Finnum sanna hamingju á degi einhleypra

11. nóvember 2021

Nú fer tími neysluhátíða að ganga í garð. Það byrjar með degi einhleypra, síðan kemur svartur föstudagur, sem er farin að teygja anga sína yfir margar vikur, og að ógleymdum jólunum. Dagur einhleypra er haldinn ár hvert ellefta nóvember, eða 11.11. Þann dag eru einhleypir hvattir til þess að fylla upp í tómleikann í lífi sínu með neysluvarningi.

En stemmir það virkilega að einhleypt fólk sé upp til hópa einmana og óhamingjusamt? Og ef svo er, mun neysluvarningur virkilega hjálpa?

Mýta að einhleypir séu óhamingjusamir

Það eru margar rannsóknir sem benda til þess að það sé alls ekki svo neikvætt að vera einhleypur. Til dæmis eru einhleypir duglegri að hreyfa sig heldur en þeir sem eru giftir. Þeir eru líka duglegri að halda sambandi við nágranna, vini, foreldra og systkyni. Það er líka ýmislegt sem bendir til þess að einhleypt fólk hafi í meira mæli brennandi áhuga á því sem það er að gera í vinnunni. Hreyfing, samverustundir og áhugavert starf eru allt hlutir sem stuðla að vellíðan og lífshamingju. Það er því mikilvægt að kaupa ekki mýtuna sem verið er að selja á degi einhleypra um að – „Þú ert ömurlegur, einmana og lífið þitt er sorglegt“.

Efnishyggja og andleg vanlíðan 

En ef svo óheppilega vildi til að þú ert daufur í dálkinn á degi einhleypra, mun neysluvarningur hjálpa? Flestir þekkja það hvernig nýir hlutir geta veitt okkur hamingju, en sú hamingju endist oftast ekki lengi og fljótt kemur löngun í að kaupa eitthvað nýtt. Þetta getur orðið að vítahring neyslu, sem getur verið skaðlegur fyrir andlega heilsu, veskið okkar og umhverfið.  

Efnishyggja er áhersla á að eiga og kaupa hluti til þess að öðlast hamingju, betra sjálfsálit og betra álit annarra. Þessu fylgir að meiri tíma er varið í neyslu, minni sparnaður og að hlutum er oftar skipt út fyrir nýja. Rannsóknir hafa endurtekið gefið til kynna neikvæð áhrif efnishyggju á andlega líðan. Nýleg samantekt rannsókna sýndi skýrt að efnishyggja tengist minni lífsánægju, lægra sjálfsáliti, kvíða- og þunglyndiseinkennum og verri heilsu. 

Þetta bendir því til að sú hugmynd að efnislegir hlutir (t.d. föt, skór, lífstílsvörur) muni veita okkur hamingju geti verið okkur skaðleg. Það er því mikilvægt í neyslusamfélagi eins og á Íslandi að velta fyrir sér hvað veitir okkur raunverulega hamingju. Það getur verið leið til að huga að geðheilsunni.  

Hvað get ég gert í staðinn?

Verum meðvituð þegar við erum að versla um hvort okkur vanti þennan hlut eða hvort auglýsingar hafi talið okkur trú um að lífið okkur verði betra ef við eigum hann. Það er vel hægt að breyta neysluvenjum sínum og þar með hafa einnig meiri tíma og pening til að verja í annað. Minnum okkur reglulega á það sem veitir okkur sanna ánægju, t.d. samvera með fólkinu í kringum okkur eða áhugamálin okkar. 

Hugmyndir fyrir geðheilsuna og umhverfið sem geta komið í stað neyslu: 

  • Samverustundir 
  • Hugleiðsla 
  • Hreyfing 
  • Nudd 
  • Elda góðan mat  
  • Lesa bók eða horfa á mynd  
  • Make love, not co2