Það er vel hægt að halda upp á Hrekkjavöku án þess að gera umhverfinu grikk! Við getum gert hátíðina bæði „hræðilega“ og umhverfisvæna.
Hér eru nokkrar einfaldar og skemmtilegar leiðir:
Endurnýtið búninga!
Það er nóg til af notuðum búningum – kíkið í loppur, búningaskiptimarkaði eða notið samfélagsmiðla til að bjóða fram eða biðja um búninga til láns.
Setjið upp búningaskiptimarkað í vinnunni: Sjá leiðbeiningar hér.
Nýtið það sem til er heima.
Leyfið sköpunarkraftinum að njóta sín og búið til búninga úr fatnaði eða efni sem þegar er til á heimilinu. Þetta getur jafnframt orðið notaleg og skapandi samverustund fyrir fjölskylduna.
Skreytið með skynsemi.
Það þarf ekki að kaupa nýjar plastskreytingar ár hvert – endurnýtið, búið til efni sem fellur til á heimilinu eða finnið leiðir til að nota skrautið aftur næsta ár.
Graskerið á að enda í pottinum, ekki ruslinu!
Á hverju ári fara þúsundir tonna af graskerum í ruslið án þess að innihaldið sé nýtt. Nýtið fræin og kjötið – eða finnið aðrar leiðir til að gera „hræðilegan“ hrekkjavökumat. Skerið til dæmis út paprikur eða búið til blóðuga fingur úr pylsum og tómatsósu.
Nýtið hugmyndaflugið
Það er svo gaman að hugsa út fyrir kassann, nýta hugmyndaflugið til að gera eitthvað öðruvísi sem jafnframt felur ekki í sér sóun eða grikk gegn umhverfinu!
