Aðgerðaáætlun gegn matarsóun komin út

27. september 2021

Ný aðgerðaáætlun gegn matarsóun hefur verið lögð fram af umhverfis- og auðlindaráðherra. Hún samanstendur af 24 aðgerðum sem snúa að allri virðiskeðju matvæla, frá frumframleiðslu til neytenda. Markmið aðgerðanna er að minnka matarsóun um 30% fyrir árið 2025 og um 50% fyrir árið 2030. 

„Hér eru settar fram aðgerðir sem miða að því að Ísland nái markmiðum sínum um minni matarsóun. Með því að minnka matarsóun drögum við úr losun gróðurhúsalofttegunda, myndun úrgangs og ágangi á takmarkaðar auðlindir jarðar. Við aukum fæðuöryggi, styðjum við líffræðilega fjölbreytni og spörum peninga. Þessi barátta margborgar sig.“

segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, sem lagði fram áætlunina.

Samstillt átak stjórnvalda, atvinnulífs og almennings

Framkvæmd 15 aðgerða er á ábyrgð stjórnvalda og 9 aðgerða á ábyrgð atvinnulífsins. Aðgerðunum má skipta í fjóra flokka:  

  1. Atvinnulífið og aukið samstarf 
  2. Rannsóknir og nýsköpun 
  3. Menntun og fræðsla 
  4. Hagrænir hvatar og regluverk 

Áætlunin er í samræmi við aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum og stefnu um úrgangsforvarnir. Hún gerir ráð fyrir samstilltu átaki samfélagsins alls; atvinnulífs, almennings og stjórnvalda.

Á meðal aðgerða eru að: 

  • Að auka samstarf atvinnulífs og stjórnvalda.
  • Að koma á fót reglulegum mælingum á matarsóun.
  • Að innleiða á hagræna hvata.
  • Að auka menntun og fræðsla. 
  • Að styðja við nýsköpun, rannsóknir og þróunarvinnu sem dregur úr matarsóun.

Ábyrgð Umhverfisstofnunar

Umhverfisstofnun kemur að fjölda aðgerða í samstarfi við hagaðila. Stofnunin ber ábyrgð á að koma á reglubundnum mælingum á matarsóun og að rannsaka orsakir matarsóunnar á heimilum. Auk þess ber Umhverfisstofnun ábyrgð á upplýsingamiðlun um matarsóun og matarsóunarverkefni og að nýta fjölbreyttar aðferðir til þess að veita almenningi stuðning við að draga úr matarsóun.  Saman gegn sóun heldur utan um þessar aðgerðir og nú þegar er hægt að nálgast fjölbreytt efni um matarsóun hér.

Starfshópur um áætlunina

Aðgerðaáætlunin byggir á vinnu starfshóps sem skipaður var árið 2019 til að móta tillögur gegn matarsóun. Í starfshópnum sátu auk fulltrúa Umhverfisstofnunar, fulltrúar stjórnvalda, atvinnulífs og frjálsra félagasamtaka.