Við getum öll verið sammála um að líf okkar hefur umturnast á einn eða annan hátt á þeim tæplega níu mánuðum sem kórónuveirufaraldurinn hefur staðið yfir. Í janúar 2020 höfðu mörg okkar aldrei setið fjarfund og nú eru þeir daglegt brauð flestra. Við höfum sleppt því að mæta í líkamsræktarstöðvar og reynt í staðinn að hreyfa okkur úti. Við höfum sleppt handabandi og knúsi en þess í stað brosað og veifað til hvors annars. Þótt faraldurinn hafi sett líf okkar úr skorðum og haft margvísleg neikvæð áhrif í för með sér þá er mikilvægt að draga af honum jákvæðan lærdóm. Til að mynda má sjá líkindi við ástand sem skapast af Covid-19 og ástandi sem hefur nú þegar orðið eða mun skapast vegna loftslagsbreytinga.
Í grunninn þurfa viðbrögð við Covid-19 og loftslagsbreytingum að vera mjög svipuð. Þau krefjast þess að við tökum meira tillit til samfélagsins og mismunandi þarfa þeirra einstaklinga sem það byggja. Í kórónuveirufaraldrinum höfum við þurft að hægja á og jafnvel neita okkur um hluti sem okkur hefur áður þótt sjálfsagðir. Þó hafa margir talað um að þessar breytingar hafi jafnvel haft ófyrirséðar og jákvæðar afleiðingar á persónulegt líf sitt. Meiri samvera með nánustu og minni tími í verslunum, meiri tími úti í náttúru nærumhverfisins og færri ferðalög erlendis hafa kennt mörgum að meta það sem stendur þeim næst. Með færra fólki á ferð, og þar af leiðandi mun minna magn af eldsneytisbruna, mátti líka sjá mengunarský stórborga minnka og dýralíf taka við sér um víðan völl. Allt út af agnarsmárri veiru sem neyddi okkur til að hægja á.
Fjöldi rannsókna hafa sýnt fram á að auðveldast er að breyta venjum okkar í tengslum við stóra lífsviðburði. Margir kannast við að setja áramótaheit eða vilja hlaupa maraþon fyrir stórafmæli. En einnig getur verið auðveldara að breyta gömlum vönum samhliða stórum breytingum, eins og þegar flutt er í nýtt húsnæði eða þegar maður byrjar á nýjum vinnustað. Vegna þess hve víðtæk áhrif kórónuveiru faraldurinn hefur haft í för með sér leynast í honum tækifæri til að gera almennar breytingar á vönum og hegðun til hins betra. Sjáið til dæmis hve fljót við vorum að venjast því að nota grímur í búð og sótthreinsa okkur stanslaust, eitthvað sem okkur hefði líklega þótt undarlegt fyrir ekki meira en ári síðan. Þetta sýnir að við getum vel breytt hegðun okkar. Það mun þó ekki gerast af sjálfu sér og taka þarf meðvitaða ákvörðun um að halda í þær jákvæðu breytingar sem hafa orðið síðustu tólf mánuðina.
Grípum tækifærið og lítum yfir daglegu venjur, hvar leynast tækifæri til að gera betur? Á óvenjulegum tímum er auðveldara að festa breytingar í vana. Margt smátt gerir gerir eitt stórt. Hérna eru nokkrar uppástungur:
- Höldum áfram að vinna heima einn dag í viku eftir covid, og drögum þannig úr umferð
- Kaupum minna, en notað þegar við þurfum að kaupa
- Prófum að taka almenningssamgöngur a.m.k. 1x í viku
- Notaðu tvisvar sinnum meira grænmeti en sagt er til um í hefðbundnum mataruppskriftum
- Eyðum tíma með fjölskyldunni
- Nýtum okkur það sem náttúran býður uppá
Nú átt þú leik.