Íslendingar endurnota 20 kg á ári 

14. janúar 2025

Með sífellt vaxandi umsvifum loppumarkaða, samfélagsmiðla og aukinni umhverfisvitund almennings á Íslandi hefur markaður endurnotkunar náð rótfestu á nýliðnum árum. Endurnotkun stuðlar að ríkara hringrásarhagkerfi á Íslandi. Endurnotkun er umhverfisvænni og yfirleitt hagstæðari kostur en kaup á nýjum vörum. Umhverfisstofnun gaf út skýrslu í lok árs 2024 með niðurstöðum úr kortlagningu á endurnotkun á Íslandi árið 2023. Þetta er í fyrsta sinn sem endurnotkun hefur verið mæld hér á landi á þessum skala. Skýrsluna má nálgast hér

Hvað er endurnotkun?

Hugtakið endurnotkun er skilgreint í lögum um meðhöndlun úrgangs nr. 55/2003 sem: „hvers kyns aðgerð þar sem vörur eða íhlutir, sem ekki eru úrgangur, eru notuð í sama tilgangi og þau voru ætluð til í upphafi.“ Dæmi um endurnotkun er þegar notaðar vörur eru seldar í netsölu, sölutorgum á samfélagsmiðlum, nytjamörkuðum eða afhentar gefins á milli fólks. Endurnotkun er hluti af úrgangsforvörnum og með því að kaupa notaðar vörur sparast umhverfisáhrif þess að kaupa nýjar vörur, til dæmis orka, auðlindir og vatn. 

Endurnotkun oftast gefins án milliliða  

Við mælingar og útreikninga á endurnotkun var notast við samevrópska aðferðarfræði. Endurnotkun var mæld fyrir vöruflokkana húsgögn, vefnaðarvörur, raftæki, byggingarefni og annað. Notast var við gögn frá þekktum gagnalindum í bland við hlutfall milliliðalausrar endurnotkunar. Til að reikna það hlutfall var send út könnun til almennings varðandi endurnotkun á þeirra heimili. Niðurstöður spurningakönnunarinnar gáfu mynd á hlutfall milliliðalausrar endurnotkunar fyrir hvern vöruflokk. Þetta hlutfall var yfir 60% fyrir alla vöruflokka. 

Lítið um endurnotkun í byggingariðnaði 

Til að kanna endurnotkun hjá fyrirtækjum var tekið viðtöl við þónokkur fyrirtæki. Við gagnasöfnun fyrir byggingarefni kom í ljós að lítil sem engin endurnotkun á sér stað í þeim geira. Þau fasteignafélög sem sendu gögn voru yfirleitt með enga endurnotkun en nokkur með endurnotkun í 1-2 niðurrifsverkefnum á árinu. Af þeim verktakafélögum sem svöruðu voru allir með 0 kg endurnotkun á árinu.   

Föt minna en 3% 

Heildarendurnotkun á Íslandi var 19,93 kg/mann árið 2023. Húsgögn var stærstur hluti af endurnotkun (40%), næst byggingarefni (29%), raf- og rafeindatæki (14%), vefnaðarvara (3%) og annað (14%), miðað við þyngd.  

Þegar skoðað var nánar niður á vöruflokka voru föt stærsti hlutinn af endurnotkun af vefnaðarvörum. Stór markaður hefur myndast á Íslandi fyrir endursölu á fötum og einnig fara notuð föt oft gefins. Stærstur hluti endurnotkunar á byggingarefnum var timbur. 

Stækkandi markaður 

Sú staðreynd að Íslendingar endurnoti um 20 kg/íbúa af vörum á ári sýnir að hér ríkir endurnotkunarmenning. Stærstur hluti endurnotkunar fer fram í gegn um milliliðalausa farvegi án endurgjalds. Endurnotkun heldur vörum lengur inni í hringrásarhagkerfinu. Við gagnasöfnun kom í ljós að velta loppumarkaða hefur farið stigvaxandi á undanförnum árum. Miðað við þessa stigmögnun má ætla að endurnotkunarmarkaðurinn á Íslandi muni einungis styrkjast í náinni framtíð. 

Vilt þú koma notuðum hlutum í áframhaldandi notkun? 

Auðvelt er að koma hlutum í áframhaldandi notkun með því að koma þeim áfram til vina eða fjölskyldu. Þetta gildir bæði um föt, húsgögn, raftæki og annað. Einnig eru gefins síður á samfélagsmiðlum, markaðstorg, skiptimarkaðir og loppumarkaðir möguleiki. Oft eru vörur í góðu lagi sem henta okkur ekki lengur og því tilvalið að sleppa því að henda eða geyma uppi í skáp og koma hlutunum í not á nýjum stað. Við höfum tekið saman lista yfir aðila sem taka við og selja notaðar flíkur hér á landi, hér undir „kaupa notað“ .