Tveggja daga hugmyndakeppninni Tækjaþoni lauk í kvöld þegar teymi að baki hugmyndinni Fixmix stóð uppi sem sigurvegari.
Fixmix er vefsíða sem er ætluð sem fyrsta stopp þegar fólk lendir í því að raftæki á heimilinu virka ekki. Þar er hægt að finna einfaldar lausnir á algengum vandamálum og ef þarf er fólki vísað á viðeigandi viðgerðaraðila. Lausnin vekur fólk til vitundar um viðgerðir og endingu, dregur úr ofneyslu raftækja með því að stuðla að lengri líftíma þeirra og lyftir viðgerðamenningu upp í samfélaginu.
Teymið bak við hugmyndina samanstóð af Silju Ástudóttur, Daníel Grétarssyni, Ástu Þórisdóttur, Svani Kristjánssyni, Báru Örk Melsted og Evan Lloyd Greene. Þess má til gamans geta að þau tilheyra öll sömu fjölskyldunni!
Vefsíða sem eflir viðgerðamenningu
Dómnefnd skipuðu Sigrún Ágústsdóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar, Aldís Amah Hamilton, leikkona og Freyr Friðfinnsson, alþjóðafulltrúi hjá KLAK – Icelandic Startups.
Að mati dómnefndar felst styrkur lausnarinnar einna helst í eflingu viðgerðarmenningar hér á landi auk þess sem hún þótti raunhæf og líkleg til framkvæmdar. Þá vóg fjölbreytni teymismeðlima og sterk liðsheild einnig hátt. Ávinningur lausnarinnar sé mikill fyrir samfélag og umhverfi.
Íslendingar sóa meira en aðrir
Íslendingar eiga Evrópumet í magni raftækja sem sett eru á markað og lítill hluti þeirra skilar sér í endurvinnslu. Til þess að tækla þessar áskoranir blésu Saman gegn sóun, Úrvinnslusjóður, Sorpa og Tækniskólinn til Tækjaþons um helgina. Fjölbreyttur hópur áhugasamra þátttakenda kom saman í húsakynnum Umhverfisstofnunar og Góða hirðisins og freistuðu þess að skapa lausnir gegn raftækjasóun. Mikill hugur var í þátttakendum og hátt í 100 metnaðarfullar hugmyndir komust á blað. Fjögur teymi þróuðu jafn margar lausnir áfram og hafði dómnefnd orð á því að væri til mikils að vinna fyrir samfélagið yrðu þær að veruleika.
Það er viðeigandi að verðlauna lausnir gegn raftækjasóun í dag, en 14. október er alþjóðlegur dagur raftækjaúrgangs.
Saman gegn sóun óskar Fixmix innilega til hamingju með sigurinn og þakkar öllum þeim sem frábæru þátttakendum sem tóku þátt í Tækjaþoni með okkur!