Ecotrophelia keppnin var haldin í London þann 21. og 22. nóvember síðastliðinn. Keppnin hvetur til nýsköpunar og tengir saman nemendur, kennara, vísindamenn og sérfræðinga í matvælageiranum, með það í huga að finna umhverfisvænar lausnir í matvælaframleiðslu. Fyrir fagfólk matvælaiðnaðarins er keppnin dýrmæt uppspretta hæfileikaríks fólks, hugmynda og nýsköpunar.Í ár tóku matvörur frá 16 löndum þátt. Vörurnar eiga flestar sameiginlegt að vera búnar til úr aukaafurðum, afurðum sem annars væru ekki nýttar og myndu enda í ruslinu. Alls kyns sniðugar hugmyndir komu fram en sigurvegari keppninnar í ár kom frá Grikklandi. Sigurvaran er drykkur sem inniheldur mysu frá jógúrtframleiðslu. Mikið magn þessarar aukaafurðar fer til spillis í mjólkuriðnaðinum og því mikilvægt að finna not fyrir hana.
Fulltrúar Íslands í keppninni í ár voru þær Hildur Inga Sveinsdóttir og Málfríður Bjarnadóttir nemar í Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands og Margrét A. Vilhjálmsdóttir nemi í vöruhönnun við Listaháskóla Íslands. Þær framleiddu vöruna Ugly sem er eins konar grunnur sem hægt er að nýta í súpur, sósur o.fl. Varan er gerð úr grænmeti, aðallega tómötum og gulrótum, sem færi annars til spillis vegna t.d. stærðar eða annarra „útlitsgalla“. Þetta er grænmeti sem er mikið framleitt af hér á landi og því miður er einnig miklu magni sóað.
Hægt er að lesa sér betur til um vörurnar sem tóku þátt í keppninni á vefsíðu hennar: Ecotrophelia.org