Árangursvísar með úrgangsforvarnarstefnu

31. mars 2021

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur nú birt uppfærslu á viðauka við Saman gegn sóun, almenna stefnu um úrgangsforvarnir.

Þetta er önnur útgáfa viðaukans, en hann hefur það að markmiði að skilgreina og fylgjast með árangursvísum sem settir hafa verið til að fylgjast með framgangi stefnunnar. Í stefnunni er fjallað um níu áhersluflokka; matvæli, plast, textíl, raftæki, grænar byggingar, pappír, aukaafurðir frá vinnslu kjöts og fisks, drykkjarvöruumbúðir og úrgang frá stóriðju.

Í uppfærðum viðauka má sjá stöðuna á árangursvísunum fram til ársins 2019. Almennt hefur úrgangsmagn aukist lítillega yfir síðustu ár, en þó má sjá vísbendingar um töluverðan samdrátt í notkun einnota plastpoka sem skýra má af lagasetningu þess efnis að skylda gjaldtöku poka og í framhaldinu bann við afhendingu plastpoka á sölustað vara.

Nýr árangursvísir um matarsóun

Frá síðustu útgáfu hafa bæst við töluleg markmið um samdrátt í matarsóun. Árangursvísarnir byggja á fyrirmælum Evrópusambandsins um samræmdar mælingar á matarsóun og eru tölulegu markmiðin sem sett eru samhljóða tillögum starfshóps ráðherra að aðgerðum gegn matarsóun. Áætlað er að unnið verði að því að afla upplýsinga um magn matarsóunar í öllum hlekkjum virðiskeðjunnar seinna á þessu ári til að hægt verði að fylgjast með þróun ekki bara á heimilum heldur líka í framleiðslu, smásölu og í veitinga- og þjónustugeiranum.