Hugmyndir að hrekkjavökubúningum

28. október 2021

Það getur verið hressandi í skammdeginu að gera sér dagamun. Það er því kannski ekki að undra að æ fleiri taka upp þann sið að halda upp á hrekkjavöku með því að klæða sig í ógnvekjandi búninga.

Ógurleg og ógnvekjandi textílsóun

En það sem er kannski mest ógurlegt og ógnvekjandi er textíl sóunin sem hlýst af því að kaupa búning sem er svo bara notaður einu sinni. Textíliðnaðurinn er einn sá umfangsmesti í heimi og honum fylgir gríðarleg efnanotkun, ferskvatnsmengun og losun gróðurhúsalofttegunda. Samkvæmt skilgreiningum Umhverfisstofnunar Evrópu (2014) og Norrænu ráðherranefndarinnar (2015) er textíll fjórði stærsti umhverfisþáttur einstaklinga á eftir húsnæði, samgöngum og matvælum. Áætlað hefur verið að við framleiðslu á einum stuttermabol þurfi í kringum 3.000 lítra af vatni! Þetta ásamt því gríðarlega magni af efnavöru sem notað er í virðiskeðjunni hefur í för með sér mikla mengun á ferskvatni í þeim löndum þar sem framleiðslan fer fram. Sameinuðu þjóðirnar hafa áætlað að um 20% af allri mengun sem finna má í skólpi frá iðnaði sé frá textíliðnaðinum. Í virðiskeðjunni á sér einnig stað losun gróðurhúsalofttegunda en talið er að um 8-10% af heildarlosun gróðurhúsalofttegunda í heiminum megi rekja til textíliðnaðarins. 

Lausnir

Við getum lagt okkar af mörkum með því að velja umhverfisvænni hrekkjavökubúninga. Fyrir utan minni neikvæð umhverfisáhrif getur það verið ódýrara og auðveldara að velja slíka búninga. Í stað þess að þeytast á milli búða eða pósthúsa til að ná í sendingar er hægt að nota það sem er hendi næst og borga fyrir það nánast ekki neitt.

Fataslá með hrekkjavökubúningum í vinnunni eða í skólanum

Það getur verið sniðug og auðveld leið til að vera með umhverfisvænni hrekkjavökubúninga að setja upp búningaslá á næstu dögum. Auðvelt er að senda tölvupóst á starfsmenn eða nemendur og hvetja alla til að taka með grímubúninga sem eru ekki lengur í notkun á heimilinu og hengja á slána. Þar geta aðrir starfsmenn náð í búninga fyrir sig eða börnin sín. Hér er tilvalið að koma með búninga sem eru orðnir of litlir á börn sem eru oft svo fljót að vaxa upp úr búningum.

Búa til eigin búning úr því sem er til heima

Það getur verið bæði auðvelt, ódýrt og skemmtilegt að nýta það sem er til heima til að búa til eigin hrekkjavökubúning. Hér fyrir neðan eru 12 hugmyndir að búningum sem auðvelt er að gera úr því sem finnst heimafyrir. Ef eitthvað vantar í búninginn er hægt að aðlaga hann, kaupa notað eða fara yfir í næstu hugmynd.

  1. Klassíski draugurinn. Allt sem þarf er gamalt lak og skæri. Búningurinn er klár þegar búið er að klippa augu á lakið. Bú!
  2. Dýrabúningar, t.d. kisa, refur, einhyrningur eða hundur. Allt sem þarf er spöng og efnisbútur til að búa til eyru eða horn
  3. Rauða drottningin úr Lísu í Undralandi. Allt sem þarf er rauður kjóll, spilastokkur og pappaspjald. Pappaspjaldið er nýtt til að búa til kraga sem spilin eru svo límd á
  4. Fuglahræða. Allt sem þarf eru smekkbuxur, köflótt skyrta og stráhattur
  5. Men in black. Allt sem þarf eru svört jakkaföt og sólgleraugu
  6. Leðurblaka. Allt sem þarf er ónýt regnhlíf sem er klippt í tvennt og saumuð á hettupeysu
  7. Sigurvegari. Allt sem þarf er svitaband og medalíur
  8. Audrey Hepburn. Allt sem þarf er svartur kjóll og nokkrar perlufestar
  9. Ræningi. Allt sem þarf er röndóttar bolur, svört húfa og svartar buxur. Hægt að setja toppinn yfir y-ið með því að teikna peningamerki á taupoka
  10. Beinagrind. Allt sem þarf er hvítur gamall bolur og hlýrabolur. Búið til beinagrindamynstur í hvíta bolinn með því að klippa í hann og hafið hlýrabolinn svo fyrir innan
  11. Wednesday Adams. Allt sem þarf er skyrta, svartur kjóll utanyfir og hárið fléttað í tvær fléttur.
  12. Kaktus. Allt sem þarf er grænn bolur/ skyrta /kjóll og snæri. Snærið er saumað í græna bolinn hér og þar og þá er kominn kaktus.

Fleiri hugmyndir og nánari leiðbeiningar má finna hér.

Kaupa notaða búninga

Það er hægt að kaupa og auglýsa eftir hrekkjavökubúningum á allskonar grúppum á Facebook. Til dæmis Barnavörur til sölu eða Föt til sölu. Einnig geta hrekkjavökubúningar eða efniviður í hrekkjavökubúninga leynst í verslunum sem selja notuð föt.

  • Fatabúðir Rauða Krossins  – um allt land. 
  • Aftur nýtt – Sunnuhlíð 12, Akureyri. Básar þar sem hægt er að kaupa og selja notaðan fatnað. 
  • Barnaloppan– Skeifunni 11, Reykjavík. Básar þar sem hægt er að kaupa og selja notaðar barnavörur. 
  • Extraloppan – Smáralind. Þar er hægt að kaupa og selja notuð föt fyrir fullorðna. 
  • Hertex – Reykjavík og Akureyri. Fata og nytjamarkaður. 
  • Kringlubazaar – Kringlunni. Þar er hægt að kaupa og selja notuð föt fyrir bæði börn og fullorðna. 
  • Spúútnik – Kringlunni og Laugavegi 28b, Reykjavík. Notuð föt til sölu. 
  • Stína fína – Strandgötu 29, Hafnarfirði. Umboðssala á notuðum fatnaði, skóm og fleira fyrir konur. 
  • Trendport – Hafnargata 60, Keflavík. Þar er hægt að kaupa og selja notuð föt fyrir bæði börn og fullorðna. 
  • Wasteland Reykjavík – Ingólfsstræti 5, Reykjavík. Notuð föt til sölu. 
  • Verzlanahöllin – Laugavegi 26, Reykjavík. Þar er hægt að kaupa og selja notuð föt. 

Fá lánaða búninga

Um að gera að spyrja ættingja, vini eða nágranna hvort þeir eigi einhverja búninga sem hægt er að fá lánaða. Það er líka hægt að leigja búninga hjá Saumsprettunni.