Kallað eftir umsögnum um drög að nýrri stefnu og aðgerðaráætlun í úrgangsforvörnum

26. janúar 2026

Drög að nýrri stefnu og aðgerðaráætlun í úrgangsforvörnum hafa verið birt á Samráðsgátt stjórnvalda og eru öll hvött til að senda inn umsögn um drögin. Umhverfis- orku- og loftslagsráðuneytið ber ábyrgð á útgáfu stefnu og aðgerðaráætlunar.

Aðdragandi nýrrar stefnu

Árið 2016 var fyrsta stefnan um úrgangsforvarnir á Íslandi gefin út undir nafninu Saman gegn sóun. Á haustmánuðum 2023 tók umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra ákvörðun um að endurskoða stefnuna. Ráðuneytið fól Umhverfis- og orkustofnun að vinna tillögu að nýrri stefnu sem tæki við af þeirri eldri, í samræmi við lögbundið hlutverk stofnunarinnar. Nú hefur stofnunin sent tillögu að nýrri stefnu og aðgerðaráætlun á ráðuneytið, og eru drögin komin í opið samráð á Samráðsgátt stjórnvalda í samræmi við lög um meðhöndlun úrgangs. 

Við vinnu við nýja stefnu var horft til leiðbeininga Stefnuráðs Stjórnarráðsins um vandaða stefnumótun og notast var við handbækur og verkfæri sem stefnuráðið hefur gefið út.

Víðtækt samráð í stefnumótunarferlinu

Stór hluti af ferlinu við mótun nýrrar stefnu hefur verið samráð við ýmsa aðila í atvinnulífinu, hinu opinbera og almenning. Umhverfis- og orkustofnun hélt opna fundi víðs vegar um landið við vinnslu stefnunnar með það að markmiði að fá inn sjónarmið sem flestra. Skjalið „Grænbók – Stöðumat og valkostir“ var gefið út árið 2025, en það var undanfari stefnunnar og inniheldur greiningu um núverandi stöðu úrgangsforvarna á Íslandi.

Opið samráð tryggir ennfremur vítækt samráð og virka aðkomu haghafa að stefnunni og aðgerðaráætlun sem henni fylgir.

Næstu skref

Ráðuneytið gefur út endanlega stefnu og aðgerðaráætlun eftir að unnið hefur verið úr umsögnum úr samráðsferlinu. Stefnt er á stefnan taki gildi í nú vor og gildi næstu 12 árin, aðgerðaráætlunin verður til 3ja ára.