Evrópska nýtnivikan verður haldin vikuna 22. – 30. nóvember 2025. Markmið vikunnar er að hvetja fólk til að draga úr óþarfa neyslu, nýta hluti betur og draga úr myndun úrgangs. Þema ársins er raf- og rafeindatækjaúrgangur (rafrusl).
Af hverju rafrusl?
Í takt við aukna sölu á alls kyns raftækjum er magn rafrusls sífellt að aukast en rafrusl er sá úrgangsflokkur sem fer einna mest vaxandi af öllum úrgangsflokkum í Evrópu.
Dæmi um raftæki sem síðar enda sem rafrusl eru: farsímar, tölvur, sjónvörp, ísskápar, heimilistæki, lampar, lækningatæki og sólarsellur.
Raftæki eru samsett úr alls konar mismunandi efnum og sum þeirra innihalda skaðleg efni. Ef raftæki fara í rangan farveg í lok líftíma geta þau valdið alvarlegum umhverfis- og heilsufarsvandamálum. Oft innihalda raftæki sjaldgæf, verðmæt og þýðingarmikil hráefni svo það felst mikið virði í að koma þeim í endurvinnslu.
Nokkrar staðreyndir um rafrusl
- 5400 tonnum af rafrusli er safnað á Íslandi árlega
- 14,4 milljón tonn raf- og rafeindatækja eru sett á markað í Evrópu á hverju ári
- 5 milljón tonnum af raf- og rafeindatækjaúrgangi er safnað í Evrópu árlega
- 11,2 kg/íbúa er safnað af rafrusli í Evrópu
Markmið evrópskrar nýtniviku 2025
Markmið nýtnivikunnar í ár er að:
- vekja athygli á neikvæðum áhrifum rafrusls á umhverfið
- minna á gildi viðgerða og endurnotkunar
- íhuga hvort við höfum raunverulega þörf fyrir ný tæki
- skila gömlum tækjum á réttan stað
Mikilvægasta leiðin til að minnka rafrusl er að draga úr eftirspurn eftir nýjum tækjum.
Þannig stuðlum við að sjálfbærari neyslu, minni auðlindanotkun og heilbrigðara umhverfi.
Hvernig getum við tekið þátt?
Við hvetjum öll til að taka þátt í nýtniviku – hvort sem er með því að skrá sig hér eða[ÞU1] deila hugmyndum og aðgerðum með Saman gegn sóun.
Hægt er að:
- vekja athygli á málefninu,
- deila fræðsluefni,
- halda viðburði eða viðgerðakaffi,
- safna gömlum raftækjum til endurvinnslu á vinnustað,
- eða dreifa fræðsluefni á samfélagsmiðlum.
Hér má nálgast pakka með fríu markaðsefni og meira fræðsluefni um raftæki á Saman gegn sóun – raftæki
Endilega taggið saman gegn sóun í því sem þið gerið á samfélagsmiðlum eða sendið okkur línu.
Hvað getum við gert til að minnka rafrusl?
- Kaupa minna
- Nota lengur
- Kaupa notað
- Koma í áframhaldandi notkun
- Skila á réttan stað
Efni frá fyrri nýtnivikum:
Endilega kynnið ykkur einnig efni frá fyrri nýtnivikum.
- Það er óbragð af matarsóun – plakat
- Sóun er dottin úr tísku – plakat og leiðbeiningar um fataskiptimarkaði
- Höfum það umbúðalaust – leiðbeiningar fyrir söluaðila um afgreiðslu matvæla í ílát viðskiptavina
- Höfum það umbúðalaust – leiðbeiningar fyrir neytendur um notkun fjölnota umbúða
- Það sem ekki sést – fyrirlestraröð, erindi frá Jukka Heinonen, Hrefnu Björgu Gylfadóttur og Árna Jóni Eggertssyni.
