2025. Senda umsögn.
Hvað er stöðumat og valkostir í úrgangsforvörnum?
Í grunninn er stöðumat og valkostir undanfari nýrrar stefnu og inniheldur upplýsingar um málaflokkinn og greiningu á núverandi stöðu hans. Í þessu tiltekna stöðumati má meðal annars finna samantekt á tölfræði sem til er um úrgangsforvarnir og úrgangsmál á Íslandi, sett í samhengi við stöðuna í öðrum löndum. Í vinnuferlinu hefur átt sér stað víðtækt samráð við almenning og hagsmunaaðila, og helstu niðurstöður þess eru birtar í stöðumati. Að lokum er tekið saman yfirlit yfir lykilviðfangsefni framundan og settar fram tillögur sem mynda grunn að nýrri stefnu. Þessar tillögur fela í sér mögulegar leiðir til framkvæmda, framtíðarsýn, áherslur og valkosti.
Næstu skref
Eftir að unnið hefur verið úr umsögnum verður endanleg útgáfa stöðumatsins gefin út. Á grundvelli hennar gerir Umhverfisstofnun drög að nýrri stefnu og aðgerðaáætlun sem lögð verður fyrir umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið. Ráðuneytið birtir lokadrög nýrrar stefnu í Samráðsgátt, áður en hún verður endanlega samþykkt. Stefnt er að því að ný stefna um úrgangsforvarnir taki gildi á vordögum 2025 og gildi til næstu 12 ára.
Ef einhverjar spurningar vakna er velkomið að hafa samband við Birgittu Steingrímsdóttur, birgittasteingrims@ust.is.