Fjölmenni sótti Óhóf – þörf á vitundarvakningu

18. ágúst 2017

Óhóf, hóf til vitundarvakningar um matarsóun, fór fram á Petersen svítunni 10. ágúst sl. Atburðurinn var mjög vel sóttur, en Umhverfisstofnun var í hópi þeirra sem stóðu að viðburðinum ásamt Gamla bíó, matreiðslumeistaranum Hrefnu Sætran og samtökunum Vakandi með Rakel Garðarsdóttur í fararbroddi. Gert er ráð fyrir að tæplega 200 hafi komið saman í Óhófinu.

Atburðir þar sem boðið er upp á kræsingar úr illseljanlegum matvörum eru algengir í Evrópu. Þeir þykja skemmtileg leið til að vekja athygli á því óhófi sem við lifum í og til þess var leikurinn gerður.
Mikil umræða varð um matarsóun í kringum atburðinn. Gáfust mörg tækifæri til að fræða landann um aðgerðir til að sporna við matarsóun.

Við lifum á tímum óhófs þar sem þriðjungur matvæla sem framleidd eru er hent einhversstaðar í virðiskeðjunni. Þetta þarf að breytast. Skipuleggjendur Óhófs vildu sýna neytendum og fyrirtækjum að það eru til leiðir til að minnka matarsóun. Þar má til dæmis nefna að vinna úr matvælunum þegar þau liggja undir skemmdum, með að frysta, með að vera ekki hrædd við „best fyrir“ merkingu á matvörum (Nota nefið!), með að taka afganga með sér heim, nýta afganga o.s.frv.

Hrefna Sætran útbjó gómsætar brúskettur úr snittubrauði og grænmeti sem ekki seljast í hillum verslana. Einnig var boðið upp á dýrindis „Blóðugar Maríur“ úr útlitsgölluðum tómötum með mysuvodka!

Mysuvodkinn kom frá Foss distillery, sem í samvinnu við Mjólkursamsöluna og KS eru að þróa mysuvodka úr mjólkursykri sem fellur til við ostaframleiðslu. Þessari afurð er annars hent í framleiðsluferlinu.

Gæðabakstur lagði til snittubrauð, en það brauð sem selst ekki ferskt í verslunum er annars tekið tilbaka og gefið í svínafóður. Sölufélag Garðyrkjubænda lagði til grænmeti og tómata í kokteilinn, það grænmeti hafði ekki komist í búðarhillurnar sökum útlitsgalla en er nýtt eftir fremsta megni í vörulínu félagsins „Í einum grænum“ sem býr til fullunnar vörur úr íslensku grænmeti.