Áramótaheit með manneskjuna og plánetuna í forgrunni

31. desember 2021

Flestöll höfum við einhverntíma sett okkur áramótheit. Áramótin gefa okkur tækifæri til þess að horfa bæði tilbaka og fram á veginn. Margir komast þá að því að þeir myndu vilja vera heilbrigðari, hraustari og tileinka sér betri vana. Mikið af okkar óheilbrigðu vönum eiga líka samleið með óheilbrigði plánetunnar og nærumhverfisins. Áramótin geta því gefið okkur gott tækifæri til að stofna til heilbrigðara sambands við okkur sjálf og náttúrna.

En þó að margir kannist við að strengja sér heit, er hinsvegar allur gangur á því hversu vel það gengur að halda þau. Til að auka líkurnar á árangri koma hér nokkur góð ráð sem byggja á nýjustu tækni og vísindum úr atferlisfræðinni.

 1. Hálfnað er verk er heitið er! Margir halda að áramótaheit þjóni engum tilgangi þar sem þau skili engum árangri. Í andstöðu við þetta hefur verið sýnt fram á tífaldan árangur hjá þeim sem settu sér áramótaheit borið saman við þá sem vilja breyta hegðun en settu sér engin heit.

  Þú gætir til dæmis komist að því þegar þú horfir tilbaka á árið 2020 (a.k.a. Annus Horribilis) að þrátt fyrir þær miklu áskoranir sem heimsfaraldurinn hafði í för með sér þá eru fjarfundir góðir til síns brúks. Afhverju ekki að heita því að halda áfram að vinna í fjarvinnu 2 daga í viku eftir að heimsfaraldri líkur?

 1. Ákveddu að gera meira grænt! Í stærstu tilraun sem gerð hefur verið á árangri áramótaheita sýndu niðurstöðurnar að þeim gengur betur sem setja sér heit um að gera meira af einhverju, í staðinn fyrir að ætla að hætta að gera eitthvað.

  Þú gætir til dæmis dregið úr kolefnisspori þeirra matvæla sem þú borðar með því að ákveða að borða meira af grænmeti, ávöxtum, hnetum og baunum (í staðinn fyrir að heita því að hætta að borða rautt kjöt).

 1. Vertu SMART! Það fer aldrei úr tísku að vera SMART í markmiðasetningu. Settu þér markmið sem eru skýr, mælanleg, aðlaðandi, raunhæf og tímasett og náðu þannig betri árangri. 

  Til dæmis gætir þú gert það meira SMART að draga úr matasóun. Þú gætir heitið því að einu sinni í viku eldar þú úr því sem er til í ísskápnum. Kallaðu það svo lata fimmtudaga og njóttu þess að þurfa ekki að fara út í búð, skipuleggja hvað þú ætlar að hafa í matinn, né eyða pening þann daginn.

 1. Maður er manns gaman. Nýttu þér að við erum félagsverur í þágu umhverfisins. Fylgjumst með fólki sem er að gera góða hluti í umhverfismálum og hættum að fylgjast með fólki sem stuðlar að of mikilli neyslu. Fáðu svo endilega einhvern í lið með þér í þinni grænu vegferð.

  Til dæmis getur þú byrjað á því að segja fólki frá áramótaheitinu þínu og með því aukið líkurnar á því að þú náir settum markmiðum. Þú getur líka talað við vin eða maka og þið getið sett ykkur markmið saman. Svo er líka hægt að hreinsa til í samfélagsmiðlunum og skrá sig  af póstlista verslanna, og minnka þannig freistingar.

 1. Gert er betra en fullkomið. Umhverfisvænn lífstíll þarf ekki að vera allt eða ekkert lífstíll. Munum að við erum mannleg, við gerum mistök og að enginn er 100% fullkomin. Það skilar oft líka mun betri árangri að ná markmiðum í skrefum.

  Þú getur til dæmis byrjað á því að skipta yfir í umhverfisvænni almenningssamgöngur einu sinn í viku. Þremur mánuðum seinna getur þú svo prófað að bæta við öðrum degi.