Hrútspungar og rómantík á Bóndadaginn?

20. janúar 2022

Er bóndadagurinn dagur nýtni? 

Á föstudaginn hefst Þorrinn með bóndadeginum. Ekki er ljóst hve löng hefð er fyrir því að fagna húsbændum á þessum degi en í Þjóðsögum Jóns Árnasonar (útg. upp úr miðri 19. öld) kemur meðal annars fram:  

Sumstaðar á Norðurlandi er fyrsti þorradagur enn í dag kallaður „bóndadagur“ á þá húsfreyjan að halda vel til bónda síns og heita þau hátíðabrigði enn „þorrablót““.  

Síðan á seinasta fjórðungi 19. aldar hefur verið til siðs að halda Þorrablót á þessum degi eða seinna í mánuðinum Þorranum. Það er áhugavert að skoða Þorrablót í samhengi við sóun. Eins og oft í veislum þá er engu til sparað, en aftur á móti má segja að nýtni ráði för við val á stórum hluta veitinganna enda eru þær samansettar úr afurðum sem annars eru lítið nýttar í dag, hrútspungum, sviðakjömmum, hákarli og svo mætti áfram telja. Þetta er líka oft matur sem geymdur hefur verið á orkunýtin hátt, enda er ísskápur ekki jafn nauðsynlegur þegar maturinn er súrsaður. Það er því margt í þessari gömlu hefð sem við getum haldið í til að fagna bóndanum á þessum degi á umhverfisvænni hátt í stað þess að breyta honum í enn eina ofneysluveisluna fulla af gjöfum eins og hefur orðið með marga daga í íslensku almanaksári.  

En það eru ekki allir sem borða hin hefðbundna Þorramat og þá er um að gera að vera skapandi en halda samt í nýtnina úr þessari hefð, t.d. með því að borða súrsað grænmeti á þessum degi. En þá er hægt að vera búin að súrsa það grænmeti sem fellur til og bjarga þarf frá matarsóun vikurnar á undan.  

Í seinni tíð hefur deginum oftar verið fagnað með blómvendi handa bóndanum, og ef það er gert þá er umhverfisvænna að hafa hann íslenskan fremur en innfluttan og litlir vendir eru ekki síður sjarmerandi en stórir en þeim fylgir minna umhverfisspor.  

En svo þarf ekki að flækja málin mikið og margir sem fagna þessum degi með kaffibolla í rúmið eða með því að elda uppáhalds kvöldmat bóndans. Hér skiptir mestu máli að falla ekki í þá gildru að líða eins og það sé nauðsynlegt að gefa hlutbundna gjöf til þess að vera góður maki og frekar hugsa hvað þínum bónda þætti skemmtilegast að fá. Sumum gæti jafnvel þótt afar rómantískt að vera gerður greiði eins og að fara með bílinn í hreinsun eða skipta um ljósaperuna inni í stofu sem hefur verið dauð í tvær vikur. Rómantík er misjöfn á milli sambanda og um að gera að skilgreina hana sjálf í stað þess að láta markaðsöflin skilgreina það fyrir sig.